Hugvekja frá 11.01.2015 eftir Svönu Helen Björnsdóttur

SIÐVIT

– hugvekja í Seltjarnarneskirkju 11. janúar 2015

Sérhver ný kynslóð dregur í efa reynslu fyrri kynslóða. Fólki reynist erfitt að læra af reynslu annarra. Flestir þurfa að upplifa í eigin lífi til að læra. Ákefð æskunnar er undursamleg og drífur áfram þróun og framfarir á ýmsum sviðum – en orsakar stundum dýrkeypt og endurtekin mistök.

Margir núlifandi Íslendingar þekkja ekki annað en hlý og rúmgóð húsakynni – og upplýst líf með rafmagni, síma og nettengingu hvert sem farið er. Það eru helst Vestfirðingar sem reglulega eru minntir á afleiðingar rafmagnsleysis og upplifa þá hve harðbýlt Ísland í raun er.

Náttúrufarið hefur frá landnámi mótað íslenska þjóð. Harðir vetur, eldgos, hungur og mannfellir voru ekki viðráðanleg fyrir langömmur okkar og langafa. Það eru aðeins rúm 100 ár síðan fyrstu verkfræðingarnir tóku til starfa á Íslandi. Þeir lögðu vegi, gerðu hafnir, byggðu brýr, virkjuðu straumvötn – leiddu rafmagn, heitt vatn og síma í hús. Síðan hefur þróun fjarskipta- og upplýsingatækni verið hröð, þeirrar tækni sem framfarir og lífsgæði núlifandi fólks byggja hvað mest á. Á árinu 2015 er einnig öld frá því að konur fengu kosningarétt á Íslandi og hófu að undirbúa byggingu Landspítala, sem þá var ekki til.

Fólk sem leitar ekki síns eigin

Lífskjör hér á landi hafa batnað ótrúlega mikið og hratt á síðustu áratugum. Samhliða stórvaxandi velmegun hér á landi hefur viðhorf fólks til kristinnar trúar breyst og dofnað. Ýmsir telja mannkynið nú svo máttugt og upplýst að ekki sé lengur þörf fyrir kristna trú. Margir kunna ekki að meta frelsið vegna þess að þeir hafa aldrei upplifað andstæðu þess, helsið. Mannréttindi fólks eru að margra áliti sjálfsögð og þeir sömu hræðast ekki að geta misst réttindi sín eða frelsi. Í þessu felst mikil hætta.

Vegna sjálfumgleði tíðarandans eiga kristin gildi undir högg að sækja. Háværar raddir draga í efa mikilvægi þjóðkirkjunnar og raddir þeirra sem lýsa sig trúlausa segja að hún sé tímaskekkja. Ef skoða á hlutverk kirkjunnar í samtíma okkar þarf fyrst að bregða ljósi á íslenskt samfélag eins og það er um þessar mundir. Fjármálakreppan á Íslandi 2008 leiddi af sér stjórnmála- og samfélagskreppu. Upplausnarástandið sem skapaðist hefur reynt á innviði samfélags okkar og mörgum hefur orðið ljóst að neyslusamfélag okkar er taumlaust. Nánast allt er til sölu og aðgengilegt. Víða skara menn eld að eigin köku, opinberlega og feimnislaust, oft á kostnað annarra. Afleiðingin er siðferðileg hnignun og gildistap.

Það vantar fólk með siðferðisþrek; fólk sem leitar ekki síns eigin. Það vantar fólk sem þorir að andmæla og hefur þrek til að sporna við þróuninni. Það verður æ sjaldgæfara að hitta fólk sem byggir líf sitt á grunngildum kærleika og mannúðar; fólk með ríka réttlætiskennd – og hegðun í samræmi við það; fólk sem metur ærlegheit ofar efnalegum ávinningi. Þessu fólki hefur um sinn fækkað eftir því sem grunnur siðferðilegra gilda og viðmiða hefur hrörnað.

Hvað gerist þegar reglur samfélagsins eru settar af fólki sem ekki lengur hefur skilning á grundvelli slíkra viðmiða eða virðir þau? Hvernig getur slíkt fólk verið traustar og góðar fyrirmyndir í eigin fjölskyldu, fyrir eigin börn, um grunngildi sem vísa rétta leið í lífinu? Hætt er við að hin siðferðilega hnignun og gildistap haldi áfram gegnum kynslóðir. Þetta er þróun sem sagan staðfestir og erfitt getur reynst að stöðva. Til þess að það geti tekist þarf það fólk að beita sér, sem vill ekki að þjóðfélagið þróist lengra á þessari braut.

Sumt fólk telur að Guð sé ekki til. Það lifir eins og Guð sé ekki til, þótt það viti að aðrir hafi í trúnni öldum saman öðlast lífsfyllingu og styrk. Það vill sem minnst hafa með trú að gera. Þetta fólk les ekki í Biblíunni eða bækur um trúmál, sinnir ekki trúarlegu uppelda barna sinna og fer ekki í kirkju. Slíkt fólk lítur á trúarlegar athafnir eins og skírn, fermingu, brúðkaup og útför sem aukaatriði og afgreiðir þær gjarna með hliðsjón af fjárhagslegum ávinningi, gjöfunum áþreifanlegu, eða borgaralegum venjum. Það er auðvelt að leiðast af vegi heilsteyptra lífshátta þegar engin innri viðmið eru til staðar, enginn innri áttaviti sem markar stefnu til framtíðar, þegar aðeins er hugsað um eigin stundarhag.

Tómarúm og tómhyggja – þörfin fyrir siðvit

Nú, í upphafi árs 2015, eru blikur á lofti. Ófriður ríkir á vinnumarkaði sem tengja má m.a. vandamálum í hagstjórn, of litlum hagvexti og lífskjörum sem standast ekki samanburð við nálæg lönd. Hugsandi fólk hefur áhyggjur m.a. vegna þess að ekki ríkir traust milli aðila vinnumarkaðarins og ríkisstjórnarinnar. Stjórnvöld eru gagnrýnd fyrir skort á framtíðarsýn, fyrir að hygla sínum og að beita valdi gegn vilja landsmanna. Ríkjandi tómarúm er æpandi og tómhyggjan er átakanleg.

Það er vissulega mikilvægt að uppfylla grunnþarfir fólks, m.a. skapa vel launuð störf sem tryggja mannsæmandi líf. Mikilvægt er því að efla stöðugt íslenskt atvinnulíf með öflugri nýsköpun í sem flestum atvinnugreinum. Nýta þarf verkvit og hugvit þjóðarinnar í nýjum atvinnugreinum sem byggja á þekkingu og tækni. Eitt er það þó sem ekki má vanta til að gæfa hljótist af – og það er siðvit. Siðvit sem byggir á kristnum gildum og þroskast í uppeldi og við samræmi orða og gerða þeirra sem eru fyrirmyndir okkar – hvar sem er í lífinu. Foreldrar eru börnum sínum fyrirmynd, einnig veltur á að stjórnvöld séu fyrirmynd um sanngirni, orðheldni, réttlæti, góða hegðun og siði.

Þjóðkirkjan hefur nú sem fyrr mikilvægu hlutverki að gegna, hlutverki sem sumir draga þó í efa. Í mótdrægri umræðu má kirkjan ekki gleyma að bakland hennar er þjóðin sjálf. Stjórnvöld verða einnig að átta sig á mikilvægi kirkjunnar og þess vettvangs sem hún er fólki um allt land. Kirkjan er mikilvægur hluti velferðarkerfis okkar og sinnir t.d. öldruðum og syrgjendum með þeim hætti sem enginn annar gerir. Ekki er tilviljun að svo margar af stærstu stundum fólks  eiga sér stað í kirkjum landsins.

Mörgum finnst ástæða til að endurskoða innviði Þjóðkirkjunnar og suma starfshætti hennar. Það er vissulega verðugt skoðunar og efni í aðra grein. En í þeirri umræðu skiptir öllu að gleyma ekki grundvelli kirkjunnar og hlutverki hennar. Kristur kenndi um guðdómlegan sannleika sem helgar og lífgar. Hann boðaði kærleika Guðs og kenndi að mennirnir skyldu elska hann gegnum kærleika til náunga síns. Nú sem fyrr er þörf á að kirkjan sé djúp og tær í boðun kærleiksboðskapar Krists, í senn auðmjúk og djörf, staðföst en sveigjanleg, glöð og samhent í baráttunni fyrir friði og sátt í þjóðfélaginu. Kirkjan er allt kristið fólk. Allir þurfa að vera virkir í kærleika og vakandi fyrir neyð annarra. Með því að standa vörð um kristin gildi tryggjum við að siðvit þroskist og verði það holla veganesti sem við svo nauðsynlega þurfum við uppbyggingu samfélags og atvinnuvega á Íslandi á nýju ári og í allri framtíð.

Svana Helen Björnsdóttir,

verkfræðingur, kirkjuþings- og kirkjuráðsmaður, fv. formaður Samtaka iðnaðarins