Ræða frá 22.02.2015 eftir Siv Friðleifsdóttur

Ágætu kirkjugestir, til hamingju með konudaginn.

 

Kvenfélagið Seltjörn kemur að messuhaldi á konudeginum í ár eins og hin seinni ár. Okkur finnst mjög ánægjulegt að taka þátt í messuhaldinu og viljum gjarnan viðhalda þeirri venju. Í ár verða mikil hátíðarhöld um land allt þegar við Íslendingar höldum upp á þau tímamót, að fyrir 100 árum fengu konur kosningarétt á Íslandi. Það að hafa kosningarétt er auðvitað stórmál. Hann gefur okkur rétt til að hafa áhrif á samfélag okkar og er grundvöllur lýðræðis. 

Kvenfélagið Seltjörn vill að haldið sé á lofti þátttöku og framlagi kvenna til samfélagsins í tilefni 100 ára kosningaréttarafmælisins. Það sendi því fyrir nokkru tillögu til  bæjarstjórnar um að tekið yrði saman hvert hlutverk kvenna, bæði einstakra kvenna og félagasamtaka þeirra, hefði verið í þróun og framförum Seltjarnarness, frá upphafi til dagsins í dag. Skoðað yrði framlag kvenna vegna menningar, lista, skólastarfs, íþrótta, stjórnmála, félagsmála, góðgerðarstarfsemi og fleira. Af nægu er að taka. Því framlagi yrði komið á framfæri með t.d. sýningu eða útgáfu af einhverju tagi. 

Kvenfélagið Seltjörn var stofnað 3. apríl 1968 og verður því 50 ára eftir 3 ár. Það var fyrsta félagið sem var stofnað í tugi ára á Seltjarnarnesi eftir að Framfararfélagið lognaðist út af. Síðan voru fleiri félög stofnuð s.s. Lions, Rótarý, Björgunarsveitin og Sóroptimistaklúbburinn svo eitthvað sé nefnt. Í félaginu er um 45 konur, eldri og yngri, en auðvitað allar á besta aldri. Okkur er í mun að viðhalda endurnýjun í félaginu því við viljum ekki að það fenni í spor þeirra sem á undan eru gengnar og við höfum miklu hlutverki að gegna í dag sem fyrr. Við viljum að félagið dafni til framtíðar. Nýjasta félagskonan okkar, hún Hjördís Vilhjálmsdóttir, las einmitt ritningalestur hér áðan. Ég vil nota tækifærið hér og  hvetja konur til að ganga til liðs við okkur. 

Kvenfélagið er stórskemmtilegt félag. Fundir eru ekki íþyngjandi margir og það er alltaf glatt á hjalla hjá okkur. Við höfum bæði ræktað okkur sjálfar t.d. með því að fara saman til útlanda og svo höfum við lagt okkur fram við að rækta samfélag okkar á víðum grunni. En hvað höfum við nú lagt af mörkum til samfélagsins? Ég vil telja upp nokkur atriði til fólk almennt geri sér grein fyrir mikilvægi kvenfélaganna í landinu í gegnum tíðina og að hlutverk okkar er ekki minna í dag en þá. Hvað hefur Kvenfélagið Seltjörn lagt af mörkum?

Nærtæk dæmi eru hér í kringum okkur í kirkjunni. Það fyrsta sem félagið lagði af mörkum til kirkjunnar voru fermingarkyrtlarnir fínu. Okkur finnst hátíðlegt að hugsa til þess að fermingarbörnin skrýðast kyrtlum okkar á fermingardeginum. Kvenfélagið stóð fyrir fjársöfnun fyrir kirkjustólunum sem kirkjugestir sitja á. Það gaf kirkjuklukkurnar báðar, sem við heyrum í þegar hringt er til messu. Einnig gaf félagið nokkrar orgelpípur sem fylla kirkjuna fallegum tónum. Félagið stóð fyrir fjársöfnun fyrir flyglinum góða. Einnig má geta þess að félagið gaf kirkjunni glerlistaverkin í anddyrinu. Þau eru eftir Ingunni Benediktsdóttur, glerlistakonu og gleðja bæði augu okkar, hjarta og sál, þegar við komum til kirkju. Kvenfélagði hefur komið að ýmsum öðru hér í kirkjunni sem ég tíni ekki til hér og aðstoðað við fjölmarga atburði á vegum kirkjunnar, stóra og smáa, í gegnum tíðina. 

Kvenfélagið hefur gefið heimilismönnum á Bjargi persónulegar jólagjafir á hverju ári. Síðustu jól prjónuðu kvenfélagskonur fallegar húfur og vettlinga handa hverjum þeirra. Við vitum að þessar persónulegu gjafir, sem hver og einn þeirra fær, vekur með þeim gleði og við höfum spurnir af því að þeir spyrja þegar líður að jólum hvort eitthvað hafi frést frá kvenfélaginu. 

Kvenfélagið hefur gefið skólunum á Seltjarnarnesi glerlistaverk í tilefni afmæla þeirra. Það hefur einnig stutt tónlistarskólann og lúðrasveit Seltjarnarness. Í vetur gaf félagið 250.000 krónur til Ljóssins, stuðningsmiðstöðvar fyrir fólk sem  hefur fengið krabbamein. Kvenfélagið Seltjörn er í Kvenfélagasambandi Íslands og ég sé að Hildur Helga Gísladóttir, framkvæmdastjóri sambandsins og eiginmaður hennar, Kristján, eru með okkur hér í dag. Takk fyrir það. Félagið er einnig í Kvenfélagasambandi Gullbringu- og Kjósarsýslu, en í því eru 700 konur. Árið 2013 lagði það samband fram 7 milljónir króna til góðgerðarmála s.s.  húsnæðisuppbyggingar og tækjakaupa, bæði heilbrigðisstofnana og skóla. 

 

Landsspítalinn hefur notið góðs af framlagi kvenna í gegnum árin. Í kringum aldamótin 1900 var bygging Landsspítala þrætuepli þjóðarinnar, bæði innan þings og utan. Það sem réði úrslitum um að farið var í að byggja hann var frumkvæði samtaka kvenna. Af hverju tóku þær það frumkvæði? Jú, það var þakklætisvottur fyrir nýfenginn kosningarétt á þeim tíma. Þær vildu fagna og minnast þessa mikilvæga áfanga í sögu kvenna með eftirminnilegum hætti. Alveg hreint ótrúlega flott og framsýnt hjá konunum. 

 

Á vef Landsspítalans má lesa “Árið 1915 voru, við fögnuð þjóðarinnar, samþykkt tvö frumvörp á Alþingi og síðar undirrituð sem lög af konungi. Annað var um fána Íslands, hitt var um stjórnarfarsleg réttindi kvenna er veitti þeim kjörgengi og kosningarétt til jafns við karla. Til að minnast þessa merka atburðar í baráttusögu kvenna ákváðu konur í Reykjavík að hefja fjársöfnun til að greiða fyrir stofnun landspítala í Reykjavík.“

 

Nýjasta nýtt frá Kvenfélaginu Seltjörn er að núna á eftir mun það opna sýningu, í samstarfi við Kvenréttindafélag Íslands, hér í safnaðarheimilinu. Sýningin, sem er farandssýning, var m.a. sýnd á kvennaþinginu Nordisk Forum í Malmö í fyrra og mun Erna Kolbeins, formaður kvenfélagsins, kynna hana betur hér við opnunina eftir messuhaldið.

Af þessari upptalningu má sjá að lóðið, sem konur í kvenfélaginu hafa lagt á vogarskál framfaramála, er langt í frá því að vera létt. 

Ágætu kirkjugestir, á konudeginum er við hæfi að hugsa með hlýhug til kvenna, bæði þeirra sem eru okkar næstar í fjölskyldunni sem og þeirra sem eru okkur fjær, en hafa skipt svo óheyrilega miklu máli í framförum samfélagsins í heild. Við helgum konum daginn í dag. Við þökkum þeim fyrir framlag þeirra. 

Lifið heil.