Ræða frá 27.11.2016 eftir Björgólf Jóhannsson

Kæru kirkjugestir, ég heilsa ykkur hér í kvöld með aðventukveðju.

         Það er alltaf gaman að hlusta á góða tóna, fallegan söng og mikilvægt að þeir hljómi sem mest hér í kvöld. Falleg tónlist minnir á að aðventan sé komin.

Aðventa er gamalt orð í máli okkar.  Í mínu ungdæmi var orðið jólafasta meira notað.  Líklegt má telja að það hafi byrjað að breytast hér heima á Fróni þegar  við fórum að tengjast aðventu- og jólasiðum annarra landa. Við getum sagt að við höfum siglt eða flogið inn í menningu annarra landa og borið með hana heim og tekið siðina upp hér.

         En hvað þýðir aðventa? Orðið aðventa er úr latínu og merkir koma. Þannig er öll aðventan að segja okkur hver kemur á jólum. Við höfum fjóra sunnudaga aðventunnar til þess að æfa okkur og opna huga okkar fyrir boðskapnum. Fjórir sunnudagar í æfingum er ekki langur tími þegar við horfum til þeirra sem fara daglega í ræktina og telja sig ekki mega missa einn dag til að árangur náist.

         En erum við að ná árangri? Erum við að leggja okkur fram í því að meðtaka boðskapinn og verða betri vinir? Vináttan, samskipti innan fjölskyldu og samskipti í starfi okkar, byggja öll á sama grunni. Það er tillitssemi og umhyggja fyrir náunganum sem leiðir okkur á vit vináttunnar.

         Þegar ég var ungur drengur að alast upp í litlu sjávarplássi við austanverðan Eyjafjörð, þá mótaði aðventan sjósókn að talsverðu leyti. Það var minna róið í desember en aðra mánuði og sjómennirnir þá gjarnan heima.Það var tilbreyting að hafa gamla manninn heima. Merki um að jólin væru að koma þegar hann kom heim af síldarvertíðinni. Við vissum líka að strax og nýja árið heilsaði væri hann farinn á vetrarvertíð og kæmi ekki aftur fyrr en í lok maí. Þá var hlé í nokkrar vikur áður en farið var til síldveiða og komið aftur þegar haustaði.

         Þetta var því góður fjölskyldutími með þeim siðum og venjum sem þá tíðkuðust í laufabrauðsgerð og fleiru. Eplalyktin fyllti húsin – jólin voru að nálgast. Þó ég sé ekki ári eldri en sjá má, þá lifði ég þá tíma á fyrstu árum mínum að rafmagn var ekki komið á Grenivík. Þá voru stór batteri við útvörpin til þess að hlusta á veðurfregnir, taka skeytin eins og það var kallað, og svo var hlustað á það helsta sem var í fréttum. Útvarpið gekk því ekki allan daginn. Þess í stað kom fólk saman til að syngja og skemmta hvert öðru og það var gjarnan sungið raddað í beitingarskúrunum á Grenivík. Það var ekki spurt hver syngi best, það sungu allir, vitandi að skógurinn væri þögull ef enginn fugl syngi nema sá einn sem fegurst syngur.

Á Grenivík voru og eru allir vinir. Hús voru ekki læst og krakkarnir gátu í raun farið inn í hvað hús sem var. Og enda þótt við værum ein að leika okkur í fjörunni, bryggjunni, túnunum eða í fjallgöngu, þá vorum við aldrei ein. Við vorum öll signd út í daginn. Okkur var kennt að biðja okkar bænir og við vissum að við vorum aldrei ein á ferð. Svo voru vökul augu hinna fullorðnu sem fylgdust með okkur án þess að skipta sér af nema illa færi í einhverju. Þetta var hið fullkomna frelsi. Að geta lifað í vináttunni og verið í sátt við Guð og menn.

Í dag sakna ég þessa fullkomna frelsis. Allt er orðið svo kerfislegt og bundið einhverju sem enginn veit í raun hver kom á. Fólk er að pirrast út í börn og unglinga í stað þess að hvetja þau og styrkja til góðra og frísklegra athafna.

Árangur okkar í starfi og leik tel ég ekki síst bundinn þessu frelsi æskuáranna, þegar ungir sem aldnir voru saman og ræktuðu vináttuna.

Aðventan minnir mig ætíð á þennan grundvöll. Á aðventu og jólum er eins og við þorum að vera við sjálf. Við þorum að leyfa barninu í okkur öllum að skína í gegn í orðum okkar og athöfnum. Við látum okkur meira annt um náungann á aðventu og jólum en á öðrum tímum ársins.

 Hvers vegna kann einhver að spyrja?

Er það boðskapur aðventu og jóla sem nær okkur og fangar hugann um stund?   Eru það umgjörðin og ljósin öll sem heilla okkur og gera okkur dreymin? Eða er það fyrst og síðast tíminn sem við gefum okkur til þess að rækta góðar kenndir og vera við sjálf?

Hvernig líf er það sem við lifum, ef okkar innri persóna fær aðeins að stíga fram og lifa frjáls í nálægð aðventunnar?

Hvert og eitt okkar sem ekki ræktar barnið í sér nær ekki árangri sem annars væri. Barnið og bernskan minnir okkur á sannindi og heiðarleika. Minnir okkur á einlægnina sem ríkir í huga barnsins. Þorið til þess að tala eins og hugurinn segir fremur en að hugsa eitt og segja annað.

         Mér kemur í huga lítil frásaga sem ég heyrði eitt sinn í jólamessu hjá séra Pálma Matthíassyni:

Hann  var með hóp leikskólabarna í aðventuheimsókn og þau áttu að leika jólaguðspjallið.

Ungur drengur lék gistihúseigandann og átti að stíga fram og segja við Jósef og Maríu; Hér er allt fullt hér er enga gistingu að fá. Þegar kom að hlutverki drengsins í jólaguðspjallinu, þó tók hann að ókyrrast og líta til leikskólakennarans og prestsins, en hann sagði ekki neitt. Kennarinn og presturinn töldu víst að sá stutti væri búinn að gleyma orðunum sem hann átti að segja.

Þegar kom að hans hlutverki stígur sá stutti fram og segir stundarhátt; Eigum við ekki að redda honum, konan hans er alveg að fara að eiga barn.

Þetta finnst mér vera hinn sanni andi jólanna. Það að þora að stíga út út hlutverkinu og þora að vera við sjálf og segja það sem okkur býr í brjósti.

         Það er hægt að lesa jólaguðspjallið á margvíslegan hátt.  Lesa sem bók. Horfa á það sem flotta sýningu. Lesa það sem helgisögn. Upplifa það eins og drengurinn sem lifði sig inn í aðstæður.  Skilningur manna á jólaguðspjallinu er misjafn og það er allt í lagi.

En það skiptir mestu máli að lifa boðskapinn og láta hann verða að einhverju í lífi okkar.

         Við þurfum öll að eiga trú í lífi okkar. Ekki endilega trú sem flytur fjöll, heldur trú sem nægir okkur í gleði og sorg. Við þurfum að hafa trú á störfum okkur, æfa okkur til þess að vera viðbúin og geta náð árangri.

         Ég spyr: Getum við vænst þess að trúin verði okkur slíkur bakhjarl ef við æfum hana aðeins fjóra sunnudaga aðventunnar?

         Hvernig verður vináttan sem aðeins er sýnd fjóra sunnudaga af 52 sunnudögum ársins? Hvernig þróast vináttan þegar samskipti manna eru svo mikið í gegnum tölvur. Þorum við ekki að ræða málin?

         Það er gott að eiga jólabarnið sem bakhjarl.

____       _____ 

Og nú er aðventan okkar.  Sumir vildu að hún hæfist fyrr en fjórum vikum fyrir jól.

         Við erum ekki góð í því að bíða.  Við tökum forskot á jólin á aðventunni.  Helgustu sálmarnir eru jafnvel sungnir í auglýsingum og sumum finnst það ekki gott. Mér finnst það góð áminning um hvað er framundan.

         Við erum jafnvel búin að borða miklu fínni mat í jólahlaðborðunum en við getum nokkru sinni búið til og borðað  á aðfangadagskvöld.  Við erum búin að heyra jólaguðspjallið oft leikið og sungið í kirkjum og skólum.  Allir eru að reyna að birta okkur og gefa  anda jólanna og stöðugt er reynt  að finna upp á einhverju nýju. Stærstu hluti af tónleikum ársins  eru á aðventunni.   

Hvað er svo eftir þegar  jólin koma?

Þá reynir á okkur sem manneskjur. Hver viljum við vera? Hvað vilt þú gefa af þér?

         Við heyrum svo oft fólk á aðventunni og um jól segja:  Ég geri alltaf eða það er  siður á okkar heimili, ég er uppalin við….. 

Allt í einu í kringum jólin erum við  upptekin af ritúölum, verðum að gera allt eins og það var.  Fjölskylduhefðirnar  verða svo mikilvægar hjá okkur annars rituallausu kynslóð. 

         Í bók sem heitir: Hvert er hlutverk rituala?  Segir höfundurinn Elaine Ramshaw,  einkenni ritual vera þetta:  „Koma á skipan, endurtaka merkingu, sameina samfélag, að takast á við neikvæðar upplifanir og tilfinningar og umvefja leyndardóm”. 

         Um aðventu og jól er eins og fólk finni mikilvægi þess að halda í fastar, gamlar hefðir og venjur. Eins og folk finni mikilvægi þess að sameinast sem fjölskylda, sættast og finna leyndardóminn sem er í því  fólginn að eiga fjölskyldu.

         Boðskapur aðventunnar boðar að ferðin sjálf sé jafn nauðsynleg og áfangastaðurinn.  Aðventan boðar okkur að staldra við og horfa upp í himininn áður en við komum á leiðarenda.

Við horfum í hæðir í okkar lífi. Horfum upp í himininn og viljum ferðast um himininn. Látum þetta ferðalag okkar vera ferðalag með bæði tilgang og fyrirheit, til að þar geti fæðst eitthvað algjörlega nýtt. Ný upplifun og betra mannlíf.

Megið þið eiga ánægjulega aðventu og gleðileg jól.

Takk fyrir að hlusta.