Fyrirlestur frá 02.10.2016 eftir Rúnar M. Þorsteinsson

Erindi í Seltjarnarneskirkju, 2. október 2016, í tilefni listahátíðar.

Fjallræðan

Rúnar M. Þorsteinsson

Yfirskrift listahátíðar Seltjarnarneskirkju er „Fjöll og trú“. Fjöll koma víða fyrir í Biblíunni og þá sérstaklega í Gamla testamentinu. Í Nýja testamentinu koma þau einnig við sögu, þótt í smærri stíl sé. Og þar er einmitt að finna eitt af frægustu fjöllum í heimi. Það skrítna við þetta fjall er að við vitum hvorki hvað það heitir né hvar það er. Þetta er fjallið sem Jesús steig upp á og hélt hina svokölluðu „fjallræðu“ sem er að finna í 5.7. kafla Matteusarguðspjalls. Hún er kynnt þannig í 5.1–2: „Þegar Jesús sá mannfjöldann gekk hann upp á fjallið. Þar settist hann og lærisveinar hans komu til hans. Þá hóf hann að kenna þeim og sagði [...]“ og síðan fylgir Fjallræðan. Gríska orðið sem liggur á bak við þýðinguna „fjall“ er orðið oros, en það getur einnig merkt „hæð“. Lúkas inniheldur samsvarandi ræðu, talsvert styttri þó, en nefnir það af einhverjum ástæðum sérstaklega að Jesús hafi staðið á sléttri flöt þegar hann fór með ræðuna, enda hefur sú ræða verið kölluð „slétturæðan“ (6.1749). Í raun og veru skiptir það ekki höfuðmáli í frásögn Matteusar hvað fjallið hét né hvar það var, né heldur hvort það var fjall eða hæð. Það þýðir þó ekki að fjallið skipti ekki máli fyrir frásögnina. Þvert á móti, fjallið er mjög mikilvægt í frásögninni: Einn tilgangur Matteusar með guðspjalli sínu er að kynna Jesú sem nýjan Móse. Þetta gerir hann m.a. með því að segja frá því að Jesús hafi farið til Egyptalands sem barn áður en hann sneri aftur til landsins helga. Við sjáum tengslin við Móse í Egyptalandi og síðar í landinu helga. Þegar Jesús gengur upp á fjallið til að halda Fjallræðuna sjáum við náin tengsl við göngu Móse upp á Sínaí-fjall. Við sjáum líka tengslin á milli boðorðanna tíu sem Móse sótti til fjallsins og þeirra boðorða sem Fjallræða Jesú inniheldur. Þetta þýðir þó ekki að Matteus telji Jesú jafnan Móse. Í fjallræðunni kemur vel fram að Jesús gengst ekki aðeins við Lögmáli Móse, heldur bætir við það. Í 5.21 segir Jesús t.d.: „Þér hafið heyrt að sagt var við forfeðurna: Þú skalt ekki morð fremja [...] En ég segi yður: Hver sem reiðist bróður sínum skal svara til saka fyrir dómi [...]“ (sbr. 5.27, 31, 33, 38, 43). Þannig bætir hann við og endurmótar Lögmál Móse. Vald Jesú er sem sagt meira en vald Móse. Jesús er nýr Móse, sem frelsar þjóð sína úr ánauð. Í þessu sambandi er vert að hafa í huga að Matteusarguðspjall inniheldur fimm langar ræður Jesú. Þær vísa í og jafngilda fimm bókum Móse. Þessar ræður eru: fjallræðan (5.17.29), trúboðsræðan (10.111.1), dæmisöguræðan (13.153), safnaðarræðan (18.119.1) og ræðan um endalok tímans (24.1

1

26.1). Það er athyglivert að bera saman Matteus og Markús í þessu tilliti, en eins og kunnugt er notar Matteus Markús sem eina af sínum meginheimildum: Markús hefur enga sambærilega ræðu, en Matteus staðsetur fjallræðu sína á milli Markúsar 1.21 og 1.22: „Þeir komu til Kapernaúm. Og hvíldardaginn gekk Jesús í samkunduna og kenndi“ – þarna kemur fjallræðan hjá Matteusi – en Markús heldur áfram: „Menn urðu mjög snortnir af orðum hans því að hann kenndi þeim eins og sá er vald hefur og ekki eins og fræðimennirnir.“

Uppbygging Matteusarguðspjalls er svona (við sjáum hvernig ræðurnar koma í öðrum hverjum hluta):

1.12.23 3.14.25 5.17.29 8.19.38 10.111.1 11.212.50 13.153 13.5417.27 18.135 19.123.39 24.125.46 26.128.20

I. Ættartala Jesú, fæðing og bernska II. Boðunin um að himnaríki sé nærri III. Fjallræðan (Ræða 1)
IV. Tíu kraftaverkasögur

V. Trúboðsræðan (Ræða 2)
VI. Jesús prédikar, læknar og lendir í átökum VII. Dæmisöguræðan (Ræða 3)
VIII. Starf Jesú og spurningin hver hann er IX. Safnaðarræðan (Ræða 4)
X. Starf Jesú í Júdeu og Jerúsalem
XI. Ræðan um endalok tímans (Ræða 5)
XII. Þjáning Jesú, dauði og upprisa

Ef við skoðum innihald fjallræðunnar nánar sjáum við glögglega hvernig Jesús skerpir á fylgninni við Lögmálið, enda segir hann að hann sé ekki kominn til að afnema Lögmálið heldur til að uppfylla það (5.17). Boðskapur fjallræðunnar er að miklu leyti siðaboðskapur, af siðferðilegum toga. Jesús talar um morð, sætti manna á milli, hórdóm, skilnað, rangan og réttan eið, hefnd, náungakærleika, réttlæti meðal fólks, ölmusur, heilindi, fyrirgefningu, o.fl. Þarna eru líka sæluboðin og Faðir vorið. Einn þekktasti og mest áberandi siðaboðskapurinn í ræðunni er boðskapurinn um náungakærleika: „Þér hafið heyrt að sagt var: Auga fyrir auga og tönn fyrir tönn. En ég segi yður: Rísið ekki gegn þeim sem gerir yður mein. Nei, slái einhver þig á hægri kinn þá bjóð honum einnig hina“ (5.38–39). „Þér hafið heyrt að sagt var: Þú skalt elska náunga þinn og hata óvin þinn. En ég segi yður: Elskið óvini yðar og biðjið fyrir þeim sem ofsækja yður“ (5.43–44). Hann endar 5. kaflann á því að segja: „Verið því fullkomin eins og faðir yðar himneskur er fullkominn“ (5.48). Þetta eru boðorð sem erfitt er að fylgja.

2

Fjallræðan varð engu að síður mikilvægur og útbreiddur grundvöllur fyrir kristinn siðaboðskap og er enn í dag.

En boðaði Jesús einhverja nýlundu með sínum boðum um náungakærleika í stað „auga fyrir auga“ boðskaparins og með sínum boðum um kærleika gagnvart óvinum? Stundum hefur því verið haldið fram, af fræðimönnum jafnt sem öðrum, að kristinn náungakærleikur, eins og hann birtist í Fjallræðunni, hafi verið einstakur sinnar tegundar og að hann hafi verið eitt skýrasta dæmið um þætti sem greindu hina kristnu frá öðrum til forna.

Í bók sinni, The Rise of Christianity, sem kom út fyrir 20 árum, gerði félagsfræðingurinn Rodney Stark tilraun til að svara spurningunni hvernig hin smáa og að því er virtist lítilvæga Jesú-hreyfing gat orðið að stærsta og mikilvægasta átrúnaði hins vestræna heims á aðeins fáeinum öldum. Að mati Starks skipti siðfræðikenning og siðferði hinna kristnu sköpum að þessu leyti. Það voru teoretískar nýjungar á sviði siðfræði sem mestu skiptu fyrir framgang kristninnar í hinum heiðna heimi. Kristinn átrúnaður kom fram með nýjan skilning á manngæsku og mannlegum samskiptum. Eða svo telur Stark. Hann skrifar: „Kristindómurinn kom með nýjan skilning á manngæsku inn í heim sem var fullur af heiftarlegri grimmd og dýrkun á dauðanum.“ Ennfremur skrifar hann: „sú meginregla var líklega enn byltingarkenndari að kristinn kærleikur og gjafmildi skyldu eiga að ná lengra en mörk fjölskyldu og ættmenna, að þessir þættir skyldu eiga að ná til „allra þeirra sem alls staðar ákalla nafn Drottins vors Jesú Krists“ (1 Kor 1:2).“ Samkvæmt Stark var þetta „byltingarkennt fyrirbæri“ („revolutionary stuff“). Stark heldur því líka fram að heimildirnar sýni að hinir kristnu hafi fremur farið eftir siðferðisviðmiðum sínum samanborið við aðra í fornöld og að það hafi skipt sköpum þegar fólk stóð frammi fyrir þeirri spurningu hvort það ætti að gerast kristið eður ei. Stark metur það svo að fólk hafi snúist til kristinnar trúar fyrst og fremst vegna þess að kristindómurinn var siðferðislega og félagslega frábrugðinn og bauð fólki upp á öruggari félagslega þjónustu og meiri einingu samfélagslega séð. Að hans mati var þetta engin tilviljun, heldur bein afleiðing af þeirri staðreynd að innihald hinnar kristnu kenningar var frábrugðin hinni heiðnu. Þessi praktíski munur var til kominn vegna grundvallarmunar á teoretíska planinu. Kristindómurinn innihélt einfaldlega „æðri guðfræði“ („superior theology“) eins og finna má í Fjallræðu Jesú.

Niðurstöður Starks hafa haft mikil áhrif á fólk, bæði innan og utan fræðaheimsins, og það virðist ljóst að hann mælir fyrir munn margra. En hefur hann rétt fyrir sér? Var náungakærleikur kristindómsins virkilega einstakur í sinni röð? Kom hann fram líkt og af himnum ofan?

3

Ef við lítum til ríkjandi grísk-rómverskra siðfræðikenninga þá vitum við að þær komu að miklu leyti frá stóuspeki. Allt frá því að Ciceró kynnti stóuspeki fyrir Rómverjum á fyrstu öld f.Kr. var stóuspekin það heimspekilega kerfi sem var ríkjandi í siðfræðilegu tilliti, en stóíska siðfræðin átti margt sameiginlegt með rómverskum gildum. Á meðal þekktustu og áhrifamestu stóumanna þessa tíma voru Seneca (ca. 165 e.Kr.), Músóníus Rúfus (ca. 25100 e.Kr.) og Epíktetos (ca. 55135 e.Kr.). Hvað hafa þessir menn að segja um siðfræði stóunnar? Hvað hafa þeir, sem fulltrúar hinnar ríkjandi siðfræðikenningar í Róm, að segja um náungakærleikann?

Allir þrír leggja áherslu á hina hefðbundnu stóísku kenningu að siðferði eigi sínar rætur í skipan Náttúrunnar sjálfrar. Og allir þrír leggja mikla áherslu á hina stóísku kenningu um almenna og altæka manngæsku. Að þeirra skilningi er hver og ein manneskja heilög sem slík vegna guðlegs uppruna hennar og hlutdeildar í hinni almennu Skynsemi (logos, ratio). Manneskjan er góð af náttúrunnar hendi og sem slík er hún félagsleg vera, helguð því hlutverki að þjóna og hjálpa öðrum manneskjum. Eins og Seneca orðar það, hin guðlega Náttúra „gat í okkur gagnkvæma ást (amor)“. Epíktetos tekur í sama streng: Það er eðlislæg gagnkvæm ást (philallēlia) manna á meðal, segir hann. Stóuspekingurinn lítur með öðrum orðum á það þannig að það sé hluti af eðli manneskjunnar að elska náunga sinn. Dyggð snýst einmitt um þetta, að mati Músóníusar Rúfusar. Í tilraun sinni til að skilgreina hina stóísku dyggð lýsir hann henni sem „bróðurkærleika (philanthrōpia), gæsku, réttlæti, góðverki og að láta sig varða velferð náunga síns“. „Þú verður að lifa fyrir náunga þinn, ef þú vilt lifa fyrir sjálfan þig,“ segir kollegi hans, Seneca. Samkvæmt stóískri heimspeki eru illgjörðir fyrst og fremst til komnar vegna fáfræði. Af því leiðir að það er aldrei rétt að hefna illgjörða. Hefnd á sér engan stað í stóískri siðfræði. Hinir rómversku stóumenn eru sammála um það að í stað þess að gjalda illt með illu skal taka á illu með góðu. Fyrirgefning eru réttu viðbrögð þeirrar manneskju sem vill lifa samkvæmt stóískum prinsípum. Það má jafnvel sjá tilmæli um að fólk elski óvini sína hjá stóumönnum. Þannig leggur Epíktetos áherslu á það að þegar hinn stóíski vitri maður stendur frammi fyrir því að vera pyntaður verður hann að elska (philein) þá menn sem pynta hann, líkt og hann væri faðir eða bróðir þessara manna. Aðrar manneskjur eiga síðan að taka sér hinn vitra mann sér til fyrirmyndar, samkvæmt stóískri kenningu. Þær eiga með öðrum orðum að elska óvini sína.

Algeng stóísk leið til að lýsa eðlilegum mannlegum samskiptum og reglunni um almenna manngæsku er mannslíkamalíkingin. Þannig skrifar Seneca: „Ég get sett fram reglu fyrir mannkynið um skyldur okkar í mannlegum samskiptum: Allt sem þú sérð, bæði hvað guð og mannkyn varðar, er eitt – við erum hluti af einum stórum líkama.“ Þetta felur í sér að

4

hver og einn einstaklingur hefur tiltekið hlutverk innan heildarinnar. Líkingin leggur ekki eingöngu áherslu á skyldur einstaklingsins gagnvart samfélaginu, heldur líka og jafnvel enn frekar á ábyrgð samfélagsins gagnvart einstaklingnum. Það kemur því ekki á óvart að finna þá skoðun í stóískum heimildum að „sterkari“ aðilum samfélagsins sé skylt að taka að sér og sinna „veikari“ aðilum (Seneca, Músóníus), óháð samfélagslegri stöðu viðkomandi (Seneca, Epíktetos). Með öðrum orðum, andstætt viðtekinni skoðun, þá er stóuspeki í grundvallaratriðum ósérplægin. Skoðun þeirra á mannlegum samskiptum er bein afleiðing af kenningunni um almenna og altæka manngæsku sem er svo áberandi í stóískri siðfræði. Þessi kenning er grundvölluð á hugmyndinni um sameiginlegan uppruna mannkyns og hún nær út fyrir hefðbundin mörk fjölskyldu, þjóðernis, kynþáttar, félagslegrar stöðu, átrúnaðar, o.s.frv. Þetta er kenning sem kennir skilyrðislausan kærleika á öllu fólki, eða eins og Seneca orðar það: Þetta er „alls-umlykjandi kærleikur (amor) til mannkynsins líkt og til sjálfs sín“.

Það er mikilvægt að hafa í huga að hin stóíska regla um almenna manngæsku hefur rætur í guðfræði stóumanna. Það er sameiginleg kenning þeirra að hin stóíska regla um að „lifa í samræmi við Náttúruna“ snýst um að fylgja Guði og framfylgja lögum Guðs, en það þýðir í raun að uppfylla hin stóísku siðferðisboð.

Það sem ég hef rakið hér um stóíska siðfræði getur aðeins snert yfirborð efnisins lítillega. Í stuttu máli höfum við komist að því að sú siðfræði sem var ríkjandi í Róm á fyrstu öld innihélt sterka áherslu á náungakærleika. Ennfremur sáum við að þessi siðfræði hafnaði hefndinni sem réttlætanlegri leið í mannlegum samskiptum. Við sáum meira að segja ákveðna áherslu á kærleika til óvina. Allt út frá reglunni um almenna og altæka manngæsku.

Niðurstaðan hlýtur því að vera sú að siðferðisreglur Fjallræðunnar og annarra kristinna texta eru ekki frábrugðnar, heldur í grundvallaratriðum líkar því siðferðiskerfi sem var ríkjandi í Róm á þessum tíma.

Í hverju felst þá sérstaða hinna kristnu að þessu leyti? Er einhverja sérstöðu að finna í textum eins og Fjallræðunni hvað móralska kenningu varðar? Sérstaðan gæti verið fólgin í því að fylgja eftir siðaboðskap sínum. Það er nefnilega hugsanlegt að Rodney Stark hafi rétt fyrir sér að það hafi verið munur á hinum kristnu og öðrum hvað fylgni við siðferðiskenningarnar varðar. Það er sem sé hugsanlegt að hinir kristnu hafi verið duglegri við að fara eftir þeim. Kirkjufaðirinn Tertúllíanus sagði t.a.m. í lok 2. aldar: „Það er umhyggja okkar fyrir bjargarlausu fólki, siður okkar að sýna kærleika og góðvild sem einkennir okkur í augum andstæðinga okkar. ‚Sjáið bara,’ segja þeir, ‚hvernig þeir elska hver annan!‘“ Tertúllíanus er reyndar innanbúðarmaður og orð hans kannski villandi að þessu leyti. En við höfum annan vitnisburð, frá Júlíanusi keisara um miðja 4. öld, en hann var sko enginn innanbúðarmaður,

5

heldur svarinn andstæðingur hinna kristnu. Hann krefst þess af prestum sínum að þeir geri jafn vel og hinir kristnu hvað siðferðiskarakter og náungakærleika varðar. Getið þið ekki hagað ykkur eins og hinir kristnu? segir hann. Svarinn andstæðingur hinna kristnu hefði varla mælt þetta ef ekkert var hæft í því.

En ef Stark hefur rétt fyrir sér ef hinir kristnu voru af einhverjum ástæðum ötulli en aðrir við að fara eftir siðferðisboðum sínum þá höfum við séð að það hefur ekki verið vegna „betri“ kenningagrunns í siðferðisefnum, vegna haldbærari og „æðri“ teoríu. Hinir kristnu fylgdu eða fylgdu ekki betur eftir siðferðiskenningum sínum, en hvort sem var tilfellið hefur það ekki verið afleiðing nýrrar og betri kenningar. Fjallræða Jesú er einstök, en hún er ekki einstök í þeirri merkingu að hún innihaldi boðskap sem ekki var að finna annars staðar í fornöld. Ljóst er þó að þeir sem fylgdu eftir kristnum siðaboðskap byggðu að verulegu leyti á Fjallræðu Jesú. Sjálf eftirfylgnin við hana, þessa merkustu ræðu Nýja testamentisins, kann að hafa verið einstök. Það er ekki boðskapurinn í sjálfum sér, heldur trúin á hann sem flytur fjöll.