8. október

Birt í Orð til umhugsunar

Ferðalangur kom þar sem bóndi stóð úti á túni. Þeir tóku tal saman. Ferðalangurinn sagðist vera að leita sér að þorpi til að setjast að í.
,,Segðu mér,” spurði hann bóndann, ,,hvernig fólk er þarna í þorpinu framfrá?” ,,Hvernig fólk var í þorpinu þar sem þú bjóst?” spurði bóndinn. ,,Það var upp til hópa leiðinlegt, uppáþrengjandi, afskiptasamt pakk!” ,,Þá verð ég að hryggja þig, góði maður, að fólkið í þorpinu framfrá er alveg eins. Þér mun ekki líða betur þar,” sagði bóndinn hugsi. Og ferðalangurinn hélt aðra leið.

Einhverju síðar kom þar annar maður og heilsaði bóndanum. Hann sagðist vilja flytja sig til og væri að leita sér að framtíðarbústað. ,,Hvernig er fólkið þarna í þorpinu framfrá?” spurði hann. ,,Hvernig var fólkið þar sem þú bjóst?” spurði bóndi. ,,Það var yfirleitt besta fólk, hjálpfúst, góðviljað, umhyggjusamt.” ,,Þá get ég glatt þig með því að fólkið hér í þorpinu er einmitt þannig.” Sagði bóndinn og hló. ,,Þér á eftir að líða þar vel.”
(Stories for the journey)

(Heimild: Orð í gleði)