Hugvekja frá 17.06.2012 eftir Jón Hákon Magnússon

Hugvekja sem Jón Hákon Magnússon, sóknarnefndarmaður og fyrrverandi umdæmisstjóri Rótarýumdæmisins á Íslandi 1993-1994, flutti í Seltjarnarneskirkju 17. júní 2012.

 

Sjá dagar koma, ár og aldir líða,

og enginn stöðvar tímans þunga nið.

Í djúpi andans duldir kraftar bíða.

Hin dýpsta speki boðar líf og frið.

 

Svo orti þjóðskáldið okkar - Davíð Stefánsson - í kvæðinu “Að þingvöllum 930 – 1930”. Þessar ljóðlínur eiga enn þann dag í dag erindi við okkur Íslandsbörn.

 

Í dag fögnum við 68 ára afmæli íslenska lýðveldisins sem stofnað var á Þingvöllum 17. júní árið 1944 í miðri seinni heimstyrjöldinni. Á þessum merkisdegi, sem er fæðingardagur Jóns forseta Sigurðssonar, lauk formlegri sjálfstæðisbaráttu þessarar eyþjóðar.  Baráttu fyrir frelsi sem staðið hafði frá árinu 1830. Það ár er talið hafa markað upphaf frelsisbáráttu Íslendinga. Þjóðin hafði til þess tíma verið í konungssambandi við Noreg og síðar Danmörku eða frá endalokum goðaveldsins árið 1262.

Þúsundir landsmanna, stórir sem smáir, ungir sem aldnir, streymdu til Þingvalla til að vera viðstaddir þennan magnaða viðburð í sögu þjáðrar og fátækrar þjóðar sem vildi losna undan oki erlends konungs. Ég var of lítill til að fá að fara austur og varð eftir í Reykjavík með afa mínum, en ég man engu að síður óljóst eftir þessum merka viðburði.

Á Þingvöllum varð stór hluti þjóðarinnar vitni að því þegar þingið samþykkti stjórnarskrá Lýðveldisins Íslands, og Sveinn Björnsson var var kosinn og settur í embætti sem fyrsti forseti lýðveldisins. Það hafði verið löngu ákveðið að stofna Lýðveldið Íslands á afmælisdegi baráttumannsins Jóns Sigurðssonar.  Af þeirri ástæðu fögnum við í dag lýðveldisafmælinu á afmælisdegi Jóns forseta. Þetta er sá hátíðisdagur sem sameinar okkur Íslendinga sem búum á eyju í miðju úthafi og minnir okkur á að við erum sjálfstæð og fullvalda þjóð.

Á þessum degi í rösklega 1100 ára sögu þessa harðbýla eylands leggjum við til hliðar allar deilur og flokkadrætti og fögnum því að við búum við eitthvert mesta frelsi og lýðræði sem þekkist í heiminum nú á dögum.

„Land okkar er foreldri okkar allra“ sagði rómverski stjórnvitringurinn Cicero, sem uppi var fyrir rúmlega 2000 árum. Þessi meitluðu orð lýsa vel tilfinningunni sem flestir ef ekki allir Íslendingar bera í brjósti á þjóðhátíðardaginn.

Við lifum á erfiðum tímum á Íslandi í kjölfara banka- og efnahagshrunsins. Við lifum í heimi sem glímir við erfiðasta efnahags- og fjármálaöngþveiti frá því í kreppunni miklu.

Eina öryggið í dag er óöryggið. Eina vissan er óvissan.

1944 vorum við ein fátækasta þjóð Evrópu, nú erum við í hópi ríkustu þjóða þrátt fyrir efnahagshrunið. Við búum yfir andlegum og líkamlegum krafti sem nýtast mun okkur til að byggja betra þjóðfélag með bjarta framtíð. En það er nú stutt í kviku þjóðarinnar.  Það er stutt í ergelsi og úlfúð. Ókyrrð og óánægja fólks ræður för.

Ásjóna Alþingis hefur aldrei fyrr verið jafn tætingsleg og veik. Aðeins um 10% þjóðarinnar treystir þingmönnum. Ekkert má bera útaf svo ekki hefjist orrahríð upphrópana, ádeilna og hótana svo ég tali nú ekki um munnsöfnuðinn. Sundurlyndi, innbyrðis deilur, mannorðsmorð og óöld í bloggheimum skapar hættulegt óöryggi og vantraust á milli manna. Gjár myndast á milli vina. Og milli almennings og Alþingis. Milli þéttbýlis og dreifbýlis.

Í Guðspjalli dagsins í dag segir: Allt sem þér viljið að aðrir menn geri yður, það skuluð þér og þeim gera. Er það ekki mergur málsins?  Eigum við ekki að sýna hvort öðru tillitssemi og skilning.

 

Stöldrum við og hættum að horfa svona reið um öxl. Horfum fram á veginn með birtu og bræðralag í huga. Það þarf að sætta landsmenn. Róa þjóðina. Það þarf að skapa samstöðu. Það þarf að skap einhug. Það þarf að skapa sátt.

Við þurfum að friðmælast í eitt skipti fyrir öll. Hættum að horfa á liðna tíma og horfum til framtíðar.  Við Íslendingar eigum mjög bjarta framtíð fyrir stafni svo framarlega sem við leggjum niður huglæg vopn og beitta penna.

 

Rógur - egg hans er hvassari en sverðsins, sagði William Shakespeare eitt sinn.

 

Samstíga sigrum við en sundruð föllum við – svo einfallt er það. Við verðum öll að leggjast á áranar til að snúa þjóðinni á ný yfir á bjartar brautir framtíðar, uppbyggingar og framfara heildinni til heilla. Það er á degi sem þessum sem við stígum á stokk og heitum því að horfa fram á veginn með birtu og trú í augum. Trúin gefur okkur styrk til að halda áfram að vinna okkur út úr tímabundnum erfiðleikum með því að snúa vörn í sókn á öllum sviðum þjóðlífsins.

 

Við Íslendingar höfum verið kristin þjóð í liðlega 1000 ár.  Kristin trú er undirstaða íslenskrar tungu, siðfræði og menningar. Hvað sem hver segir þá væri íslensk þjóð ekki það sem hún er í dag nema af því að allt þjóðlífið grundvallast á boðskap biblíunnar og kristinnar trúar og lýðræðishugsjónum sem fæddust í hjörtum landsmanna í myrkri og vosbúð á 19 öld.

 

Ef  Nýja testamenntið hefði ekki verið þýtt á íslensku 1540 og Guðbrandsbíblía ekki verið prentuð árið 1584 þá hefði íslensk tunga og menning dáið út og við myndum nú tala einhverskonar afbakaða dönsku rétt eins og Norðmenn gera. Íslenska biblían bjargaði tungumálinu okkar.  Þjóðkirkjan er einn af hornsteinum lýðveldisins.  Í þjóðkirkjunni eru yfir 250 þúsund kristnir Íslendingar – enginn söfnuður eða félagasamtök eru jafn fjölmenn.  Hávær fámennur hópur trúleysingja hefur gert ítrekað áhlaup á þjóðkirkjuna og reynt með öllum ráðum að sverta ásjónu hennar og trúverðugleika en án marktæks árangurs.

 

Það fellst mikill þjóðarauður í ungum og efnilegum Íslendingum, sem erfa munu landið og halda áfram að byggja upp öflugt þjóðfélag lýðræðis, trúar og mannréttinda. Það er mjög gaman að sjá hvítu kollana hér í kirkjunni í dag. Við eigum að vera stolt af því að eiga mikið af ungu efnilegu fólki til framtíðar. Við verðum að hlúa að æsku þessa lands og efla menntakerfið á öllum sviðum til þess að stöðugt fleiri fái stuðning og tækifæri til framhaldsnáms. Það skipti engu máli hvað fólk læri en það skiptir öllu máli að það nái sér í haldgóða menntun sjálfu sér og þjóðinni til heilla.

 

Þegar Jón forseti lést í Kaupmannahöfn í desember 1879 lögðu Íslendingar í Höfn áletraðan silfurskjöld á kistu hans og þar stóð áletrað: Óskabarn Íslands - sómi þess, sverð og skjöldur.  Ég leyfi mér að breyta þessu eilítið í tilefni dagsins og segi:  Æska Íslands er sómi okkar, sverð og skjöldur. Sá dagur rennur upp þegar þau erfa Lýðveldið Ísland.

 

Að lokum langar mig til að segja að við í Rótarýklúbbi Seltjarnarness erum mjög ánægð með að leggja þjóðhátíðarmesssunnu í kirkjunni okkar lið. Þetta er annað árið sem klúbburinn tekur þátt í að skipuleggja menningarþátt messunnar með vinnu og fjárframlagi. Auk þess sem klúbburinn býður ykkur öllum í kirkjukaffið.

 

Rótarý International er ein stærsta friðarhreyfing heimsins með 1,2 milljónir Rótarýfélaga í 32 þúsund klúbbum í um 200 löndum og landssvæðum. Rótarý er friðarhreyfing vegna þess að félagar mæta á fundi einu sinni í viku um allan heim, ræða málin, blanda geði, safna fé til góðgerðamál og styrkja velferðarmál.

 

Dæmi: Árið 1988 hóf hreyfingin að vinna með Sameinuðu þjóðunum að útrýmingu lömunarveiki í heiminum, sem var landlæg í 125 löndum. Verkinu er að ljúka og hreyfingin hefur þegar lagt fram $700 milljónir dala eða 80 milljarða króna til kaupa á bólefni. Allt þetta fé kemur úr vösum Rótarýfólks. Þetta góðgerðarmál er eitt sýnishorn af því sem Rótarýfólk aðhefst.

 

Góðir kirkjugestir.

 

Megi gæfa og farsæld fylgja þessari fámennu en öfluguþjóð um alla framtíð.

Við biðjum þann sem öllu ræður að vernda Ísland í ölduróti samtímans og leiða þjóðina inn á bjartari brautir lífsins.

 

 

Gleðilega þjóðhátíð.

Í guðs friði.