Fjölbreytilegt starf 28. október í Seltjarnarneskirkju

Segja má, að það hafi verið fjölbreytilegt starfið í Seltjarnarneskirkju sunnudaginn 28. október. Fræðslumorgunn var haldinn í Norðusal kirkjunnar kl. 9.45-10.30. Hjónin Svana Helen Björnsdóttir og Sæmundur Elías Þorsteinsson sögðu frá ferð sinni til Þýskalands á slóðir Marteins Lúthers í ágúst síðastliðnum. Frásögn þeirra var í máli mog myndum og var hin fróðlegasta. Fjölmenni var viðstatt fyrirlesturinn.

Guðsþjónustan var einnig fjölsótt. Íbúar af Ströndunum á Nesinu tóku þátt. Guðmundur Einarsson og Halldór Árnason lásu ritningarlestra. Sunnudagaskólinn var á sama tíma í kirkjunni. Bryndís Emilsdóttir og Guðrún B. Vilhjálmsdóttir lásu bænir. Organisti kirkjunnar, Friðrik Vignir Stefánsson þjónaði ásamt félögum í Kammerkór Seltjarnarneskirkju. Kórinn söng m.a. enska sálminn Be still for the presence of the Lord, sem var til kynningar, við bíðum eftir íslenskum texta við þann sálm sem koma mun innan tíðar. Sr. Bjarni Þór Bjarnason, sóknarprestur þjónaði fyrir altari. Íbúar á Ströndunum buðu upp á glæsilegt kaffihlaðborð í lok guðsþjónustu. Við þökkum fyrir framlag íbúanna. Í anddyri kirkjunnar var opnuð sýning á nokkrum málverkum eftir Rúnu Gísladóttur ásamt sýningu á myndum og bókum sem tengjast Marteini Lúther.