Prédikun frá 25.12.2014 eftir sr. Maríu Ágústdóttur

Jóladagsprédikun 2014

María Ágústsdóttir

Flutt í Seltjarnarneskirkju

 

Dýrðin, dýrðin

 

Á jólanótt, þegar himneskur veruleiki Guðs gekk inn í mannleg kjör, þegar Jesús Kristur, Guð og maður, fæddist, sungu englarnir um frið á jörðu: „Dýrð sé Guði í upphæðum og friður á jörðu og velþóknun Guðs yfir mönnum“ (Lúk 2.14). Við lok starfstíma Jesú, í nánd dauða hans og upprisu, voru það lærisveinarnir sem lofuðu Guð og sögðu: ,,Blessaður sé konungurinn sem kemur í nafni Drottins. Friður á himni og dýrð í hæstum hæðum!“ (Lúk 19.38).

Himneskar verur boðuðu frið á jörð. Jarðneskar verur þökkuðu fyrir að hafa fengið innsýn í frið himnanna. Dýrð sé Guði, sögðu englarnir, boðberarnir af himnum. Blessaður sé sá sem kemur í nafni Drottins, dýrð í hæstum hæðum! sögðu lærisveinarnir, sem fengu það hlutverk að boða trúna sem átti eftir að breiðast út um alla jörð, trúna á Jesú Krist, sjálfa nærveru Guðs, holdi klædda, samtengingu himins og jarðar. ,,Dýrðin, dýrðin,“ syngjum við og sýnum áhrifin í verki, ef allt er með felldu.

Hver er hún – hvaðan kom hún?

En hvað er hún, þessi dýrð Guðs, sú dýrð í hæstu hæðum sem hingað kom á jörð, svo umorðuð séu sálmaskáldsins aðeins (sr. Valdimar Briem, Í dag er glatt í döprum hjörtum)?

Dýrð er hugtak sem er notað t.d. í annarri Mósebók um nærveru Guðs, til að lýsa reynslu af Guði: „Þegar dýrð mín fer fram hjá læt ég þig standa í klettaskorunni og hyl þig með lófa mínum þar til ég er farinn fram hjá“ (2Mós 33.22). Við munum líka eftir frásögunni af Móse á fjallinu þegar hann fékk steintöflurnar með boðorðunum 10 í hendur. Þar dvaldi hann í nálægð Guðs og dýrðin var svo sterk að Móse varð að breiða skýlu yfir höfuð sitt þegar hann kom niður svo að fólkið fengi ekki ofbirtu í augun!

Í englasöngnum á jólanótt finnum við tengingu við Guð þeirra Móse, Mirjam og Arons, Guð Abrahams og Söru, Guð Ísaks og Rebekku og Guð Jakobs og systranna Leu og Rakelar. Allur frásagnarheimur Biblíunnar rúmast í þessu hugtaki, dýrð Guðs, nærveru Guðs, sem kom og kemur til okkar í Jesú Kristi.

Sáttmálsörk og jata

Á hebresku er þetta hugtak kavod (כבד, kavod, kbd) og þegar hebreska Biblían var þýdd á grísku á öldunum fyrir Krist völdu þýðendur gríska orðið doxa, af sögninni dokein, að vænta eða trúa. Orðstofninn bæði á hebresku og grísku tengist sögninni að lýsa eða skína.

 „Fyrst Mannssonurinn hefur birt dýrð Guðs mun Guð veita honum dýrð sína og skjótt mun hann gera það“ heyrum við hjá Jóhannesi guðspjallamanni (Jóh 13.32). Og postulinn lýsir því hvernig dýrð Guðs endurspeglast í Kristi (2Kor 3.18). „... ljósið frá fagnaðarerindinu um dýrð Krists, hans sem er mynd Guðs“ (2Kor 4.4). „Því að Guð sem sagði: „Ljós skal skína fram úr myrkri!“ lét það skína í hjarta mitt til þess að birtu legði af þekkingunni á dýrð Guðs eins og hún skín frá ásjónu Jesú Krists“ (2Kor 4.6). Þetta segir Páll í framhaldi af umfjöllun um ljómann yfir Móse og skýluna sem huldi hann undir gamla sáttmálanum. Með nýja sáttmálanum, í Jesú Kristi, er ekki lengur þörf á að skýla sér fyrir nálægð Guðs því kærleikurinn og fyrirgefningin er yfirfljótandi.

Sáttmálsörkin sem geymdi steintöflurnar, stjórnarskrá gamla sáttmálans, var helgur gripur í augum Ísraelsmanna, tákn nærveru Guðs. Jata frelsarans er stjórnarskrá nýja sáttmálans, kærleikur Guðs holdi klæddur. Á málverkum og myndum sem sýna fjárhúsið og hina heilögu fjölskyldu stafar oft geislum frá jötunni, og stundum er ljós notað sem Jesúbarnið í stað brúðu í helgileik barnanna.

Bjarminn af birtunni

Í jólaguðspjalli Jóhannesar (Jóh 1) verður guðspjallamanninum tíðrætt um ljósið. Orð Guðs, Jesús Kristur, ber lífið sjálft í sér og ,,lífið var ljós mannanna.“ Þetta ljós skín í myrkrinu, eins og er svo áþreifanlegt hér hjá okkur í landi náttmyrkranna. En sorgin er að ,,myrkrið tók ekki á móti“ ljósinu, ,,heimurinn þekkti hann ekki... hans eigið fólk tók ekki við honum.“ Samt er hann ,,hið sanna ljós, sem upplýsir hvern mann“ og ,,öllum þeim sem tóku við honum gaf hann rétt til að verða Guðs börn, þeim sem trúa á nafn hans.“

Þetta fengu samtímamenn Jesú að reyna, þau sem gerðust lærisveinar hans og lofuðu Guð og blessuðu Hann sem kemur í nafni Drottins. Þau fengu að reyna, eins og við, að vera af Guði fædd, eiga Orðið í hjarta sínu, nærveru Guðs sem býr með okkur, og með þeim fáum við að sjá dýrð hans, „dýrð sem sonurinn eini á frá föðurnum.“

Dýrðin búi í landinu

Sú dýrð Guðs sem englar sungu um nóttina forðum - og lærisveinarnir síðar - er birtan af nærveru Guðs, ljós himnanna sem hingað kom á jörð. Leyfum okkar innri augum að sjá þessa birtu, horfumst í augu við dýrð Guðs sem ljómar frá ásjónu barnsins í jötunni, frelsarans Jesú Krists sem sameinar veruleika trúarinnar og okkar jarðnesku tilveru. Mætti það ljós vísa okkur veg áfram, umbreyta hjörtum okkar, leyfa okkur að sjá Guð, að dýrð hans megi búa í landinu okkar, eins og segir í Davíðssálmi 85:

8Lát oss, Drottinn, sjá miskunn þína
og veit oss hjálpræði þitt.
9Ég vil hlýða á það sem Drottinn Guð talar.
Hann talar frið til lýðs síns og til dýrkenda sinna
og til þeirra er snúa hjarta sínu til hans.
10Hjálp hans er nálæg þeim er óttast hann
svo að dýrð hans megi búa í landi voru.
11Elska og trúfesti mætast,
réttlæti og friður kyssast.
12Trúfesti sprettur úr jörðinni
og réttlæti horfir niður af himni.
13Þá gefur Drottinn gæði
og landið afurðir.
14Réttlæti fer fyrir honum
og friður fylgir skrefum hans.

 

Já, dýrð sé Guði föður, syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda. Amen.