Ræða frá 01.01.2020 eftir Birgir Þórarinsson

Seltjarnarneskirkja 1. janúar 2020
Birgir Þórarinsson
 
 
I
Komiði öll blessuð og sæl og gleðilegt ár.
Í upphafi nýs árs hafa margir sett sér metnaðarfull markmið. Áramótaheitin eru á sínum stað og nú skal taka á því í ræktinni eins og við segjum, hreyfa sig meira og verða betri manneskjur.
Nokkrum mánuðum seinna er hins vegar hætt við því að einhverjir verði fyrir vonbrigðum þegar í ljós kemur að þeir eru litlu nær þeim markmiðum sem þeir settu sér.
Ef eitthvað er þá er búið að bæta á sig aukakílóum og líkamsræktarkortið svo til enn ónotað.
Það er mikilvægt að setja sér markmið. Staðreyndin er hins vegar sú að það setja sér tiltölulega fáir skýr og góð markmið, til skemmri eða lengri tíma.
Til að ná okkar persónulegu markmiðum þurfum við að búa yfir þrautseigju, viljastyrk og sjálfsaga.
Páll postuli talar um mikilvægi þess að stunda líkamsrækt er hann segir í fyrra bréfi sínu til Tímóteusar:
Líkamleg æfing er nytsamleg í sumu. Hann segir jafnframt að áhrif líkamsræktar séu takmörkuð og bundin við líkamann.
Síðan segir hann að æfingin í guðhræðslu, sem í raun merkir að rækta trúna og samfélagið við Guð, sé til allra hluta nytsamleg.
Síðast en ekki síst segir postulinn að trúnni á Guð fylgi fyrirheit, bæði fyrir þetta líf og hið ókomna.
Í þessu lífi er fyrirheitið um líf í fullri gnægð og í hinu ókomna er fyrirheitið um eilíft líf.
Páll hvetur síðan Tímóteus til að æfa sig í guðhræðslu, æfa sig í hlýðni við Guð.
Það er um að gera að stunda líkamsrækt.
En líkt og Páll benti Tímóteusi á er ekki síður mikilvægt að leggja stund á andlega þjálfun, þjálfa sig í trúnni á Guð.
Af þessu má ráða að til þess að komast til þroska í trúarlífi þurfi að æfa sig reglulega og næra sinn andlega mann til að ná árangri, rétt eins og í líkamsræktinni.
Að spila vel á hljóðfæri krefst mikillar æfingar. Æfingin skapar meistarann eins og við þekkjum. Samfélagið við Guð og trúin á Hann krefst vinnu. Vinnu sem gefur okkur margfalt til baka.
Það er margt í samtímanum sem getur afvegaleitt okkur frá fyrirheitum Guðs.                                                                                            
Þess vegna er mikilvægt að þekkja Guðs orð og leitast við að lifa eftir því.
Það verður enginn fullnuma á einum degi.
Tökum reglulega frá stund til þess að þjálfa okkur í trúnni á Guð.
Sækjum biblíulestra kirkjunnar og spyrjum spurninga. Tökum fyrir ákveðna kafla í Biblíunni, ákveðin biblíuvers og íhugum merkingu þeirra og biðjum Guð að veita okkur skilning.
Til eru margar ágætar bækur, sem skýra biblítutexta og hjálpa okkur við lesturinn. Mikinn biblíufróðleik er einnig að finna á netinu. Gott er að tala við þá sem eru lengra komnir og biðja þá að miðla sinni þekkingu og læra af þeim.
Síðan en ekki síst skulum við biðja Guð um að hjálpa okkur að þekkja Hann.
Gerum það að áramótaheiti að vaxa í trúnni á Guð.
 
 
II
Þátttaka í stjórnmálum og þátttaka á kristilegum vettvangi eiga margt sameiginlegt að mínum dómi.
Bæði þessi viðfangsefni snúast um velferð fólks í víðum skilningi.
Það hafa orðið miklar framfarir í velferðarmálum á Íslandi og allir skilja mikilvægi þess, en það eru ekki nærri allir sem skilja mikilvægi trúarinnar í velferð einstaklingsins.
Þekktir baráttumenn fyrir þjóðfélagslegum umbótum, eins og í Bandaríkjunum, unnu lífsstörf sín tendraðir eldmóði frá áhrifum Krists.
Ummæli þessarar manna hníga í þá átt að það sé Kristur kenning hans og boðskapur, sem vísa eigi veginn og gefa mönnum kraftinn til þess að skapa bjartari heim, heilbrigðari sambúð og samskipti einstaklinga og þjóða.
Einn þessara manna var Abraham Lincoln Bandaríkjaforseti, en margir meta hann merkastan allra forseta. Hann sagði eitt sinn:
„Allt það sem æskilegt er fyrir velferð mannsins, bæði í þessu lífi og öðru, má finna í Biblíunni.”
Kristindómurinn er meira en fögur kenning. Hann er líf.
Hann er eins og Páll postuli orðaði það,
„kraftur Guðs til hjálpræðis hverjum þeim, sem trúir".
Þess vegna er það áhyggjuefni að mínu dómi að hér á landi hefur gætt ákveðinnar tilhneigingar til skipulegrar afkristnunar síðustu árin.
Árið 2008 var hætt að kenna kristnifræði sem sérstakt fag í skólum landsins. Fyrirmælin komu frá þáverandi menntamálaráðherra.
Árið 2011 bannaði Reykjavíkurborg Gídeonfélaginu að dreifa Nýja testamentinu í skólum borgarinnar, sem það hafði gert allar götur síðan 1954.
Þessari öfugþróun hefur verið stjórnað af háværum minnihluta.
Hér þarf að snúa við blaðinu.
Í Davíðsálmum segir " Á meðan ég þagði tærðust bein mín".  Þetta eru alvarleg orð frá Davíð konungi.
Kirkjan og kristnir eiga ekki að sitja þögul hjá þegar sótt er að kristinni trú, kristnum gildum og kristinni menningu í okkar góða landi.
Ég tel mikilvægt að kristnifræði verði aftur kennd í grunnskólum landsins og vinn að undirbúningi lagafrumvarps þess efnis.
Kristin trú hefur verið mótandi afl í íslensku þjóðlífi.
Saga og menning þjóðarinnar verður ekki á nokkurn hátt skilin án þekkingar á kristinni trú, siðgæði og sögu kristinnar kirkju.
Sérhvert þjóðfélag byggist á grundvallargildum. Uppeldishlutverk skólans er mikilvægt, ekki síst siðgæðisuppeldi.
Þótt skólarnir séu mikilvægir geta þeir þó aldrei komið í stað uppeldishlutverks heimilanna.
Skólum er ætlað að miðla ákveðnum grunngildum og í íslensku samfélagi eiga þessi gildi sér kristnar rætur.
Þrátt fyrir svokallaða fjölmenningu á Íslandi, sem ekki er að fullu skilgreint hugtak, á að taka tillit til þess hvaða trúarbrögð hafa verið ráðandi í mótun okkar menningar og samfélags.
Fyrir því liggja menningarleg og samfélagsleg rök að kenna kristnifræði í grunnskólum.
Eðlilegt er að verja mestum tíma í fræðslu um þau trúarbrögð sem eru ríkjandi í samfélaginu og það er kristni.
Fræðsla um önnur trúarbrögð er einnig nauðsynleg svo hægt sé að byggja brýr milli annarra trúarbragða, stuðla að virðingu og skilningi.
Mannréttindadómstóll Evrópu segir að ef tiltekin trú skipi stóran sess í sögu og hefð lands þá standi ekkert í vegi fyrir því að byggja skólastarf á þeim gildum sem felast í trúnni.
Í flestum Norðurlöndum er kristnifræðikennsla skilgreind sem hluti af almennri menntun.
Grunnskólar í Danmörku byggja trúarbragðakennslu á kenningum dönsku þjóðkirkjunnar, siðfræði, biblíusögum og sögu kristninnar.
Í Noregi segir að skólinn skuli byggja á grunngildum hins kristna arfs.
Stjórnvöld eiga að standa vörð um trúar- og menningarþátt Íslensku þjóðarinnar.
 

 
III
Á nýju ári mun Ísland taka á móti 85 kvóta­flótta­mönnum, sem er fjöl­mennasta mót­taka ís­lenskra stjórn­valda til þessa, en ríkisstjórnin hefur samþykkt að fjölga kvótaflóttamönnum.
Byrjað var að taka á móti kvóta­flótta­fólki á Ís­landi árið 2015. Þá kom fyrsti hópurinn hingað til lands.
Síðan þá hafa um 250 manns fengið stöðu flótta­fólks hér á landi.
Mjög lítill hluti þessara flóttamanna eru kristinnar trúar.
Þrátt fyrir þá staðreynd að kristnir er sá trúarhópur í heiminum sem mest verður fyrir barðinu á ofsóknum.
Forsætisráðherra Bretlands, Boris Johnson, gerði ofsóknir gegn kristnum að umtalsefni í jólaávarpi sínu.
Breska utanríkisráðuneytið gaf út síðast liðið sumar vandaða skýrslu um ofsóknir gegn kristnum.
Niðurstöður eru sláandi og hefur utanríkisráðherra Breta kallað eftir alþjóðlegri úttekt á ofsóknum gegn kristnu fólki um allan heim, sem hann segir alvarlegt vandamál sem fari vaxandi.
Samkvæmt tölum Sameinuðu þjóðanna falla hundruð kristinna í hverjum mánuði af völdum ofsókna.
Talið er að 245 milljónir kristinna manna sæti alvarlegum ofsóknum vegna trúar sinnar, en ríflega fjögur þúsund létu lífið á síðasta ári af þeim sökum.
80% allra trúarofsókna í heiminum beinast gegn kristnu fólki.
Að jafnaði eru 12 kristnir drepnir í trúarbragðaofsóknum á hverjum einasta degi.
Og í hverjum mánuði verða rúmlega 100 hundrað kirkjur fyrir árásum.
Í Miðausturlöndum þar sem kristin trú á upphaf sitt fækkar kristnum stöðugt. Þeir eru nú um 5% íbúa en voru 20% um miðja 20 öld.
Í Írak er fjöldi kristinna nú um 100 þúsund en voru fyrir rúmum 15 árum 1,5 milljón.
Fáir hafa staðið vörð um mannréttindi kristinna hópa í löndum þar sem slíkar ofsóknir eiga sér stað.                                        
Trúarofsóknir eru mannréttindamál.
Við Íslendingar eigum að vera í fararbroddi þegar kemur að því að gagnrýna ofsóknir gegn kristnu fólki í heiminum.
Þegar kemur að móttöku kvótaflóttamanna hingað til lands tel ég veigamikil rök fyrir því að þeir séu kristnir.
Auk þess eiga kristnir flóttamenn auðveldara með að aðlagast íslensku samfélagi, siðum okkar og venjum.
 
 
IV
Fljótlega eftir að nýr dóms- og kirkjumálaráðherra tók við embætti lýsti hún yfir áhuga á aðskilnaði ríkis og kirkju og hyggst setja af stað vinnu við undirbúning þess nú á nýju ári.
Í því sambandi er rétt að benda á að árið 2012 sagði þjóðin skoðun sína í þessu máli í ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu og hafnaði tillögu stjórnalagaráðs um að fella burt ákvæðið um þjóðkirkjuna í lýðveldisstjórnarskránni.
Niðurstaða atkvæðagreiðslunnar er ánægjuleg að mínu mati og hún er mikilvægt leiðarljós.
Það var athyglisvert að á þjóðfundinum, sem var undanfari áðurnefndar þjóðaratkvæðagreiðslu kom engin krafa fram um þessa tillögu og engar vísbendingar voru um það að þjóðfundarfulltrúar hafi gert ákall um að fella úr stjórnarskrá ákvæðið um þjóðkirkjuna.
Engu að síður var tillagan lögð fram.
Það virðist sem svo að fámennur hópur fólks, sem hefur horn í síðu kirkjunnar, beiti sér með ýmsum ráðum fyrir því að draga úr vægi hennar í íslensku samfélagi.
Ég lít svo á að þjóðkirkjuákvæðið í stjórnarskránni feli í sér yfirlýsingu um grunngildi samfélagsins.
Að það sé í 62. gr. stjórnarskrárinnar sem við getum staðhæft að við séum kristin þjóð.
Ákvæðið er mikilvæg yfirlýsing að mínu mati, yfirlýsing þjóðar sem hefur búið í harðbýlu landi, í návígi við náttúruöflin, sem reglulega minna á sig.
Yfirlýsing þjóðar sem hefur verið kristin í meira en 1000 ár.
Ég er ekki sammála dóms- og kirkjumálaráðherra þess efnis að það sé óhjákvæmilegt að endurskoða þetta ákvæði.
Það er fyrst og fremst þjóðin sem ræður í þessum efnum. Við stofnun lýðveldisins 1944 talaði þjóðin skýrt. Fyrir 8 árum talaði þjóðin einnig skýrt. Hún er fylgjandi því að hafa ákvæði um þjóðkirkjuna í stjórnarskrá.
Ekkert hefur breyst síðan og engin þörf fyrir þessa umræðu. Ég tel að ráðherra verði að horfa til þess þegar hún tjáir sig með þessum hætti.

 
V
Nýtt ár felur í sér tímamót fyrir þjóðkirkjuna.
Með nýjum viðbótarsamningi ríkis og kirkju við svokallað kirkjujarðasamkomulag og lagabreytingum í tengslum við hann nú um áramótin, er stigið stórt skref til sjálfstæðis kirkjunnar.
Prestar kirkjunnar verða ekki lengur ríkisstarfsmenn og kirkjan verður ekki lengur ríkisstofnun.
Óhaggað stendur að þjóðkirkjan nýtur sem fyrr verndar í stjórnarskrá.
Ég fagna þessu samkomulagi.
Heitar umræður sköpuðust um hinn nýja samning á Alþingi.
Ljóst má vera að einstaka stjórnmálaflokkar eru lítt velviljaðir kirkjunni og því mikilvæga starfi sem hún sinnir um allt land.
Sumir aðrir flokkar láta sér fátt um finnast og styðja ekki kirkjuna þegar á reynir.
Höfum hugfast að á síðasta ári vorum um 8 þúsund athafnir á vegum kirkjunnar og í landinu eru um 270 kirkjur, sumar hverjar ómetanlegar í trúar- og menningarsögu þjóðarinnar.
Vonandi kemur kirkjan til með að nýta frelsið, sem í þessu nýja samkomulagi felst, þjóðinni til blessunar.
 
 
VI
Kæru kirkjugestir.
Við eigum að standa vörð um okkar kristnu arfleið og áhrif hennar í íslensku samfélagi.
Arfleið sem byggir á því að íslenskt samfélag og kristinn siður og gildi, eigi nú sem fyrr, samleið.
Megi náð, friður og farsæld fylgja ykkur öllum á nýju ári.
_________