Fræðslumorgunn og æskulýðsdagurinn í Seltjarnarneskirkju 4. mars

Fjölmenni var á fræðslumorgni í Seltjarnarneskirkju kl. 9.45. Auðbjörg Reynisdóttir, hjúkrunarfræðingur,  hélt áhugaverðan fyrirlestur um gildi hláturs í lífinu. Hláturinn lengir lífið, það hafa rannsóknir leitt í ljós.

Fjölskyludguðsþjónusta í tilefni af æskulýðsdegi var haldin kl. 11. Fjölmenni sótti athöfnina. Sóknarprestur og Pálína Magnúsdóttir, æskulýðsfulltrúi stýrðu guðsþjónustunni ásamt starfsfólki sunnudagaskólans. Sveinn Bjarki sló gítarinn. Organisti kirkjunnar lék á flygilinn. Börn og fullorðnir tóku vel undir sönginn. Hjónin Örn Sigurðsson og Jelena kona hans léku tvö lög á strengjahljóðfæri ásamt þremur börnum sínum. Var það glæsilegt og eftirminnilegt fyrir alla. Tvær stúlkur úr sönghópnum Meistari Jakob í Valhúsaskóla sungu og léku tvö lög afar vel. Pálína talaði við börnin um Faðir vor og brúðuleikhús var líka á staðnum. Fermingarbörnin tóku virkan þátt í hreyfisöngvum í þessari athöfn sem jafnt ungir sem aldnir nutu á þessum æskulýðsdegi.

Í lokin var boðið upp á glæsilegar veitingar í safnaðarheimilinu. Björnsbakarí gaf ljúffengar vínabrauðslengjur. Egill Skallagrímsson gaf Kit kat súkkulaði og Góa Sinalco. Við þökkum þessum fyrirtækjum fyrir gjafirnar.   

Fræðslumorgunn og grannaguðsþjónusta í Seltjarnarneskirkju 26. febrúar

Fræðslumorgunn fór fram kl. 9.45-10.30 í kjallara Seltjarnarneskirkju. Valgeir Gestsson, fyrrverandi skólastjóri, sagði frá hjólaferð sinni og konu sinnar, Áslaugar Ármannsdóttur, frá Berlín til Kaupmannahafnar, á liðinu sumri, í máli og myndum.

Grannaguðsþjónusta var haldin í Seltjarnarneskirkju 26. febrúar síðastliðinn. Íbúar úr Eiðismýri, Suðurmýri, Tjarnarmýri, Grænumýri, Kolbeinsmýri, Tjarnarstíg og Tjarnarbóli tóku virkan þátt í guðsþjónustunni. Guðmundur Einarsson og Svana Helen Björnsdóttir lásu ritningarlestra. Guðmundur Snorrason las bænir og Hrafnhildur B. Sigurðardóttir las lokabæn. Arnþór Helgason kvað sjö erindi úr fyrsta passíusálminum í þessari útvarpsguðsþjónustu. Helga Svala Sigurðardóttir lék á þverflautu. Organisti kirkjunnar þjónaði ásamt Kammerkór kirkjunnar. Íbúar fyrrnefndra gatna buðu upp á glæsilegt kaffihlaðborð. Sunnudagaskólinn var á sama tíma í kirkjunni.

Mikið um að vera á konudaginn í Seltjarnarneskirkju.

 

Á fræðslumorgni sagði  Torfhildur Rúna Gunnarsdóttir frá ferð sinni frá Suður-Frakklandi til Spánar (Santiago de Compostella), sem er hinn forni Jakobsvegur pílagrímanna. Hún gekk alla þessa leið, um 900 kílómetra á liðnu ári. Frásögnin var sérlega áhugaverð frásögn í máli og myndum.
Kl. 10.45 var stutt athöfn á Valhúsahæð, þar sem Auður djúpúðga og Guðrún Ósvífursdóttir munu komu við sögu. Þær gerðu bæn sína í Krosshólaborg og á Helgafelli. Valhúsahæðin var samnefnari fyrir þá staði í þessari stuttu athöfn.  Nokkrar konur úr  Kvenfélaginu Seltjörn klæddust búningum frá víkingaöld og fóru m.a. í gervi þessara kristnu kvenna frá söguöld.
Guðsþjónusta á konudaginn hófst í Seltjarnarneskirkju kl. 11.
Konur úr Kvenfélaginu Seltjörn tóku þátt í athöfninni. Ritningarlestra lásu þær Erna Kristinsdóttir Kolbeins og Birna E. Óskarsdóttir. Málfríður Finnbogadóttir, verkefnisstjóri á Bókasafni Seltjarnarness, flutti hugleiðingu. Formaður Seltjarnar, Rannveig Ívarsdóttir, flutti ávarp, og afhenti Seltjarnarneskirkju peninga að gjöf, eitthundrað þúsund krónur. Guðmundur Einarsson, formaður sóknarnefndar tók við þessari glæsilegu gjöf sem við þökkum innilega fyrir.
Sóknarprestur og organisti kirkjunnar þjónuðu ásamt félögum úr Kammerkór kirkjunnar. Allir sálmar og lög sem sungin voru í guðsþjónustunni tengdust konum. Sunnudagaskóli var á sama tima í kirkjunni.
Eftir guðsþjónustu bauð Kvenfélagið upp á matarmikla landnámssúpu.