Hugvekja frá 01.12.2013 eftir Þóri Guðmundsson

Hugleiðing Þóris Guðmundssonar sem hann flutti 1. desember 2013.

Fyrir réttum sólarhring féll frá maður sem ég held að sé hægt að kalla siðferðislegt stórmenni. Nelson Mandela var í fangelsi í 27 ár en þegar hann var loks leystur úr haldi og var kjörinn forseti Suður-Afríku þá leit hann á það sem hlutverk sitt að sameina landið fremur en hefna óréttlætisins sem hann hafði verið beittur. 

Mandela sagði meðal annars um frelsið: "Að vera frjáls er ekki bara að komast úr járnum, heldur að lifa með þeim hætti sem virðir og bætir frelsi annarra." Þetta sagði maður sem þekkti það að vera í járnum. Bókstaflega. 

Ég heimsótti fyrir nokkrum árum fangelsið á Robben Island, fyrir utan Höfðaborg, þar sem honum var haldið lengst af. Þarna hýrði hann í klefa sem var 2,4 metrar á lengd og 2,1 á breidd. Á daginn var hann sendur út með samföngum sínum til að vinna erfiðisvinnu. Hann var látinn vinna erfiðisvinnu.  Fangaverðirnir niðurlægðu hann og komu í veg fyrir að hann fengi fréttir af umheiminum. Hann brást meðal annars við með því að læra Afrikaans, tungumál hinna hvítu búa, til að búa sig undir dag sátta sem hann var sannfærður um að kæmi einhvern tíma. 

Um allan heim, og líka hér á litla Íslandi, hefði fólk gott af að velta því fyrir sér hvað það var sem gerði Mandela að stórmenni. Í mínum huga er allavega hluti svarsins sá að hann hugsaði stórt, náði að sjá heildarmyndina, hafnaði hefnd vegna þess að hann sá að hún myndi leiða til glötunar.  Í Suður-Afríku, þar sem úir og grúir af ólíkum kynþáttum og uppruna hefði sú leið valdið gífurlegum blóðsúthellingum og tortímingu. 

Annars staðar í heiminum, og líka hér á Íslandi, lýsti Mandela leiðina til sáttar á umbreytingatímum. 

Ég var í íslenskri skírnarveislu nýlega. Foreldrarnir voru upprunnir annarsvegar frá Póllandi og hins vegar að hálfu frá Filippseyjum og að hálfu frá Íslandi. Filippeyskar frænkur sáu um matseldina og göldruðu fram frábæra filippeyska rétti í bland við pönnukökur og súkkulaðitertur. Gestirnir héldu sig nokkur vegin í tungumálahópum, þannig að á einu borðinu var töluð pólska, á öðru íslenska og á því þriðja tagalog. Svo heyrðist enska innan um þetta allt saman þegar allir áttu að skilja það sem sagt var. Börnin af ýmsum uppruna hlupu um og skríktu og töluðu ýmis tungumál. Það bar lítið á tungumálavanda hjá þeim. 

Í liðinni viku tóku einhverjir menn sig til og dreifðu svínshausum, blóði og blaðsíðum úr kóraninum á lóð félags múslima við Miklubrautina í Reykjavík, þar sem fyrirhugað er að reisa mosku. Á netmiðli var viðtal við einn manninn, sem á heima í Svíþjóð. Hann sagði að þetta hefði verið gjörningur, svona væri gert í Skandinavíu til að vanhelga lóðir og guðshús múslima, og nú vitna ég beint í hann: „Þetta gerðist víst í gær í Stokkhólmi. Þeir brjóta rúður í moskunum og henda þessu inn þar en við erum ekki svo róttækir á Íslandi.“

Þessir tveir viðburðir, fjölþjóðlega skírnarveislan og svínshausagjörningurinn við Miklubrautina, sýna tvær leiðir sem þjóðfélög eins og okkar geta farið þegar þau breytast. Fyrir þrjátíu árum hefði þótt ótrúlegt að heyra pólsku og tagalog í skírnarveislu. Engum hefði dottið í hug að henda svínshausum á grasbala við Miklubrautina – nema kanski ef hann nennti ekki á öskuhaugana. 

Við erum ekkert ein um að standa í þessum sporum. Þriðjungur mannkyns er á hreyfingu, sumir úr sveit í borg, aðrir úr einu landi í annað. Slíkir fólksflutningar hafa alltaf í för með sér einhverja röskun; sitthvað verður öðruvísi en það var áður – kanski betra, kanski verra, oftast bara aðeins öðruvísi. Það fólk sem flytur hingað þarf að aðlaga allt sitt líf að nýju umhverfi, nýrri menningu. Það vill kanski halda, fyrir sig, einhverju af þeim siðum sem það ólst upp við. Og við þurfum að einhverju leiti að aðlaga okkur að því. 

Þau okkar sem vilja síður fara svínshausaleiðina í þeim þjóðfélagsbreytingum sem nú standa yfir, eru kanski samt hugsi yfir ýmsu. Viljum við mosku við Miklubrautina? Það er hægt að hafa ýmsar skoðanir á staðsetningunni. Við skulum þess vegna einfalda spurninguna og segja: Mega múslimar reisa hér mosku? Og við þurfum að passa okkur á því að mynda okkur ekki skoðanir út frá því sem sýnist eða er sagt – en þarf alls ekki að vera rétt.

Synir mínir horfa mikið á þætti sem heita Mythbusters. Í þáttunum taka tveir bandarískir sjónvarpsmenn á mýtum, eða goðsögnum, og sannreyna þær. Í lok þáttanna úrskurða þeir að goðsögnin sé annað hvort rétt eða röng. 

Og hverjar eru goðsagnirnar um innflytjendur? Kannast einhver við að hafa heyrt að múslimar eigi svo mörg börn að þeir myndi fljótt að meirihluta í þeim löndum sem þeir flytjast til? Þessi goðsögn myndi fá stimpilinn RANGT  hjá þeim Mythbusters mönnum. Staðreyndin er sú að múslimar eiga að meðaltali 2,9 börn og þessi tala er að lækka. Og hún lækkar hjá innflytjendum því flestir eru tiltölulega fljótir að aðlagast því mynstri sem fyrir er í nýju heimkynnunum.

Önnur goðsögn er að innflytjendur auki álagið á velferðarkerfið. Í Bretlandi var þetta kannað og í ljós kom að innflytjendur eru helmingi ólíklegri til að fá bætur frá hinu opinbera en þeir sem fyrir eru. Nýlegir innflytjendur frá EES löndunum tóku meiri þátt í vinnumarkaðnum en aðrir og þeir sem hafa komið á síðustu þrettán árum hafa lagt meir til samfélagsins í sköttum og gjöldum en þeir hafa fengið frá því í bótum. Og hér á landi er sömu sögu að segja - enda greiddu erlendir ríkisborgarar með skattalega heimilisfesti á Íslandi um 10 milljarða króna í skatt á síðasta ári. Mýtan um innflytjandann sem flytur til að nýta sér velferðarkerfið reyndist því líka röng. 

Hér á landi búa 21 þúsund erlendir ríkisborgarar. Það er 6,7 prósent þjóðarinnar. Það er heilmikið miðað við að árið 2006 var talan ekki nema 4,6 prósent. Ísland er greinilega eftirsótt land að búa í þrátt fyrir hrunið.  

Samt sem áður hefur hrunið og það atvinnuleysi sem því fylgdi komið óvenjuhart niður á innflytjendum. Nýleg könnun sýnir að atvinnuleysi meðal Íslendinga er 4 prósent - en meðal Pólverja sem búa á Íslandi er það 15 prósent. Þessar tölur segja okkur nokkuð um það hverjir missa fyrstir vinnuna þegar þarf að segja fólki upp. 

Í heildina eru hér um 29 þúsund manns af erlendum uppruna, sem er 9,1 prósent landsmanna. Þrjú prósent þjóðarinnar koma frá Póllandi.  Margir þeirra hafa komið samfara opnun landsins þegar við gengum í evrópska efnahagssvæðið. Og þó að algengustu goðsagnirnar um útlendinga reynist rangar, þá þurfum við samt að velta fyrir okkur ýmsu í tengslum við hingaðkomu fólks sem vill búa hér í landinu með okkur. 

Ég veit ekki með ykkur en nú fer í hönd sá tími sem ég verð íhaldsamur og vanafastur. Það þarf að skrifa jólakort með gamla laginu - engir tölvupóstar! - og það þarf að huga að gjöfum. Bækur verða á pappír; það fær enginn bókaniðurhal af Amazon frá mér í jólagjöf. Hver sunnudagur í aðventu verður talinn niður með því að kveikja á kerti þar til fjórir logar stíga upp úr aðventukransinum á fjórða sunnudag í aðventu. Aðfangadagur í ár verður eins líkur aðfangadeginum fyrir ári og hægt er. 

En það er líka ágætt, í allri hinni þjóðlegu íhaldssemi, að huga að óhjákvæmilegum breytingum. Breytingum sem verða hvaða skoðun sem við höfum á því. Nýleg könnun sýndi að 93 prósent innflytjenda hafði upplifað fordóma af einhverju tagi, flestir oft. Er það heillavænlegt fyrir þau okkar sem vilja búa í góðu þjóðfélagi? 

Við þurfum í alvöru ekki að hafa áhyggjur af því að innflytjendur – hverrar trúar sem þeir eru – yfirgnæfi brátt þá sem fyrir eru eða séu efnahagsleg byrði á þjóðinni. Það er þvert á móti. En við þurfum að hafa áhyggjur af því hvernig samfélag við sköpum fyrir alla þá sem búa hér á landinu. Og þá komum við aftur að fjölþjóðlegu skírnarveislunni og svínshausunum. Ætlum við að þakka fyrir þennan lit sem nýir íbúar landsins færa okkur eða ætlum við að grýta svínshausum í þá. 

Mér hefur sem betur fer sýnst við Íslendingar þegar hafa svarað þessari spurningu. Í þau fáu skipti sem stjórnmálamenn hafa reynt að höfða til útlendingaandúðar þá hefur það gjörsamlega mistekist. Raddir sem kalla á umburðarlyndi og sátt í samfélaginu hafa hvað eftir annað orðið ofan á. Það er alls ekki sjálfsagt. Víða annars staðar hefur stjórnmálamönnum einmitt gengið ágætlega að fiska á gruggugum miðum andúðarinnar.  

Ég held satt að segja að Mandela hefði verið dálítið ánægður með okkur, þó að aðstæður hér séu auðvitað ekkert líkar þeim sem voru uppi í Suður-Afríku þegar hann var leystur úr haldi fyrir 23 árum.  Á undanförnum sólarhring eru sjónvarpsstöðvarnar búnar að sýna óteljandi sinnum myndina af því þegar hann gekk út úr Victor Verster fangelsinu 11. febrúar 1990. 

Ég hef stundum spáð í það hvað Mandela hafi hugsað á þeirri stundu. Mig grunar að hann hafi jafnvel þá verið að hugsa um framhaldið.  Ekki um sjálfan sig heldur framtíð þjóðar sinnar. Hann hafi hugsað: Í hvernig samfélagi vil ég búa? Það er ekki ósvipað því sem fór í gegnum minn huga þegar ég las fréttirnar af svínshausauppákomunni við Miklubraut - og varð hugsað til fjöltyngdu skírnarveislunnar.  Í hvernig samfélagi vil ég búa?