Ræða frá 01.01.2015 eftir Styrmi Gunnarsson

Ræða Styrmis Gunnarssonar, ritstjóra, sem hann flutti á nýársdag 2015. 

 

Kæri Söfnuður

Mér er engin launung á því að mér finnst ég varla hæfur til að tala í kirkju. En jafnframt vildi ég heldur ekki hafna ósk sóknarprests ykkar um að ég gerði það. Þess vegna stend ég hér.

Mér hefur oft verið hugsað til þess undanfarna áratugi að það væru ekki bara vandamál samfara því að búa í fámennu samfélagi eins og við gerum á þessari fallegu eyju hér norður í höfum, þótt þau séu að vísu mörg.  Návígið er hluti af þeim vanda og er að mínu mati stærri þáttur í því efnahagshruni, sem við upplifðum fyrir fimm árum en við höfum horfst í augu við til þessa.

En það eru líka kostir við að búa í fámennu samfélagi. Fámennið á að gera okkur auðveldar um vik að byggja hér upp fyrirmyndar þjóðfélag. Það á að gera okkur kleift að halda betur utan um samfélag okkar og þá meðal annars með því að halda betur utan um okkar minnstu bræður og systur en við gerum.

Við höfum hins vegar ekki nýtt okkur þessa kosti fámennis nema að litlu leyti.

Hvernig má það vera að til sé útigangsfólks á Íslandi? Það hverfur í milljóna samfélögum en það hverfur ekki hér.

Hvernig má það vera að til sé raunveruleg fátækt á Íslandi? Hún sést ekki í milljóna samfélögum nema leitað sé að henni. Við getum ekki varið okkur með því að hún hverfi í einhverju mannhafi hér.

Við höfum orðið efnuð þjóð á svo sem 70 árum.

Fram undir 1940 var þetta enn samfélag, þar sem menntun var ekki á allra færi. Í bréfum sem ég hef lesið frá móðurbræðrum mínum til ömmu minnar á fjórða áratug síðustu aldar – þeir voru sjómenn á Vestfjörðum – kemur fram að börn systur hennar muni menntast vegna þess hverjum hún giftist. Í slíkum athugasemdum þeirra fólst að þeir mundu ekki menntast enda sjómannssynir úr Djúpinu.

Þetta samfélag er horfið. Við sem þjóð höfum efnast. Við höfum byggt hús. Við höfum byggt upp innviði samfélagsins, skóla og sjúkrahús og allt sem til þarf.

Þegar horft er á hið ytra byrði samfélagsins leikur allt í lyndi þrátt fyrir sveiflur í afkomu okkar frá einu ári til annars.

Hvað er þá að í þessu samfélagi?

Meinsemdin birtist í samskiptum fólk, illu umtali, persónulegum árásum, og öllu því, sem við þekkjum úr daglegu lífi okkar allra.

Ég hef velt þessu fyrir mér og kannski meir en ella vegna þess að það var mitt starf ásamt öðrum í áratugi að endurspegla samfélagið með kostum þess og göllum og kynntist þess vegna viðbrögðum fólks við áreiti og áföllum betur en ella.

Þau viðbrögð hafa orðið mér umhugsunarefni. Þau einkenndust hvorki af kærleika, sem oft  er talað um í kirkjum né umburðarlyndi sem líka er talað um í kirkjum. Heldur þveröfugt.

Og hver er niðurstaða leikmannsins, sem ekkert kann fyrir sér, hvorki í sálfræði né guðfræði?

Hún er þessi:

Við höfum lagt áherzlu á útlitið en ekki okkar innri mann. Sýndarmennsku fremur en efni málsins.

Við höfum byggt glæsta skóla, leikskóla, grunnskóla, framhaldsskóla og háskóla en við höfum ekki hugað að tilfinningalífi þeirra, sem sækja þessa skóla.

Þessi vanræksla okkar verður ekki bara skýrð með kæruleysi.

Að töluverðu leyti var skýringin þekkingarleysi en síðustu áratugi hefur þekkingin verið til staðar en skilningur á því hvernig hana ætti að nýta til að byggja upp betra samfélag hefur verið takmarkaður.

Þó blasir veruleikinn við okkur öllum.

Hvaða áhrif hefur það á sálar- og tilfinningalíf einstaklings að alast upp frá barnæsku í umhverfi, sem er þrúgað af áfengissýki?

Það mótar allt líf þess einstaklings og skýrir viðbrögð hans síðar á lífsleiðinni.

Hvaða áhrif hefur það á sálar-og tilfinningalíf einstaklings að fylgjast með lífsbaráttu föður eða móður, sem þjáist af geðsýki?

Það markar allt líf þess einstaklings.

Hvaða áhrif hefur það á sálar- og tilfinningalíf einstaklings að heimsækja foreldri sitt í fangelsi?

Það þjakar þann einstakling alla hans ævi.

Hvaða áhrif hefur það á sálar- og tilfinningalífs einstaklings að alast af einhverjum ástæðum upp fjarri föður og/eða móður?

Leitin að föður eða móður, sem hvarf sjónum  á einhvern veg stendur alla ævi að ekki sé talað um andlát foreldris á meðan börn eru í bernsku.

Hér hafa aðeins verið nefnd nokkur þeirra áfalla, sem eru alltof algeng í lífi fólks.

Rannsóknir sýna að fátt hefur afdrifaríkari áhrif á alla ævi fólks en ef tengsl móður og barns rofna á fyrstu mánuðum og misserum lífsins. Það barn er að takast á við þau rofnu tengsl alla ævi og sú lífreynsla mótar viðbrögð þess gagnvart öðrum síðar á ævinni.

Rofni þessi tengsl verður til öryggisleysi, sem getur varað alla ævi.

Við fylgjumst öll með margvíslegum viðbrögðum fólks við umhverfi sínu og býsnumst yfir því, sem við verðum vitni að.

En oftar en ekki er skýringarinnar að leita í öryggisleysi sem á sér rætur í æsku en ekki hroki eða yfirgangur.

Þess vegna er mín skoðun sú að nú sé kominn tími til að leggja meiri áherzlu á að hlú að tilfinningalífi hvers einstaklings en að þeirri ytri umgjörð sem að honum snýr.

Hvað felst í þessum orðum?

Í þeim felst að áfengissýki á heimilum eigi ekki að vera falið vandamál heldur sé börnum veittur stuðningur við það í æsku að takast á við þann vanda.

Í þeim felst að barnið sem á foreldri, sem er að takast á við geðsýki fái stuðning frá upphafi, fyrst með því að tengslin við móður rofni ekki ef móðir á í hlut og síðar við að skilja og takast á við viðbrögð hins sjúka foreldris og umhverfisins, þegar hvíslað er: Mamma hennar er geðveik.

Í þeim felst að það á ekki bara að vera verkefni hins foreldris að útskýra hvers vegna heimsóknir í fangelsi eru nauðsynlegar heldur á samfélagið að koma þar við sögu. Raunar er það umhugsunarefni hvort fangelsun nema í ítrustum tilvikum sé orðin úrelt aðferð samfélags við að refsa.

Og í þeim felst að barnið sem er gefið eða týnir foreldrum sínum eða verður viðskila við það eða þau með einhverjum hætti fái stuðning við að takast á við þann vanda sem því er samfara.

Þetta þýðir að lyfta þarf velferðarsamfélögum okkar tíma upp á nýtt plan.

Það er trú mín að með því að takast á við þennan vanda strax munum við að nokkrum áratugum liðnum uppskera betra samfélag, þar sem hver og einn bregst við áföllum og áreiti með opnari hug og jákvæðari hætti og meira umburðarlyndi gagnvart meðbræðrum sínum.

Og þar sem ég fékk tækifæri til að tala í kirkju má ég kannski láta það fylgja með að fáum stofnununum þjóðfélagsins stendur það nær að leggja þessari baráttu lið en einmitt kirkjunni.

Hafi einhver í ykkar hópi efasemdir um að ég sé að lýsa veruleikanum í okkar samfélagi vil ég hvetja þá hina sömu til þess að lesa bók, sem út kom fyrir svo sem einum og hálfum áratug og heitir Undir köldu tungli.

Hún lýsir vegferð lítillar stúlku, sem ólst upp undir köldu tungli og er einn samfelldur áfellisdómur yfir samfélagi okkar. Hún lifði af og er  á meðal okkar hér á suðvesturhorninu. Hún lifði ekki af vegna þess að hún fengi aðstoð samfélagsins við það. Hún lifði af þrátt fyrir að samfélagið legði stein í götu hennar, en vegna þess að hún bjó yfir og býr yfir eigin innri styrk.

Gleðilegt ár.