Erindi frá 18.02.2014 eftir Kristínu Claessen

Ég vil byrja á því að segja að ég er Seltirningur.  Faðir minn keypti jörð sem hét Skildinganes í Seltjarnarneshreppi.  Þá náði Seltjarnarneshreppur allt að Heiðmörk.  Var jörðin sem pabbi keypti nefnd Reynistaður af því að móðir föður míns var fædd á Reynistað í Skagafirði.  Jörðin náði yfir Vatnsmýrina allt að Öskjuhlíð og að Nauthól.

Þegar faðir minn keypti jörðina voru þar tvö íbúðarhús, sem höfðu verið byggð á árunum 1860 til 1874.  Bóndinn, Georg Jónsson, sem leigði jörðina bjó í eldra húsinu en pabbi lét byggja við hitt húsið með því að bæta við stofu öðrum megin og svefnherbergi hinum megin.  Í miðju húsinu er rautt þak en torfþak á nýju byggingunum sem voru byggðar þegar faðir minn keypti jörðina árið 1924.  Fjósið sem var þarna tók 30 kýr og þarna var mikil hlaða og hesthús ásamt öðrum útihúsum.  Tveir hænsakofar voru þarna og höfðum við milli 30 og 40 hænur, allar hvítar sem voru kallaðar Ítalir og áttu að verpa fleiri eggjum.  En bóndinn átti allar mislitar og fallegar.  Við Anna, sem var dóttir bóndans og var vinkona mín, pössuðum hænurnar á sumrin og var það okkar sumarvinna.  Ég öfundaði Önnu hvað hún ætti fallegar hænur.  Anna var mjög lítil en ég mjög stór og við vorum óaðskiljanlegar vinkonur þar til hún lést fyrir fjórum árum. 

            Faðir minn átti alltaf góða hesta og var mikið farið í útreiðar.  Leiðin lá í áttina að Öskjuhlíð og síðan niður að stað sem nú heitir Hlemmur.  Þá hét það Vatnsþró og brynntum við hestunum í Kerinu þar.  Ég vil gera það að tillögu minni að borgin byggi vatnsþró eins og þar var áður en þar eru nú komnar hestastyttur.  Væri mjög gaman að sjá „Kerið“ þar líka.  Við riðum síðan niður að Elliðaám.  Þar er gott rjóður með tjörn.  Þangað tókum við með okkur brauðsneiðar og brauð handa hestunum.  Stundum fór mamma á bílnum með veitingarnar ef við vorum það mörg.  Við erum tvær systurnar.  Laura systir mín er tveimur árum eldri en ég og fór fyrr á bak en ég.  Þó fór ég með mömmu í bílnum.  Ég fékk silfurbúna svipu í fimm ára afmælisgjöf.

           

            Þar sem við áttum heima svona lagt úti í sveit vildi pabbi að mamma fengi bílpróf.  Hann átti fordbíl.  Þá var það mjög óvenjulegt að kvenfólk keyrði bíl.  En þá gat hún keyrt okkur systurnar þangað sem við þurftum að fara.  Ég man vel þegar við keyrðum upp Suðurgötuna.  Þá hlupu strákar meðfram bílnum og kölluðu:  „Kerling að keyra!“  Mikið skömmuðumst við okkar.

            Ég hefði ekki getað hugsað mér betri stað til að alast upp á.  Það var nóg af krökkum til að leika sér við.  Vinsælustu leikirnir voru fallin spýta, kýlóboltaleikur og auðvitað stórfiskaleikur.  Svo var krokketvöllur í garðinum hjá okkur og fengum við krakkarnir stundum að spila krokket.  Laura systir lék sér við stóru krakkana en ég lék mér við Önnu. 

            Ég man eftir krökkunum á Grímstaðaholtinu sem við kölluðum Holtara.  Myndaðist oft mikill rígur á milli þessara tveggja hverfa.  Það var mikið af sjómannafjölskyldum sem bjuggu á Grímstaðaholtinu.  Það upphófust hverfabardagar milli Holtaranna og krakkanna í Skerjafirðinum.  Það voru býsna harðir bardagar og grjóti kastað.  Þetta þætti ekki gott til afspurnar í dag. 

Þá voru öll hús kynt með kolum.  Gaman er að segja frá því að maður nokkur fór á milli húsa og sótti öskuna af því að öll húsin voru kynt með kolum.  Þessi ágæti maður hét Þorbergur en hann var alltaf kallaður „Öskubergur“.  Dóttir hans er einmitt Ingibjörg Þorbergsdóttir tónskáld og söngkona sem var í sjónvarpinu í sunnudagskvöldið. 

Ég man vel eftir þeim tímamótum þegar útvarpið kom.  Ég hef verið fimm ára gömul þegar ég kom heim og heyrði einhverja ókunna og háværa rödd koma innan úr stofu.  Ég skildi ekkert hvað um var að vera og þótti þetta afar skrítið.  Þegar ég kom inn í stofu sátu pabbi og mamma fyrir framan útvarpstæki sem pabbi hafði keypt.

Í sambandi við búskapinn var eitt óvenjulegt því að pabbi ræktaði dúfur sem voru í dúfnahúsi.  Þeim var gefið á hverjum morgni á svokallaðan dúfnapall.  Voru þær títt hafðar til matar.  Ég man að smyrillinn sótti oft í þær.  Við krakkarnir þurftum stundum að kasta grjóti í hann til að fæla hann í burtu.  Mamma matreiddi dúfurnar og sauð niður, eins og oft var gert í gamla daga, því að hún vildi ekki muna þær á lífi. 

Árið 1932 var Reykjavík búin að teygja sig yfir Seltjarnarnes og tilheyrðum við þá Reykjavík.  Ég fór í tímakennslu til fröken Ragnheiðar 5 ára gömul.  Þegar ég var 7 ára fór ég í Landakotsskóla.  Þá var Skildinganesskóli þegar stofnaður en Landakot þótti betri.  Svo fór ég í undirbúningsdeild til menntaskólans til Einars Magnússonar.  Í Menntaskólanum í Reykjavík var ég í 6 ár.  Þá var sá skóli í 6 ár.  Þegar stúdentsprófi lauk var það venja að stúlkur skráðu sig í B.A. nám í Háskólanum.  Var það eiginlega nefnt B.H. því að það þótti bara vera í biðsal hjónabandsins.  Mjög fáar stúlkur fóru í langt háskólanám í þá daga.  Ég skráði mig í B.A. en fór að læra tannsmíði.  Varð ég tannsmiður eftir þriggja ára nám og vann við tannsmíðar þangað til ég fór að hlaða niður börnum. 

Árið 1942 hófust framkvæmdir við flugvöllinn í Vatnsmýrinni enda var kominn smá flugvöllur þar áður en Bretarnir komu.  Með tilkomu flugvallarins þrengdi mjög að búskap í Skerjafirðinum því að þar sem átti að leggja flugvöllinn var beitarland bóndans, Georg Jónsson.  Hann var reyndar bróðir Finns listmálara og Ríkharðs myndhöggvara sem voru reyndar náskyldir Lúðvík Jónssonar sem býr hér á Skólabrautinni og er listamaður einnig.  Hann er mikill útskurðarmeistari.    Það var ekki eina áhyggjuefnið að missa beitarlandið því að Bretarnir tóku húsin, sem voru fyrir þeim, og fluttu þau að Hrísateig og Kirkjuteig.  Auk þess skar flugvöllurinn Hörpugötuna í sundur og var annar hluti götunnar sunnan flugvallarins og hinn norðan við hann.  Ég vil geta þess að faðir minn kom því á að göturnar voru nefndar eftir gömlu mánaðaheitunum, t.d. Hörpugata, Þorragata, Góugata, Ýlisgata, Skerplugata.

Í Litla-Skerjafirði, eins og það er kallað núna, var Sjóklæðagerðin, mikið og veglegt hús.  Það brann til kaldra kola og var það ótrúlegt bál.  Núna eru þar stúdentagarðarnir og mörg falleg íbúðarhús.  Við Þjórsárgötu, sem er næst flugvellinum, kom flugvél og rakst í risið á húsi sem slapp samt ótrúlega vel. 

Svo ég vindi mér út í ættfræði:  Faðir minn hét Eggert Claessen og fæddist á Grafarósi í Skagafirði.  Faðir hans hét Valgarð Claessen.  Hann var danskur og kom 18 ára gamall til Íslands og fór að vinna í verslun á Hofsósi.  Hans vinir héldu að hann væri vitlaus að láta sér detta þetta í hug, að fara svona langt.  Hann naut sín hér, kynntist íslenskri konu og fór aldrei heim aftur.  Hann settist að á Sauðárkróki.  Konan hans og amma mín hét Kristín Briem og bjó á Reynistað í Skagafirði.  Nú er kirkjan á Sauðárkróki orðin vinakirkja Seltjarnarness, eins og var staðfest síðastliðið vor. 

Faðir minn var lögfræðingur og var fyrsti hæstaréttarmálaflutningsmaður hér á landi ásamt Sveini Björnssyni 1920.  Hann var formaður Eimskipafélags Íslands sem stofnað var 17. janúar 1914.  Hann var formaður til dánardags 1950.  Oddfellowreglan var hans áhugamál og stóð hann fyrir því að stofnuð var fyrsta kvennastúkan á Íslandi.  Hugmyndin kom frá Danmörku þar sem faðir minn var á vegum Oddfellowreglunnar. 

Faðir minn stofnaði Vinnuveitendafélag Íslands.  Var það í húsnæði á málflutningsskrifstofu sem hann rak í sínu nafni.  Það var á annarri hæð í Oddfellowhúsinu.  Á sömu hæð var málflutningsskrifstofa Garðars Þorsteinssonar.  Vinnuveitendafélagið heitir í dag Samtök atvinnulífsins.  Þetta var mikið starf og þurfti hann oft að vaka heilu næturnar á meðan verið var að semja við Dagsbrún.  Þegar það tókst ekki var komið verkfall sem tók oft margar vikur.  Fékk ég oft að heyra hvað faðir minn væri vondur maður, en sá sem var heilsteyptastur í framkomu var Gvendur jaki, mikill kommúnisti og heiðarlegur maður og Eðvarð Sigurðsson.  Eðvarð sagði mömmu að hann hefði skrifað minningargrein um pabba en fékk hana ekki birta í Þjóðviljanum.  Það var of mikið hrós.  Þá var gefið út blað sem hét Spegillinn.  Þar komu oft skemmtilegar teikningar af föður mínum.

Móðir mín hét Soffía Jónsdóttir, fædd í Hafnarfirði.  Faðir hennar hét Jón Þórarinsson.  Hann var skólastjóri Flensborgarskólans í Hafnarfirði.  Faðir hans, Þórarinn Böðvarsson prófastur sem bjó á Görðum á Álftanesi, stofnaði skólann til minningar um son sinn, Böðvar, sem dó 20 ára að aldri.  Jón afi varð síðar fræðslumálastjóri.  Móðir mömmu minnar hét Laura Hafstein.  Hún var fædd á Möðruvöllum í Hörgárdal og var systir Hannesar Hafstein.  Amma mín Laura dó frá 5 börnum.  Mamma mín var elst, aðeins 8 ára.  Afi minn kvæntist aftur og eignaðist 4 börn með seinni konunni, Sigríði Stephensen.  Þar sem mamma var elst var það mikil ábyrgð sem henni fannst hún bera á yngri systkinum sínum.  Að vísu voru vinnukonur á heimilinu, eins og algengt var í þá daga.  Móðir mín var húsmæðrakennari og kenndi matreiðslu í Miðbæjarskólanum þar til hún gifti sig.  Hafði hún numið í Kaupmannahöfn.  Þá var óvenjulegt að strákar lærðu matreiðslu en einn karl hitti ég einu sinni sem sagðist alltaf búa til mat heima hjá sér af því að hann lærði það í æsku í Miðbæjarskólanum hjá mömmu.

Yngsti bróðir mömmu, Þórarinn Jónsson, var mikið hjá henni en fór í nám til Kaupmannahafnar í banka.  Síðan fór hann til London í banka.  Þegar stríðið hófst skráði hann sig í herinn og vildi fara að herja á Þjóðverjum en þá var búið að hernema Ísland og var hann sendur til Íslands til að vera túlkur.  Þá þótti ekki gott ef íslenskar stúlkukr töluðu við hermenn eða létu sjá sig með hermönnum.  En þegar ég var í Menntaskólanum var ég að ganga í Lækjargötunni og mætti frænda mínum.  Ég geng með honum og tala við hann.  Þegar ég kem í skólann og inn í kennslustofuna stendur stórum stöfum á töflunni:  „Kristín er komin í Bransann.“  Það þótti mér ekki gott en krakkarnir vissu að þetta var frændi minn.

Ein systir mömmu hét Þórunn og giftist Júlíusi Havsteen sýslumanni á Húsavík og áttum við þá oft leið þangað.  Þá var oft farið með Brúarfossi.  Anna systir mömmu var ljósmyndari í Hafnarfirði.  Tók hún myndir af alls konar fólki, meðal annars af hermönnunum. 

Maðurinn minn hét Guðmundur Benediktsson.  Ég nældi í hann frá Húsavík.  Hann var stúdent að norðan og fór í háskólann og varð lögfræðingur.  Hann vann á lögfræðiskrifstofu föður míns.  Síðan var hann ráðinn hjá ríkinu.  Hann var ráðuneytisstjóri í forsætisráðuneytinu í 30 ár, fyrst hjá Bjarna Benediktssyni. Á þessum 30 árum komu 10 ráðherrar sem hann þurfti að þjóna.  Það breyttist ekki þó að yrðu stjórnarskipti.  Ég man að hann sagðist hafa sagt við Ólaf Jóhannesson þegar hann varð ráðherra sem framsóknarmaður að hann væri sjálfstæðismaður.  Þá sagði Ólafur:  „Það er bara betra.“

Mikið fórum við í ferðalög með ráðherrunum því að þeir þurftu aðstoð erlendis.  Þetta eru sjálfsagt breyttir tímar.  En þó að tölva og tæki hafi komið er ég ekki viss um að þetta hafi breyst mikið.  Við fórum á eigin vegum nokkrum sinnum til sólarlanda.  Þegar Guðmundur hætti að vinna ákváðum við að fara til Kanaríeyja.  Þegar vinir okkar heyrðu það var sagt:  „Þá farið þið aldrei annað. Það er svo góður staður.“  Við fórum og vorum þar í 4 vikur.  En eftir það fórum við aldrei aftur þangað.  Guðmundi líkaði það ekki.  Við höfum farið til Krítar og það varð okkar eftirlætisstaður. 

Nú er ég aftur komin á Seltjarnarnesið og sonur minn, Eggert Benedikt, er kominn á Reynistað.  Jean Eggert Hjartarson, sonur Lauru systur, býr í hinu húsinu, Reynisnesi.  Ég á 4 börn.  Elst er Ragnheiður Margrét sem er íslenskukennari og þýðandi, næst er Soffía Ingibjörg sem er verkefnastjóri í launadeild hjá Landsspítalanum. Síðan er Solveig Lára sem er vígslubiskup á Hólum.  Yngstur er sonur minn sem heitir Eggert Benedikt.  Hann er forstjóri hjá N1.  Ég á 12 barnabörn og bráðum 15 langömmubörn.  Það er fjör þegar allir koma saman en það gerist mjög sjaldan.  Ég fór með 14 stykki til Rómarborgar í haust í 5 daga og var það ógleymanlegt ferðalag.

Nú er mikil hátíð þegar kirkjan er 25 ára og Seltjarnarnesbær 40 ára.  Ég óska öllum Seltirningum innilega til hamingju á þessum tímamótum.