Prédikun frá 13.07.2014 eftir Þorgils Hlyn Þorbergsson

4. SUNNUDAGUR EFTIR ÞRENNINGARHÁTÍÐ:  

TEXTARÖÐ A:  

GUÐSÞJÓNUSTA SUNNUDAGINN 

13. JÚLÍ  2014, kl. 11:00 í Seltjarnarneskirkju:

LÚKASARGUÐSPJALL 6.36—42:

 

 

Verið miskunnsamir, eins og faðir yðar er miskunnsamur. 

Dæmið ekki, og þér munuð eigi dæmdir verða. Sakfellið eigi, og þér munuð eigi sakfelldir verða. Sýknið, og þér munuð sýknaðir verða. Gefið, og yður mun gefið verða. Góður mælir, troðinn, skekinn, fleytifullur mun lagður í skaut yðar. Því með þeim mæli, sem þér mælið, mun yður aftur mælt verða.'' 

  Þá sagði hann þeim og líkingu: ,,Hvort fær blindur leitt blindan? Munu ekki báðir falla í gryfju? Ekki er lærisveinn meistaranum fremri, en hver sem er fullnuma, verður eins og meistari hans. Hví sérð þú flísina í auga bróður þíns, en tekur ekki eftir bjálkanum í auga sjálfs þín? Hvernig fær þú sagt við bróður þinn: ,Bróðir, lát mig draga flísina úr auga þér,' en sérð þó eigi sjálfur bjálkann í þínu auga? Hræsnari, drag fyrst bjálkann úr auga þér, og þá sérðu glöggt til að draga flísina úr auga bróður þíns. 

 

Við skulum biðja:

 

Við biðjum þess, himneski faðir, að við megum íhuga það sem þú vilt við okkur segja í orði þínu. Hjálpa okkur að auðsýna náunganum miskunn og kærleika.  Í Jesú nafni, AMEN.

 

Náð sé með yður og friður frá Guði Föður vorum og Drottni Jesú Kristi.  Amen.

Hann er gildishlaðinn, sá texti sem prédikað er út frá í dag, og í honum eru fólgin mörg áminningarorð um mannleg samskipti.

Við könnumst ugglaust flest við Gullnu regluna: „Allt sem þér viljið að aðrir menn gjöri yður, það skuluð þér og þeim gjöra.“ Hana er að finna í Fjallræðunni. Enski lögfræðingurinn og guðfræðingurinn Nicky Gumbel, sem setti á stofn hin svonefndu Alfa-námskeið, nefnir þennan texta „hápunkt alls siðfræðiboðskapar Jesú“. Þarna rís félagssiðfræðin einna hæst. Sagt er að Alexander Severus keisari hafi látið letra þessi orð með gulli á vegginn hjá sér og síðan hafi þau orðið fræg sem „gullna reglan“.

Margir hafa kennt neikvæða útgáfu þessarar reglu. Konfúsíus sagði: „Það sem þér viljið ekki að aðrir menn gjöri yður, það skuluð þér heldur ekki gera öðrum.“ Fíló frá Alexandríu mælti eitt sinn: „Það sem þú þarft að líða, skalt þú ekki gera nokkrum manni.“ Stóuspekingar sögðu: „Það sem þú óskar ekki eftir að þér verði gert, skalt þú ekki gera öðrum.“ Epíktetus sagði: „Þann sársauka sem þú forðast að veita sjálfum þér, skalt þú ekki valda öðrum.“ Í fjórða kapítula Tóbítsbókar, sem er eitt af apókrýfu ritum Gamla testamentisins, stendur: „Gerðu engum það sem kæmi illa við þig sjálfan“. Hillel rabbína, sem var uppi rétt fyrir Krists burð, var ögrað af heiðingja sem sagði að hann væri reiðubúinn að snúast til gyðingdóms ef Hillel rabbíni gæti kennt allt lögmálið á meðan hann stæði á öðrum fæti. Hillel svaraði: „Gerðu ekkert það sem kemur illa við sjálfan þig; það er allt lögmálið og afgangurinn er ritskýring. Farðu og lærðu.“

Ég las áhugaverða grein í gær á netinu, eftir Gunnar Hersvein um lífsgildin undir yfirskriftinni: „Ísland-Palestína — Hvað getum við gert?“ Í henni segir meðal annars að friðaraðferðin sé jafngömul og jafnkunn og aðferð átakanna en hún er hljóðlát og þarfnast alúðar og tíma.  Hún fer ekki í manngreinarálit, hún gildir óháð stétt, búsetu, stöðu, kyni, uppruna og öðru sem er sett fram til aðskilnaðar. Hún er grunngildi mannréttinda. — Hún er friðurinn — heimsfriðurinn í hjartanu. Höfundur talar um hana sem silfurregluna: „Ekki óska neinum öðrum þess sem vekur þér andstyggð. Ekki gera öðrum það sem þú vilt ekki að aðrir geri þér. Ekki gera öðrum það sem þú sjálfur forðast. — Og loks: Réttlæti er aldrei samferða ofbeldi, kúgun og manndrápi.

Kristin siðfræði er umfram allt jákvæð. Jesús var fyrstur til þess að setja þessa reglu fram á jákvæðan hátt í boðskap sínum. Hvergi í fornbókmenntum þess tíma er hliðstæður að finna sem setja þetta fram á eins jákvæðan hátt og Jesús gerir. Hið jákvæða felur í sér mun meiri leit. Hið neikvæða segir: „Ég geri engum neitt mein.“ Slíkt viðhorf leyfir okkur að sitja með hendur í skauti. Svona er heimspeki veraldarinnar. Mörgum finnst þeir ekki vera „syndarar“ af því að þeir drepa hvorki né ræna eða gera engum viljandi illt. En við sem fylgjendur Jesú erum kölluð til enn æðra hlutverks. Við eigum ekki aðeins að segja:  „Ég ætla ekki að gera neinum manni mein,“ heldur einnig: „Ég ætla að fara úr leið til þess að hjálpa honum,“ rétt eins og miskunnsami Samverjinn gerði.

Slíkur kærleikur er aðeins mögulegur ef Guð úthellir kærleika sínum yfir okkur. „Vér elskum, af því að hann elskaði oss að fyrra bragði,“ segir í Fyrsta Jóhannesarbréfi. Það að við upplifum kærleika hans gerir okkur kleift að elska aðra eins og okkur sjálf fyrir hann. Ef kirkjan lifði samkvæmt þessu þá myndi heimurinn trúa. Í texta dagsins má sjá nánari útfærslu á Gullnu reglunni og hvernig hún virkar í reynd. Tökum upphafsorð þessa guðspjallstexta:

„Verið miskunnsamir, eins og faðir yðar er miskunnsamur.“ Miskunn er eitt af lykilhugtökunum í Biblíunni, og ekki síst í Fjallræðunni. Í texta dagsins má heyra enduróm af boðskap hennar, ekki síst í samskiptum manna á milli. En hvað er miskunn, eða hvað felur það yfirleitt í sér að vera miskunnsamur? Í upphafi Fjallræðunnar, sem skrifuð stendur í 5., 6. og 7. kapítulum í Matteusarguðspjalli, segir Jesús meðal annars í Sæluboðununum: „Sælir eru miskunnsamir, því að þeim mun miskunnað verða?“ Hvað felst í þessum orðum? Að vera miskunnsamur hefur reyndar tvær örlítið mismunandi merkingar.

Annars vegar eigum við að sýna þeim miskunn sem eru í neyð eins og fórnarlambið í dæmisögunni um miskunnsama Samverjann, sem við könnumst flest við. Samverjinn lagði lykkju á leið sína til þess að leggja manni lið, sem var í neyð, lá særður, klæðlaus og dauðvona við vegarbrúnina. Samverjinn spurði manninn hvorki um stétt né stöðu, hvað þá þjóðerni. Við eigum að gefa þeim gaum sem eru svöng, veik, utanveltu í þjóðfélaginu, óvinsæl eða einmana, eða kannski ramm-villtir ferðamenn, og auðsýna þeim miskunn. Hún mun leiða af sjálfu sér til þess að við veitum þeim þá hjálp sem þau þurfa á að halda.

Hins vegar eigum við að sýna þeim miskunn sem hafa gert á hlut okkar, jafnvel þótt réttlætið hrópi á refsingu. Þetta hygg ég að sé megininntak þeirrar greinar Gunnars Hersveins sem ég vísaði til hér á undan. Þetta er því miður andstætt því sem við sjáum gerast allt í kringum okkur í þeim heimi þar sem líku er goldið fyrir líkt og dagsskipunin hljóðar upp á hefnd. Hvað heyrum við í fréttum um þessar mundir frá slóðum Jesú og Biblíunnar?

Miskunnsemin er guðlegur eiginleiki. Hann er einkenni Guðs sjálfs. Miskunn er í raun skilyrðislaus kærleikur og friður. Og hvað felst í þessari miskunn? Jesús heldur áfram í texta dagsins með því að segja: „Dæmið ekki, og þér munuð eigi dæmdir verða. Sakfellið eigi, og þér munuð eigi sakfelldir verða. Sýknið, og þér munuð sýknaðir verða. Gefið, og yður mun gefið verða.“ Þó svo að Kristur segi hér: „Dæmið ekki,“ er ekki átt við það að við eigum að láta það ógert að leggja dóm á mannlega breytni, heldur fyrst og fremst hitt, að við leggjum réttan og sanngjarnan dóm og komum helst með jákvæða gagnrýni hvert í annars garð. Okkur hættir hins vegar oft til þess að vera með sleggjudóma í garð annarra og fegra þannig okkar eigin mynd meira heldur en góðu hófi gegnir. Með öðrum orðum er eins og við sjáum ekki flísina í auga bróður okkar fyrir bjálkanum í okkar eigin auga. Þegar við erum með sleggjudóma í garð annarra, þá hættir okkur til þess að gleyma því að við erum engu betri sjálf. Við erum alveg jafnblind, og stundum jafnvel blindari, ef eitthvað er. Meginboðskapur þessa texta er fyrst og fremst sá að kærleikur Guðs, já, miskunn Guðs, nær jafnt yfir alla menn. En hann vill að við vöxum að visku og vexti og náð hjá Guði og mönnum, með öðrum orðum, að við sjáum að okkur — verðum gott fólk og Guði þóknanleg, með því að bera kærleika hvert til annars. Þannig vöxum við í áttina til Krists. Með lífi sínu hefur hann kennt okkur, hvernig við eigum að haga okkar lífi.

„Allir hafa syndgað og skortir Guðs dýrð,“ segir í Rómverjabréfinu. Við þekkjum vísast flest frásöguna af því þegar farísear og fræðimenn koma með konu, sem staðin hafði verið að hórdómi til Jesú og spyrja hann, hvort ekki eigi að grýta þessa konu, eins og sjálfur Móse hafði boðið í lögmáli sínu. En orð Jesú koma þessum mönnum, sem ætlað höfðu að ná sér niður á honum, gjörsamlega í opna skjöldu: „Sá yðar sem syndlaus er, kasti fyrsta steininum.“ Og fræðimennirnir og farísearnir, sem áður höfðu virst vera svo góðir með sig, eiga ekkert svar. Konan fær uppgjöf saka hjá Jesú. Hún er sýknuð. Jesús gefur henni annað tækifæri. Þessi frásaga, sem varðveitt er í 8. kapítula Jóhannesarguðspjalls, sýnist mér í grófum dráttum endurspegla guðspjallstexta þessa sunnudags. Í þessum orðum Jesú er eins og ég heyri enduróminn af þessari hvatningu hans til okkar í dag eitthvað á þessa leið: „Dæmið ekki, og þér munuð eigi dæmdir verða. Sakfellið eigi, og þér munuð eigi sakfelldir verða. Sýknið, og þér munuð sýknaðir verða. Gefið, og yður mun gefið verða.“ Guðspjallssálminn og um leið trúarlífssálminn orti ég reyndar út frá þeirri sögu.

Gríska orðið yfir „að dæma“ er krivnein „krinein“ og þaðan er komið orðið „kritik“ sem við þekkjum svo vel úr öðrum tungumálum og þýðum gjarnan sem gagnrýni.

Við verðum dæmd eftir okkar eigin mælistiku. Sumir rabbínar kenndu að Guð hefði tvenns konar mælikvarða; mælikvarða réttlætis og mælikvarða miskunnar. Okkar er valið, eftir því hvorn við notum til þess að dæma aðra. Ef við sækjumst eftir réttlæti, þá munum við hljóta réttlæti. En ef við erum miskunnsöm, þá munum við hljóta miskunn Guðs, eins og segir í Sæluboðununum.  Sem kristnir menn höfum við reynt hina einstöku miskunn og fyrirgefningu Guðs þar sem hann úthellir kærleika sínum og náð yfir okkur. Hann fyrirgefur sífellt og hann meðhöndlar okkur ekki á þann hátt sem við verðskuldum vegna synda okkar. Ef Guð agar okkur á þennan hátt, þá ættum við einnig að breyta þannig við bræður okkar og systur.  Við ættum alltaf að leyfa öðrum að njóta vafans og fyrirgefa sífellt, skilja og elska.

Jesús útskýrir þetta með því að nota myndlíkingu um verkstæði smiðsins. Ugglaust var það nærtækt, þar sem Jósef, heitmaður Maríu móður hans, var trésmiður. Jesús segir: „Hví sérð þú flísina í auga bróður þíns, en tekur ekki eftir bjálkanum í auga sjálfs þín? Hvernig fær þú sagt við bróður þinn: „Bróðir, lát mig draga flísina úr auga þér,“ en sérð þó eigi sjálfur bjálkann í þínu auga?“

Jesús vísaði oft til faríseanna sem „blindra leiðbeinenda“. Maður sem hefur bjálka í auga sér er alveg blindur, en samt reynir hann að taka flís úr auga annars manns.

Enn á ný er mikilvægt að kanna hvað Jesús er ekki að segja. Hann er ekki að útiloka uppbyggilega gagnrýni. Sönn gagnrýni á bókmenntir, tónlist, ýmsar listir og íþróttir felst í  mikilli iðkun mannshugans. Hún ætti aldrei að vera einhliða neikvæð, heldur uppbyggjandi hvatning til dáða og metin að verðleikum. Á svipaðan hátt felur öll ástundun í sér uppbyggilega gagnrýni. Kennari þarf að gagnrýna nemendur sína á jákvæðan hátt ef þeir eiga að læra. Kennarinn á líka að hafa fengið uppbyggilega gagnrýni í starfi sínu. Við getum ekki mótmælt gagnrýni kennara eða þjálfara, þar sem hún bætir færni okkar og byggir okkur upp. Án hennar yrði hvers kyns lærdómur ómögulegur. 

Gáum að því, að þessi skýring, sem Jesús gefur, beinist ekki að ástríkri, uppbyggjandi gagnrýni, heldur að ónotalegri og hræsnifullri gagnrýni, jafnvel þótt hún taki á sig fallega mynd. Aðgát skal höfð í nærveru sálar. Flísin kemur frá sama bjálkanum og gagnrýnandinn hefur í sínu eigin auga. Munum það, að ef við beinum einum dæmandi fingri að náunganum, þá beinum við hinum fingrunum að okkur sjálfum. Reyndar er það þannig, að það sem við gagnrýnum í fari annarra er oft það sem við sjáum og finnum fyrir í sjálfum okkur. Með því að gagnrýna, getum við byggt sjálf okkur upp. En það er alls ekki sama hvernig það er gert!

Þetta á ekki aðeins við um siðferðisbresti annarra, heldur einnig og ekki síður þegar um kenningar er að ræða. Sum gagnrýni á kenningar getur farið saman við mikinn meirihluta skoðana hinna, sem eru á öndverðum meiði. Við getum verið sammála um þrenninguna, persónu og verk Jesú Krists, eðli friðþægingarinnar, kennivald Ritningarinnar og ýmis siðferðismál, en við finnum aðeins það sem í raun skiptir litlu máli í ágreiningi og náum tangarhaldi á því. Við erum ekki í rónni nema við séum stöðugt að áfellast eða fordæma. Getur það ekki verið að við séum blinduð af bjálkanum í okkar eigin auga? Oft erum við í vörn, ósveigjanleg, dómhörð, óþolandi og jafnvel smásmuguleg. Við sjáum ekki nógu glöggt til þess að fjarlægja flísina úr auga annarra nema við fjarlægjum bjálka aðfinnslunnar úr okkar eigin auga.

Þar að auki þekkjum við aldrei allar staðreyndir málsins. Aðeins Guð veit það sem „í myrkrinu er hulið“ og er „ráð hjartnanna“. Þegar þar að kemur mun Drottinn sjálfur dæma. 

Eins og sjá má og heyra vísar Jesús ekki allri gagnrýni á aðra á bug. En við þurfum að byrja á sjálfsgagnrýninni. Við þurfum helst að vera jafngagnrýnin á aðra og við erum á okkur sjálf, og jafnörlát við aðra og við erum ævinlega við okkur sjálf.  Jesús segir að þegar við höfum fjarlægt bjálkann úr okkar eigin auga, þá sjáum við nógu glöggt til við að hjálpa öðrum.

Þegar við höfum fjarlægt bjálkann, þá fyrst getum við sýnt ástúð og umhyggju. Við þurfum fyrst að gera hreint fyrir okkar dyrum. Sé okkur svo annt um réttlæti, hreinleika og heilnæma kenningu, ættum við að tileinka okkur þau gildi fyrst. Síðan erum við í aðstöðu til þess að hjálpa öðrum á ósvikinn, kærleiksríkan hátt.

Það er engin tilviljun að Jesús notar myndlíkingu um augað. Ekkert líffæri er viðkvæmara en augað. Á þeirri stundu sem fingur snertir það, lýkst það aftur. Gagnrýni á aðra er vandmeðfarið mál. Ef við ætlum að gagnrýna aðra manneskju, þá ættum við ekki að gera það með fordómum, heldur af mannúð, skilningi, samúð og örlæti. Við ættum helst af öllu að vera eins og móðir sem tekur eftir óhreinindum í auga barnsins síns og fjarlægir þau gætilega. Umræður eiga að fara saman við drengskap. Páll postuli skrifar þetta til Tímóteusar: „Vanda um, ávíta, áminn með öllu langlyndi og fræðslu“. Tökum þau orð Páls til okkar. Gætum tungunnar. Leitum sátta við Guð og náungann, hvetjum og uppörvum hvert annað af sanngirni og réttvísi. Guð gefi okkur náð til þess.

 

Dýrð sé Guði, Föður, Syni og Heilögum Anda, svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda, AMEN.