Andlát

kross_svartSunnudaginn 15. janúar lést Erla Jónsdóttir lögfræðingur og sóknarnefndarmaður.  Hún fæddist 14. maí 1944 og var því 67 ára þegar hún lést.

Erla hóf virka þátttöku í starfi kirkjunnar á Seltjarnarnesi þegar hún var kosningastjóri sr. Solveigar Láru við prestskosningarnar árið 1986.  Hún starfaði við kirkjuna fyrst sem sjálfboðaliði í barnastarfinu, en var kjörin í sóknarnefnd árið 1990.  Hún varð ritari sóknarnefndar árið 1994 og kom það sér sannarlega vel að hafa lögfræðing með svo víðtæka reynslu sem hún hafði í því hlutverki. 

Hin síðari ár, eftir að verulega tók að þrengja að fjárhagi kirkjunnar vegna þess hve stjórnvöld tóku til sín vaxandi hluta sóknagjaldanna, sem eru aðaltekjustöfn trúfélaga í landinu, sýndi Erla mikla útsjónarsemi í því að finna leiðir til sparnaðar í starfi kirkjunnar, en mjög reynir á þegar þannig er málum komið, að draga úr kostnaði en verja samt mikilvægustu þætti þjónustunnar á sama tíma.

Erla átti við heilsuleysi að stríða, einkum síðustu mánuði.  Hún lét það þó ekki aftra sér frá því að sinna kirkjunni sem fyrr – sýndi þar ótrúlega ósérhlífni og dugnað.  Verður það seint fullþakkað.

Við vottum eftirlifandi eiginmanni Erlu, Jóni B. Hafsteinssyni, og fjölskyldu þeirra okkar innilegustu samúð.