Myndir frá safnaðarstarfi 28.-29. apríl


Lok listahátíðar Seltjarnarneskirkju voru laugardaginn 28. apríl.
Kammerkór Seltjarnarneskirkju söng undir stjórn Friðriks Vignis Stefánssonar. Sinfóníuhljómsveit áhugamanna lék undir sönginn ásamt Kára Þormar orgelleikar.

Guðsþjónustan 29. apríl var fjölsótt. Öðlingarnir spiluðu stórsveitarjass.
Selkórinn söng. Sr. Hildur Sigurðardóttir, fyrrverandi prestur við Seltjarnarneskirkju prédikaði. Sóknarprestur þjónaði fyrir altari.
Organisti þjónaði og stjórnaði kórnum. Boðið bar upp á ljómandi veitingar eftir athöfn, hjónabandssælu, eplaköku og jólaköku.

Kl. 12.30 hófust gömlu dansarnir í Norðurkjallara kirkjunnar sem þrír karlar úr Karlakúbbi kirkjunnar hafa málað, þeir Jón Jónsson, Gunnar Gunnarsson og Stefán Olgeirsson. Norðurkjallarinn er allur hinn glæsilegasti. Þeir Friðrik Vignir Stefánsson lék á harmóníku, Sigurður J. Grétarsson lék á gítar og Dýri Guðmundsson á bassa. Dansinn dunaði og allir glöddust við dansinn um hríð. Guðrún Lára Ásgeirsdóttir stjórnaði dansinum.

Grannaguðsþjónusta og listahátíð 22. apríl

Grannaguðsþjónustan hófs kl. 11 með þátttöku íbúa á Melabraut, Miðbraut, Vallarbraut, Valhúsabraut og Unnarbraut. Ritningarlestra lásu þær Sigríður Sigmarsdóttir er býr á Miðbraut og Elísabet Jónsdóttir er býr á Vallarbraut. Jón Jónsson er býr á Melabraut flutti hugleiðingu.
Sóknarprestur og Bjarni Þór Jónatansson, organisti þjónuðu ásamt félögum í Kammerkór kirkjunnar. Glæsilegt kaffihlaðborð var eftir guðsþjónustu í boði íbúa fyrrnefndra gatna. Við þökkum fyrir það.

Kl. 17 hófst dagskrá á listahátíð í kirkjunni. Sr. Hjálmar Jónsson flutti erindi um Biblíuna og stjórnmálin. Sólveig Pálsdóttir, leikkona, las kvæði eftir Grím Thomsen og Hannes Hafstein. Agnes Amalía Kristjónsdóttir, sópran og Jóhanna Héðinsdóttir, messósópran sungu trúarlög lög við undirleik Renötu Ivan. Ólafur Egilsson stjórnaði samkomunni.

Helgistund í Albertsbúð á Gróttudaginn

Laugardaginn 21. apríl var helgistund í Albertsbúð á Gróttudegi. Sóknarprestur og Kári Allansson, organisti, sáu um stundina. Í helgistundinni voru sungnir sálmar og sumarlög. Við þökkum Rótarýklúbbnum á Seltjarnarnesi fyrir afnotin af Albertsbúð, sem er í eigu klúbbsins. Klúbbfélagar endurbættu og endurreistu Albertsbúð á sínum tíma, en þar halda þeir fundi sína af og til.