Prédikun frá 20.07.2014 eftir Þorgils Hlyn Þorbergsson

5. SUNNUDAGUR EFTIR ÞRENNINGARHÁTÍÐ:  

TEXTARÖÐ A:  

GUÐSÞJÓNUSTA SUNNUDAGINN 

20. JÚLÍ  2014, kl. 11:00 í Seltjarnarneskirkju:

LÚKASARGUÐSPJALL 5.1—11:

 

 

Nú bar svo til, að Jesús stóð við Genesaretvatn og mannfjöldinn þrengdist að honum til að hlýða á Guðs orð.  Þá sá hann tvo báta við vatnið, en fiskimennirnir voru farnir í land og þvoðu net sín.  Hann fór út í þann bátinn, er Símon átti, og bað hann að leggja lítið eitt frá landi, settist og tók að kenna mannfjöldanum úr bátnum. 

Þegar hann hafði lokið ræðu sinni, sagði hann við Símon: ,,Legg þú út á djúpið, og leggið net yðar til fiskjar.'' 

Símon svaraði: ,,Meistari, vér höfum stritað í alla nótt og ekkert fengið, en fyrst þú segir það, skal ég leggja netin.''  Nú gjörðu þeir svo, og fengu þeir þá mikinn fjölda fiska, en net þeirra tóku að rifna.  Bentu þeir þá félögum sínum á hinum bátnum að koma og hjálpa sér. Þeir komu og hlóðu báða bátana, svo að nær voru sokknir. 

Þegar Símon Pétur sá þetta, féll hann fyrir kné Jesú og sagði: ,,Far þú frá mér, herra, því að ég er syndugur maður.''  En felmtur kom á hann og alla þá, sem með honum voru, vegna fiskaflans, er þeir höfðu fengið.  Eins var um Jakob og Jóhannes Sebedeussyni, félaga Símonar. Jesús sagði þá við Símon: ,,Óttast þú ekki, héðan í frá skalt þú menn veiða.'' 

Og þeir lögðu bátunum að landi, yfirgáfu allt og fylgdu honum.

 

Þannig hljóðar hið heilaga orð, og sælir eru þeir, sem heyra Guðs orð, og varðveita það. Lof sé þér, Kristur. AMEN.

 

Vér skulum biðja:

 

Nú glaður út á djúp ég dreg,

í Drottins nafni upp leysi ég

net allrar iðju minnar.

Mér heppni góða hlotnast lát

og haf á athöfn minni gát,

Guð, vegna gæsku þinnar.

(SBK 1871, nr. 275)

  

Náð sé með yður og friður frá Guði Föður vorum og Drottni Jesú Kristi.  Amen. 

 

Við skulum ímynda okkur, að við séum stödd við Genesaretvatnið í fjölmennum hópi karla og kvenna.  Dagurinn er bjartur og fagur, og það er heitt í veðri.  En hvað myndi það vera, sem dregur okkur þangað?  Er það fagurt umhverfi, fallegt og kyrrt vatnið, eða er það ef til vill hinn mikli mannfjöldi?  Erum við þangað komin til þess að sýna okkur og sjá aðra?  Jú, víst geta þessi rök öll talist góð og gild fyrir nærveru okkar þar.

En meginástæðan fyrir nærveru okkar er raunar dálítið önnur.  Við erum þangað komin til þess að hlýða á orð Jesú Krists og fræðast af honum.  Mannfjöldinn er orðinn svo gífurlegur, að Kristur sér, að ekki muni lengur vera hentugur staður fyrir sig á ströndinni, til þess að líta yfir hópinn og láta alla heyra til sín.  Þá sér hann tvo báta við vatnið.  Annan bátinn eiga Símon Jónasson og Andrés bróðir hans en hinn báturinn tilheyrir þeim bræðrum, Jakobi og Jóhannesi Sebedeussonum.   Báturinn, sem Jesús stígur út í, er bátur þeirra Símonar og Andrésar.  Þegar Jesús er kominn um borð, biður hann Símon um að leggja bátnum lítið eitt frá landi, til þess að geta haft mátulegt bil á milli sín og mannfjöldans, meðan hann flytur ræðu sína.  Og um hvað skyldi hann vera að tala?  Svarið er ekki gefið berum orðum hér, en við vitum þó, að hann er að tala um gæsku og miskunn Guðs okkur til handa.  Af dæmisögum hans fáum við einnig oftast séð, hvaðan hann tekur líkingar sínar.  Hann tekur flestar líkingar sínar úr störfum manna og daglegu lífi.  Þess vegna finnst okkur oft, eins og þær geti talað til okkar á öllum tímum.  Hann dregur líkingar af smíðum og sjómennsku, akuryrkju og daglaunavinnu, jafnvel matreiðslu.  Þau munu varla hafa verið svo ýkja mörg, starfssviðin í samtíð hans, sem hann hefur skilið undan í prédikunum sínum.

Og er Jesús lýkur ræðu sinni, snýr hann sér að Símoni og segir við hann:  „Legg þú út á djúpið og leggið net yðar til fiskjar.“  Hvað vill Jesús Kristur segja með þessu?  Ef við umorðum hvatningu hans, gæti hún hljóðað á þessa leið:  „Leggðu þig því betur fram, sem verr gengur, og vertu öruggur, þegar óhöppin steðja að þér.“  Hann veit vísast, hvernig ástatt hefur verið hjá Símoni og félögum hans.  Þeir höfðu ekkert borið úr býtum, þrátt fyrir að hafa stritað alla nóttina.  Já, Jesús segir:  „Legg þú út á djúpið,“ það er að segja: „Reyndu aftur!“  Er nema von, að Símon verði heldur daufur í dálkinn, er hann heyrir þessi fyrirmæli Jesú, og hann svarar honum þannig, ef til vill með kökkinn í hálsinum og tárin í augunum:  „Meistari, vér höfum stritað í alla nótt og ekkert fengið, en fyrst þú segir það, skal ég leggja netin.“  Við heyrum greinilegan vonleysistón í svari Símonar.  Já, alla nóttina höfðu þeir stritað og erfiðað, í þeim tilgangi að draga björg í bú, en án árangurs.  Meðan niðdimm nóttin grúfir yfir, er mesta vonin um góðan afla yfirleitt fyrir hendi, en hábjartur dagurinn gengur sjaldnast til slíkra verka.  Samt sem áður ákveða þeir að gera eina tilraun í viðbót, samkvæmt boði Jesú.  Persóna Jesú og orð vekja traust þeirra, og þeir hafa á tilfinningunni, að orðum hans sé óhætt að treysta.  Og hvað gerist?  Skyndilega kemur ótrúlegur fjöldi fiska í netin, já, svo mikill, að þau taka að rifna.  Þeir verða að fá aðstoð frá Jakobi og Jóhannesi Sebedeussonum á hinum bátnum.  Bátarnir fyllast báðir, og við borð liggur, að þeir sökkvi.  Þessi óvænti afli fær mikið á Símon, jafnvel svo mjög, að skelfingu lostinn segir hann við Jesú:  „Far þú frá mér, herra, því að ég er syndugur maður.“  Og það er ekki einvörðungu hann, sem verður þvílíku felmtri sleginn, heldur og allir viðstaddir, einnig þeir bræður, sem á hinum bátnum eru.  Og hvers vegna?  Vegna þess, að Jesús lætur hið ómögulega verða mögulegt, skyndilega fyllist Genesaretvatnið af spriklandi og girnilegum fiski, sem beinlínis bíður þess að verða veiddur.  En Jesús mælir aðeins við hann:  „Óttast þú ekki, héðan í frá skalt þú menn veiða.“  Og þessi hvatning Jesú til Símonar, um að gerast mannaveiðari, hefur ugglaust haft undarleg áhrif á veiðimanninn, sem varla kann annað en að veiða fisk í soðið.

Samt sem áður treysta þeir honum, — allir.  Þeir leggja bátum sínum aftur að landi og fylgja honum.

Frásöguna um köllun þeirra félaga er að finna í öllum samstofna guðspjöllunum, hjá Lúkasi, Matteusi og Markúsi.  Þessi frásögn er samt sem áður langítarlegust hjá Lúkasi, í textanum, sem var lesinn hér áðan. Og eftirtektarvert er, að hvorki í Matteusarguðspjalli né Markúsarguðspjalli er minnst á mannfjölda, sem Jesús kennir við Genesaretvatnið, heldur er því aðeins lýst, þegar Jesús gengur meðfram ströndinni og sér þá bræður, Símon og Andrés Jónassyni, þar sem þeir eru að kasta neti í vatnið og segir við þá:  „Komið og fylgið mér, og mun ég láta yður menn veiða.“  Síðan gengur hann áfram þaðan og sér hina bræðurna tvo, Jakob og Jóhannes Sebedeussyni, og kallar á þá á sama hátt.  Þeir yfirgefa sömuleiðis bátinn og föður sinn, til þess að fylgja honum.  Sagan er nánast sú sama, bæði hjá Markúsi og Matteusi, en læknirinn Lúkas útfærir hana enn nákvæmar, eins og áður er getið.

Nú skulum við huga nánar að staðháttum.  Genesaretvatnið er rúmlega 20 kílómetra langt, þar sem það er lengst, frá norðri til suðurs, og mesta breiddin milli 10 og 12 kílómetrar.  Í raun réttri gengur þetta stöðuvatn undir þremur nöfnum; Genesaretvatn, Tíberíasvatn og Galíleuvatn.  En í kringum þetta vatn er frjótt og fagurt hérað.  Meðfram vatninu allt í kring út að fjallveggjunum, sem girða dalhvilftina til beggja handa, má segja, að sé einn óslitinn, skínandi og blómum skrýddur akur.  Þetta er sem sé ein fegursta landsspilda alls Gyðingalands.  Því þarf líklega ekki að koma á óvart, að hún mun hafa verið ákaflega þéttbýl á dögum Krists.

Víst er þetta fögur lýsing á staðháttum, og ekki er laust við, að á fögrum sumardegi könnumst við Íslendingar einmitt svo mætavel við þessa lýsingu í tengslum við okkar góðu fósturjörð, þegar náttúran skartar sínu fegursta og veröldin brosir blítt við okkur, þar sem við röltum áhyggjulaus út um græna grundu.  Og ekki er vatnið eða sjórinn heldur svo ýkja fjarri okkur heldur.  Atlantshafið umlykur okkur, og ég efast raunar um, að við þurfum að fara langt, til þess að sjá vatn í einhverri mynd.  Aðalatvinnuvegur þjóðar okkar er sjávarútvegurinn, enda má segja, að fiskurinn í sjónum sé okkar lífsbjörg. Í misjöfnum veðrum, oft vályndum, hafa sjómennirnir okkar marga hildi háð við Ægi konung, til þess að geta dregið björg í bú og framfleytt sér og sínum, stundum aflast vel, en því miður, stundum illa.  Þegar höfð er í huga harðleikni sjómennskunnar og mikilvægi hennar fyrir afkomu þjóðarinnar, er það í raun og veru réttlætanlegt að fyrsti sunnudagur júnímánaðar sé tileinkaður þessari atvinnugrein, svo fremi hann beri ekki upp á hvítasunnudag.

Í framhaldi af þessu vaknar spurningin um það, hvernig kristnum manni ber að sinna sínu starfi?  Sérhver kristinn maður á að sinna því, fyrst og fremst af trúmennsku, rétt eins og hann sé til þess kallaður af Guði sjálfum.  Þó svo að ekkert hefði aflast um nóttina, eins og vænst var, gerir Símon enn eina tilraun að boði Jesú og leggur netin.  Ekki er að efa, að heldur hefur hann verið daufur í dálkinn, og við sjáum, hvernig vonleysið og umkomuleysið buga hann.  En hann reynir aftur.  Og sjá!  Svo mikið veiðist, að báðir bátarnir fyllast á örskotsstundu.  Þannig getur Jesús breytt sorg í gleði og uppgjafarhug í áræði, einnig við okkar aðstæður.

Nú veit ég ekki, hvað þið starfið, áheyrendur mínir, en hvaðeina, sem við kunnum að hafa fyrir stafni,  ber okkur að sinna því af trúmennsku, hlýðni og skyldurækni. Sum verkefni, sumar ákvarðanir kunna þó að valda kvíða og efa, en ef við leggjum á djúpið — látum vaða — eins og margir segja í dag, munum við uppskera eftir því.

Hér skulum við aftur huga að síðustu orðum Jesú í guðspjallstextanum, er hann mælir við Símon:  „Óttast þú ekki, héðan í frá skalt þú menn veiða.“  Hvað felst í þessum orðum?  Snerta þau okkur í dag?  Jú, vissulega, vegna þess að Jesús beinir þessum orðum til okkar enn í dag, í okkar margvíslegu aðstæðum.  Með þessum orðum er Jesús Kristur að hvetja okkur til fylgdar við sig til eflingar Guðs ríkis.  Vitanlega eru hin jarðnesku skyldustörf, er við innum af hendi, mikilvæg, og miklu máli skiptir, að þau séu réttilega unnin.  Og þá gildir einu, hver staðan er eða stéttin, hvort hún er há eða lág.  En án trúarinnar, sem ber ávöxt í góðu og grandvöru líferni, getum við hvorki þóknast Guði né orðið hólpin.  En ef við förum eftir vilja Guðs, þá öðlumst við hjálpræði hans.

Hver eru viðbrögð Símonar við þessari áskorun Krists — já, og þeirra allra?  Þeir leggja bátunum að landi, yfirgefa allt og fylgja honum.  Þeir verða lærisveinar hans.  Jesús hugsar sér einnig alveg nýtt og sérstakt hlutverk fyrir Símon.  Hann á að vera Pétur, kletturinn, bjargið, sem kirkjan byggist á.  Nafnið Pétur merkir klettur, eða hinn staðfasti.  Frá þessu er greint í 16. kapítula Matteusarguðspjalls.  Og víst eru enn til þeir menn í dag, sem hafa algjörlega snúið baki við fyrri iðju sinni, rétt eins og Símon Pétur og félagar höfðu gert, og stunda kristniboð.  Slíkt er yndislegt, en við þjónum Guði einnig með því, að þjóna öðrum og biðja fyrir þeim.  Þetta sýndi Jesús einatt berlega sjálfur, bæði í orðum og verkum.  Þjónusta við Guð er einmitt ekki einvörðungu fólgin í prédikun og prestsskap.  „Við erum limir á líkama Krists,“ segir postulinn Páll, bæði í I. Korintubréfinu og í Rómverjabréfinu, og okkur er ætlað að gegna margvíslegum verkefnum, rétt eins og sérhver líkamshluti, útlimur og skynfæri, verður að gegna sínu hlutverki til þess að líkaminn okkar starfi eðlilega.

Og enn kallar Jesús okkur út á djúpið, hvetur okkur til þjónustu við sig.  Reynum að vera eftirbreytendur hans og ávinnum aðra fyrir Krist.  

 

Á djúpið út, það kvöldar, Jesús kallar,

því kvitta vill nú syndir þínar allar

Guðs eilíf ást.

 

Dýrð sé Guði, Föður og Syni og Heilögum Anda, svo sem var í upphafi, er og verða mun um aldir alda.  AMEN.