Hugvekja frá 01.12.2013 eftir Jón Sigurðsson

Jón Sigurðsson: Aðventuhugleiðing í Seltjarnarneskirkju 1.12.2013

Góðir kirkjugestir tilheyrendur

Enn einu sinni líður senn að jólum. Enn einu sinni leggst skammdegið fyrst að með dimmu og skuggum, en síðan birtir upp við jólin sjálf, hátíð ljóss, fæðingar og aftur hækkandi sólar á norðurslóð. Við köllum þennan tíma aðventu. Orðið er latneskt og merkir að eitthvað er að koma til okkar, eitthvað er í vændum, við getum vonast eftir einhverju sem senn er komið til okkar.

Skammdegið og hins vegar aðventan og jólin eru eiginlega andstæður. Og það er margt sem veldur okkur vafa og ugg um þessar mundir. Sálmar séra Valdimars Briem eru mjög góð leiðsögn, upplyfting og huggun sem okkur Íslendingum er gefin. Séra Valdimar var vígslubiskup á Stóra-Núpi og dó í hárri elli árið 1930 og skildi eftir sig dýrmætan andlegan sjóð frábærra sálma sem er að finna í Sálmabók þjóðkirkjunnar.

Sálmabók þjóðkirkjunnar er kvæðasafn sem geymir ákaflega marga dýrgripi íslenskrar tungu. Séra Valdimar Briem er eitt höfuðskáld Sálmabókarinnar. Sálmar hans bera vitni frábærri hagmælsku hans ásamt innblásinni skáldgáfu. Sumir sálmarnir birta myndir, aðrir frásögur, enn aðrir boðskap, en allir snerta þeir lesandann með innileika, hlýju og kærleika. Og sálmarnir snerta lesandann líka með lipurð málsins, hljómfalli og hljómfegurð og einfaldleika í framsetningu.

Í sálminum sem er nr. 20 í Sálmabókinni segir séra Valdimar:

Guð, allur heimur, eins í lágu' og háu
er opin bók um þig er fræðir mig,
já, hvert eitt blað á blómi jarðar smáu
er blað sem margt er skrifað á um þig.

Þetta er eins mjúkt og lipurt sem mælt væri af munni fram, ljóst, einfalt og alveg skýrt.


Í sálminum nr. 190 er skyld hugsun:

Lát opnast augu mín,
minn ástvin himnum á,
svo ástarundur þín
mér auðnist skýrt að sjá.

Hér er ávarp, og hér er brugðið upp mynd. Það eru hvorki meira né minna en ,,ástarundur", en málið og bragurinn eru svo létt og leikandi að lesandanum verður þetta augljóst og gamalkunnugt þegar í stað.

Í 294. sálmi bókarinnar þrengir séra Valdimar athyglissviðið og beinir því að Biblíunni:

Guðs orð er ljós, er lýsir
í lífsins dimmu hér,
og ljúfur leiðarvísir
það lífs á vegum er.

Í 44. sálmi er ljóst hvaðan skáldinu berst innblástur:

Með Jesú byrja ég,
með Jesú vil ég enda,
og æ um æviveg
hvert andvarp honum senda.

Eins og hvarvetna í sálmum séra Valdimars er hljómurinn þýður og hlýr. Tungutak og bragur falla alveg saman í eina órofa heild, og lesandinn getur hjúfrað sig upp að þessu.

Öll þekkjum við 78. sálminn þar sem brugðið er upp mynd af lífinu í skammdeginu þegar ljós jólanna sigrar:

Í dag er glatt í döprum hjörtum,
því Drottins ljóma jól.
Í niðamyrkrum nætursvörtum
upp náðar- rennur -sól.

Þessa mynd þekkja allir Íslendingar, og þurfa ekki meira til að sannfærast, jafnvel án þess að leiða hugann að. Orðin opna okkur sannfærandi sýn.

Í gömlum sálmi, nr. 66, sem séra Valdimar endurkvað heldur þessi hugsun áfram:


Hefjum upp augu og hjörtu með,
hjálpræðisstund vor er nærri.
Jesú vér fáum sjálfan séð,
sorg öll og kvíði er þá fjarri.

Hér birtist kjarni í kristninni og í hugsun skáldsins, innilegur fögnuður og bjartsýni við endurlausn frelsarans.

Sálmurinn ,,Í Betlehem er barn oss fætt", nr. 73 í bókinni, er þýðing og séra Valdimar hefur efalaust stuðst við danska þýðingu snillingsins Grundtvig. Hvað sem því líður kemur það í ljós við lestur þessa kvæðis hvílíkur einstæður dýrgripur það er. Það er sama hvort vikið er að hljómfallinu, myndvísinni, orðsnilldinni, lipurðinni eða einfaldleikanum. Og gerð séra Valdimars tapar engu í samanburði við latneska frumtextann heldur. Og hér er þá líka kjarninn í boðskap jólanna:

Í myrkrum ljómar lífsins sól,
þér, Guð, sé lof fyrir gleðileg jól.

Getur nokkur maður orðað þetta styttra, skýrara, eða betur?

Eða er unnt að orða skýrar og ljósar þann boðskap sem hér fylgir, í 163. sálmi:

Biðjið og þá öðlist þér,
eftir Jesú fyrirheiti.
Hans í nafni biðja ber,
bænin svo þér fullting veiti.
Bænin sé þér indæl iðja,
öðlast munu þeir sem biðja.

Við lestur þessara sálma finnum við innilega kviku kristninnar og sáluhálparinnar, og við fáum um leið að njóta þess hver fögur tunga íslenskan er. Á vörum séra Valdimars Briem er hér allt innilegt og kært, einfalt og tært.

Löng saga verður stutt og aðgengileg í 93. sálmi:

Í upphafi var orðið fyrst,
það orð var Guði hjá.
Það játum vér um Jesú Krist,
er jörðu fæddist á.

Og hugsið ykkur hvernig séra Valdimar tjáir sæluboð frelsarans, í 201. sálminum:

Sælir þeir er sárt til finna
sinnar andans nektar hér.
Þeir fá bætur þrauta sinna,
þeirra á himnum ríkið er.

Í 357. sálmi segir skáldið:

Stýr minni hönd að gjöra gott
að gleði ég öðrum veiti
svo breytni mín þess beri vott
að barn þitt gott ég heiti.

Getur nokkur maður orðað þetta betur? Er unnt að láta hugsun og boðskap, móðurmálið og braginn falla betur saman í eina lifandi heild? Þetta er svo einfalt sem nokkrir töfrar geta orðið.

Marga fleiri snilldarsálma séra Valdimars mætti nefna en tími leyfir ekki nú. Hver þekkir ekki reynsluna sem skáldið lýsið í 192. sálmi:

Á meðan engin mætir neyð,
á meðan slétt er ævileið,
vér göngum þrátt með létta lund
og leitum ei á Jesú fund.

En þegar kemur hregg og hríð
og hrelling þjakar, neyð og stríð,
í dauðans angist daprir þá
vér Drottin Jesú köllum á.

Og megum við um jólin minnast þessarar áminningar séra Valdimars, í 191. sálmi:

Hvar lífs um veg þú farinn fer
þú finnur ávallt marga
er eigi megna sjálfum sér
úr sinni neyð að bjarga.

Um jólin kveður séra Valdimar þessar kunnu hendingar, í 57. sálminum:

Hvert þitt innsta æðarslag
ómi af gleði þennan dag.
Konungurinn konunganna
kemur nú til sinna manna.

Hér er smámynd og síðan önnur miklu stærri. Þetta er tónlist í orðum.

Það er ástæða til þess fyrir okkur öll að minnast þess, bæði um jól og endranær, hvílíkan fjársjóð og andagift við eigum í kvæðunum í Sálmabók þjóðkirkjunnar. Sálmabókin er reyndar einhver merkilegasta ljóðabók sem til er á íslenskri tungu. Þar eru margir dýrgripir, og meðal þeirra eru sálmar séra Valdimars Briem.

Við getum sagt að niðurstöðuorð sé að finna í 94. sálminum:

Jesús, þú ert vort jólaljós.
Um jólin ljómar þín stjarna.
Þér englarnir kveða himneskt hrós,
það hljómar og raust Guðs barna.
Skammdegismyrkrið skyggir svart,
ei skugga sjáum þó tóma.
Þú ljósið af hæðum, blítt og bjart,
þú ber oss svo fagran ljóma.

Sem fyrr og endranær og eins og margir aðrir sálmar hans eru þessir sálmar séra Valdimars Briem holl sálarnæring og vekja gleði og bjartsýni um jólin. Við óskum að svo megi verða á öllum heimilum.