Hugvekja frá 26.09.2017 eftir Elísabet Jónsdóttur

Í minnungunni var þetta allt öðru vísi.

Það var eitt sunnudagskvöld þegar við vinkonurnar höfðum ákveðið að fara í göngu að það ausringdi. Við forum samt og lögðum bílnum við Eiðistorg og gengum inn í hverfið. Ég ákvað að sýna vinkonu minni æskuheimili mitt Blómvelli.

Þegar ég kom að húsinu var það svo lítið og ég velti fyrir mér hvernig allt komst fyrir í því sem var þar. Pabbi keypti þetta hús þegar ég var fimm ára og bróðir minn eins árs. Það var innkeyrsla frá Nesvegi og þar komust fleiri en einn bíll, en núna var allt svo þröngt og lítið. Útidyrnar snúa í vestur og þar var hægt að fara í skautana á vetrum og renna sér eftir skurðunum út á Haugatjörn eða Eiðistjörn og hitta krakka sem voru þar.

Þar fyrir innan var ytri forstofa og síðan gangur sem var langur, því þaðan var gengið inn í eldhúsið, stofurnar, baðherberið og svefnherbergið. Upp á vegg í ganginum var sími, númerið var 1089. Á ytri forstofunni var kókósrenningur en á innri ganginum var dökkrauður dregill með mynstri úr ull. Undir dreglunum var gólfdúkur eins og á öllu húsinu nema vaskahúsinu og baðinu þau voru máluð. Allt húsið var málað fyrst með gulleitri málningu, en seinna, áður en ég fermdist, var allt málð, eldúsið hvítt og baðið en stofunurnar í bleiku grænu og gulu. Loftin í öðrum lit, sennilega hvít en á milli lofts og veggja voru listar beggja megin við, með ferhyrning í hornunum. Listarnir voru málaðir með gylltu. Í stofunni voru þrír veggir gulir og einn bleikur. Mamma keypti svo gardinuefni og saumaði rósóttar gardínur. Sófasettið var með gráröndóttu plussi og í því voru púðar sem mamma hafði saumað út, í. Blóm voru líka í stofunni og myndir á veggjunum.

Borðstofan var við hliðina og innangengt þar voru innbyggðir skápar, því það var ekki pláss fyrir þá í svefnherberginu. Borðstofuborð, stólar og hár skeynkur frá Guðmundi blinda voru í borðstofunni. Þar voru öðru vísi gardínur og blóm í glugganum. Ekkert teppi var á borðstofunni, bara dúkur, en það var gólfteppi á stofunni sem ekki náði út í horn og gólfið stífbónað í kring.

Svefnherberið var í austurenda hússins þar sváfum við öll, mamma, pabbi, bróðir minn og ég. Það voru kojur fyrir okkur ég var í efri koju, því ég var eldri. Hvað hún mamma gat búið vel um hjónarúmið og sléttað vel úr tvíbreiðri sænginni. Sængurfatakassi var við hlið hjónarúmsins en þar vor aldrei geymd sængurföt heldur e-ð annað. Allir slökkvara í húsinu vor svartir, ferkantaðir og var annar takkinn svartur og hinn svartur með hvítum hring innan í.

Eftir að systir mín fæddist þá var þröngt um okkur og það var byggt ofan á húsið. Þá fengum við systkinin hvort sitt herbergið og stuttu seinna fór ég að heiman. Í þessu húsi fæddust tvær stúlkur, dóttir mín og systir mín.

Eldhúsið var svo lítið að það var ekki hægt að borða í því, svo við borðuðum í borðstofunni, en þar var eina borðið í húsinu og þar lærði ég og saumaði dúkkuföt, eða föndraði það sem mér datt í hug en ég lifði mikið í mínum hugarheimi.
Í eldhúsinu til vinstri, þegar gengið var inn, var eldavélin, ísskápur og bak við hurðina var vaskurinn eldúsborðið og skápar fyrir ofan og neðan það og við útvegginn skápur sem náði niður í gólf og upp í loft og var kaldur. Þar var geymt gróft salt sem ég fékk mér stundum og sveskjur sem ég tók stundum í leyfisleysi. Þegar við fluttum var bróðir minn ekki farinn að ganga og hann skreið ekki, heldur færði sig áfram á rassinum með hendurnar fyrir framn sig eins og stýri. Hann fór einu sinni í neðsta skápinn í eldhúsinu og náði í bökunardropa, sem mamma geymdi þar og fékk sér sopa sem leiddi af sér ógurlegt öskur. Mamma hljóp til og hringdi í pabba og hann fékk þær upplýsingar að gefa stráknum mjólk til að jafna áhrifin af áfengu dropunum. Þetta var sem betur fer ekki til þess að hann yrði alkahólisti. Hann er sómamaður hann bróðir minn.
Fyrir ofan ofninn í eldhúsinu var puntuhandklæði útsaumað af mömmu, hún átti fleir enn eitt. Ísskápurinn var hjá okkur sennilega á undan mörgum heimilum, hrærivél og strauvél og í þvotthúsinu þvottavél sem hét Thor. Pabbi keypti þetta allt í gegnum vinnuna sem hann stundaði, en hann keyrði út Bíldudalsgrænar þegar ég var lítil en verksmiðjan var í eigu Gísla Jónssonar alþingismanns. Mamma var líka komin á bíl rétt eftir 1950 sem ekki var algengt í þá daga.Systir mín fæddist 1952 og var hún sett í þvottakörfu þess tíma burðarrúm og höfð á milli okkar systkininanna í aftursæti bílsins, sem var Austin, uppgerður og yfirbyggður úr timbri.

Inn af eldhúsinu var þvottahúsið með steyptu gólfi sem hallaði og það var svo langt upp á borðið en þaðan var hægt að fara upp á loft, sem var undir súð. Í þvottahúsinu var líka kynding, sem fyrst var kolakynding og síðan olíukynding. Úr þvottahúsinu var farið í kompuna, þar sem alltaf var kalt á veturna og söng og gnauðaði í þettingu hurðarinnar sem var koparlisti. Þegar út var komið var kolakassi í horninu undir eldhúsglugganum og þar héldu mýsnar til, þegar þær vantaði skjól. Stundum komu frænkur þeirra af haugunum, rotturnar, í heimsókn.

Þegar ég stóð þarna fyrir framan húsið í rigningunni og talaði við núverandi íbúa hússins þá velti ég því fyrir mér hvað þetta var allt stærra í minningunni.