Eldri borgarar úr Grafarvogi í heimsókn

Eldri borgarar sem taka þátt í safnaðarstarfi Grafarvogskirkju komu í heimsókn í Seltjarnarneskirkju þriðjudaginn 6. mars kl. 11. Bæjarstjóri Seltjarnarness, Ásgerður Halldórsdóttir fór um borð í rútu gestanna rétt fyrir kl. 11 við Vegamót á Nesvegi. Hún bauð gestina 58 velkomna á Seltjarnarnes og kom með hópnum í Seltjarnarneskirkju.

Bjarni Þór Bjarnason, settur sóknarprestur, bauð gestina velkomna ásamt fjölmörgum Seltirningum sem taka þátt í starfi eldri borgara á Nesinu. Eftir stutta helgistund ávarpaði bæjarstjóri viðstadda. Þá flutti Guðmundur Einarsson, formaður sóknarnefndar, erindi um Seltjarnarnes í sögu og samtíð. Jón Jónsson, heildsali og Seltirningur, söng við undirleik Friðriks Vignis Stefánssonar, organista. Var góður rómur gerður að söng Jóns. Stundinni í kirkjunni lauk með því að allir sungu Son Guðs ertu með sanni.


Sigurður Grétar Helgason skipaður sóknarprestur kom með hópnum, en hann þjónar í Grafarvogi til loka júlímánaðar. Í safnaðarheimilinu höfðu kirkjurverðirnir Svava og Sigríður Ósk töfrað fram heita og kalda brauðrétti. Voru allir mjög ánægðir með veitingarnar. Þá fór fram fjöldasöngur við undirleik Friðriks Vignis á harmóniku. Fólkið tók vel undir sönginn og var beðið um aukalag. Þar á eftir héldu gestir með sóknarpresti og formanni sóknarnefndar í Nesstofu þar sem umsjónarmaður tók á móti hópnum. Það var ánægður og glaður hópur sem hélt tilbaka í uppsvetir Reykjavíkur eftir ánægjulega heimsókn á Nesið.

Við þökkum fyrir heimsóknina.