Predikun frá 28. mars 2021, sr. Karl Sigurbjörnsson biskup

 

Pálmasunnudagur 

 Jóh 12.12-16

Kirkjuklukkurnar hafa ómað yfir nágrennið á þessum bjarta, frostkalda morgni, signt og blessað byggð og land og vitnað um sigur Krists og lífið í hans nafni, og kallað til guðsþjónustu. Fáir geta nú hlýtt því kalli og haldið til kirkju vegna sóttvarnaráðstafana. En við getum lokið upp hugum og hjörtum okkar fyrir hljómi þeirra og blessuninni hvar sem við erum. Við lifum alveg ótrúlega tíma. Hver hefði trúað því fyrir ári að við þyrftum aftur að lifa dymbilviku og páska með hörðum samkomutálmum og fjölda fólks í sóttkví! Ég finn til með fermingarbörnunum og fjölskyldum þeirra sem hafa þurft að umbylta áætlunum sínum og slá hátíðarhöldum á frest. Guð blessi þau og gefi að þau megi samt upplifa hátíð og helgi fermingarinnar, hvernig svo sem ytri aðstæður eru. Ég bið líka fyrir öllum þeim lifa vonbrigði og kvíða, óvissu og ótta vegna þessarar andstyggðarveiru sem nú sækir í sig veðrið og ræðst nú á börnin og ungafólkið. Og ég bið fyrir þeim sem standa vaktina, hjúkra og styðja aðra, við stöndum öll í þakkarskuld við þau og biðjum þess að þau þreytist ekki og lýist ekki. 

Dymbilvikan hefst í dag. Hún sýnir eins og í brennidepli aðstæður okkar andspænis ógninni, andspænis því óvænta sem ryðst inn á okkur, bæði á hinu stóra sviði sögunnar og í litlu heimunum okkar. Þar stendur krossinn í miðdepli, lífsins tákn og eilífs kærleika, lifandi vonar.  

    Pálmasunnudagur dregur nafn sitt af frásögum guðspjallanna af því þegar Jesús kom til borgarinnar og mannfjöldinn fagnaði honum með því að veifa pálmagreinum, sigurtákni og valda. En konunglegur er hann samt ekki, fjarri því, ríðandi á asna. Það hefur seint talist hæfa konungi og sigurvegara þetta lítilmótlega, auðmjúka burðardýr, sem mönnum hefur einatt þótt sæma að hæðast að. Smávaxin skepna, varla hærri á lendina en veturgamall kálfur. Enginn stíll yfir slíkum reiðskjóta. Það var annar bragur á öllu þegar valdhafarnir, til dæmis Pílatus, komu þessa sömu leið gegnum borgarhliðin. Hann  hreykti sér hátt ríðandi á glæstum stríðsfáki sínum, umkringdur alvopnuðum hermönnum. Vald hans fór ekki á milli mála.

      Jesús kemur ríðandi á asna. Og vinir hans, varnarlausir,  syngja sálma og veifa pálmagreinum og borgarbúar taka undir þessi fornu stef úr reynslusjóði þjóðarinnar um konung friðarins sem kemur hógvær og lítillátur með lausn og frelsi, lækningu og frið. Hrifningin grípur um sig og fleiri og fleiri fara að taka undir og brátt er þetta orðið að voldugum kór: Blessaður sé sá sem kemur í nafni Drottins!  

Hrifningaraldan hneig undur fljótt. Skrítið. Eða hvað? Hvað ef við hefðum verið stödd mitt í syngjandi skara fólksins? Auðvitað hefðum við sungið og fagnað! En hvað hefðum við svo gert  í manngrúanum við höll Pílatusar nokkrum dögum síðar, þar sem blikaði á beitta spjótsodda og fægða skildi kringum sakborninginn sem stóð þarna bundinn, hrakinn, sá sami og menn hylltu svo ákaft í borgarhliðunum nokkrum sólarhringum fyrr, en sem hafði sagt svo mikið en gert svo lítið til að uppfylla væntingar, vonir og þrár fólksins. Vonbrigðin og reiðin hafa gripið um sig. Og svo þegir hann bara þarna fyrir dómstólnum, lætur ásakanirnar, háðsyrði og niðurlæginguna yfir sig ganga og hróp mannfjöldans á torginu: „Krossfestu, krossfestu hann!“  Hvað hefðum við gert standandi í þeim skara? Við með okkar vonbrigði alls konar, vanmátt og sorg, vonir sem brugðust; bænheyrslan sem ekki varð, óvissuskýið sem grúfir yfir og byrgir sýn – Hvar ertu, Guð, í þessu öllu, sorginni, í áföllunum, í kvíðanum? Hvað duga bænirnar, söngvarnir og fyrirheitin?  Ætli við þekkjum þetta ekki æði mörg á eigin skinni! Hvað hefðum við gert og sagt þarna forðum í borgarhliðum Jerúsalem eða framan við dómstól Pílatusar? Við höfum vafalaust oft verið í þvílíkum aðstæðum, stundum án þess að vita af því, við sem eigum svo undur auðvelt með að hrífast með, fagna í dag og formæla á morgun. – og að líta undan og látast ekki sjá og heyra þar sem brotið er á öðrum.    

Við rifjum upp frásagnir guðspjallanna í ljósi krossins og upprisunnar. Við vitum, eða eigum að vita hver sigraði í raun, hvers valdið er í raun. Guðspöllin eru spegill þar sem við sjáum okkur sjálf. En umfram eru þau mynd og gluggi, þar sem við sjáum Jesú, frelsarann.  Hvikult er hjarta mannsins, á því er ekkert að byggja. Aðeins á Jesú Kristi einum. 

     Innreið Jesú í Jerúsalem á asnanum smáa er og áminning. Jerúsalem er eins og táknmynd heimsins, samfélags, menningar sem reiðir sig á vald og auð og öryggi í vörn gegn Guði og mönnum.   Sálmarnir fornu sem fólkið söng er það veifaði pálmagreinunum sínum eru áminning um þá uppsprettu vonar sem sálmar eru og fyrirheit Biblíunnar þegar við lesum, heyrum og syngjum þessi stef í birtu krossins og upprisunnar. Kristur er konungurinn sem kemur til að ríkja í hjörtum mannanna, ekki með valdi og krafti heldur fyrir anda Guðs, áhrifavald kærleikans, umhyggjunnar. Hann er konungurinn sem kom til að þjóna og gefa líf sitt til lausnargjalds, Krossinn hans og upprisan eru grundvöllur vonar og aflvaki þolgæðis og gleði í hverri vá og harmi. Og lofgjörðin til hans er feginsandvarp sem sprettur upp úr myrkri vonbrigðanna og harmi hins þjáða og sorgmædda og lyftir því upp í birtu himinsins þar sem hvert tár er þerrað af hvörmum og engin sorg og engin neyð er framar til. Kristur sigrar, lífið hans sigrar. Það er gott að fá að taka undir lofsönginn og fagna í þeirri von og staðsetja sig á þeim trausta grunni sem krossinn hans er. 
    Kristur kom til borgar sinnar ríðandi á asna, hógvær og lítillátur. Guð stendur gegn dramblátum en auðmjúkum veitir hann náð. Hann er enn á ferð og kemur upp að hlið þeirra sem halloka fara, syrgja og líða og horfir í augu þeirra, og segir: Komdu til mín, fylgdu mér, trúðu á mig! Já! Horfum til hans í trú og þiggjum blessun hans, frið og náð. Amen.