Prédikun frá 29.10. 2017 eftir Dr. Gunnar Kristjánsson fyrrverandi prófast.

„Ég legg lögmál mitt þeim í brjóst og rita það á hjörtu þeirra.“ Jer. 31.33

Náð sé með yður og friður.

Á fimm alda afmæli þeirrar siðbótar sem kennd er við Martein Lúther, vakna í huganum minningar um fyrstu kynni mín af söguslóðum Lúthers. Það var í janúar 1978 sem mér barst boð frá prófastinum í Erfurt í Þýskalandi, þá í Austur-Þýskalandi, um að dveljast á heimili fjölskyldunnar í viku. Vinur okkar hjóna, mikill Íslandsvinur og skólabróðir prófastsins, hafði milligöngu um þessa heimsókn. Löngun mín var að komast á söguslóðir Lúthers og kynnast áhrifamesta siðbótarmanni sögunnar og guðfræðingi guðfræðinganna, af eigin raun.

Það var nístingskuldi þegar ég lestin rann inn á brautarstöðina í Erfurt, þar beið mín Martin, sonur prófastshjónanna, og fylgdi mér heim til þeirra, þar skein hlýjan og eftirvæntingin úr hverju andliti. Vikan sem í hönd fór var ógleymanleg. Martin fylgdi mér á alla helstu sögustaði Lúthers, hann fór með mig í klaustrið þar sem Lúther dvaldi í sex ár og að hallardyrunum í Wittenberg þar sem hann festi mótmælin við aflátssölunni, að gömlu borgarhliðunum þar sem hann brenndi bannfæringarbréfið frá Leó X. páfa, hann fór með mig í stóra húsið, þar sem Lúther og Katharína ólu upp börnin sín og ráku sitt stóra heimili, þar sem 40-50 manns sátu iðulega til borðs á hverjum degi og hann fór með mig í Wartburgarkastala þar sem Lúther þýddi Nýja testamentið á móðurmálið.

Fyrir nokkrum árum hitti ég prófastinn aftur, aldraðan mann. Og sé hægt að tala um geislabaug um höfuð einhvers þá átti það sannarlega við um hann, hann var margheiðraður fyrir staðfast andóf gegn guðlausum yfirvöldum sem héldu uppi gegndarlausri aðför að kirkju og kristni. En hann sagði okkur líka dapurlega sögu af fjölskyldunni. Nánasti vinur Martins sonar hans og daglegur gestur á heimilinu, reyndist eftir fall múrsins hafa verið fulltrúi leyniþjónustunnar Stasi og gaf árum saman daglega upplýsingar um allt sem gerðist á heimilinu, um samtöl, gesti og hvaðeina sem áhugavert þótti í herbúðum Stasi. Allt kom þetta í ljós þegar skjölin voru opnuð. Þetta varð öllum áfall, einkum Martin, sem varð aldrei samur maður, traust hans á mönnunum virtist fjúka út í veður og vind: hvað var áreiðanlegt, hverjum var treystandi, hvar finn ég vin sem bregst mér ekki?

Þessi saga rifjaðist upp nú í vikunni og undanfarnar vikur þegar við horfðum á framhaldsþættina Berlínarsögu í sjónvarpinu, sem rekur síðustu vikur og daga fyrir fall járntjaldsins og Berlínarmúrsins. Um andófsprestinn, sem var tekinn af lífi án dóms og laga, um leyniþjónustumanninn frá Stasi, sem sveik allt og alla, meira að segja nánustu ættingja sína og vini. Það sem kom upp í huga minn var ekki aðeins saga prófastsfjölskyldunnar í Erfurt heldur einnig saga munksins í Ágústínaklaustrinu í Erfurt fyrir tæpum fimm öldum, saga Marteins Lúthers. Var hans reynsla ekki dálítið á sömu nótum?

Fátt var Marteini Lúther hugleiknara en líf fólksins í þorpinu, hann var ekki með hugann við kenningar sem svifu hátt yfir höfði fólksins. Hann var maðurinn, sem stóð sem fæturna á jörðinni, hann tefldi fram stórum spurningum um hið góða, fagra og sanna, um réttlæti, um mannúð. Það sjáum við best þegar við skoðum sögu hans, og horfum á svipmyndir daganna, á lífið í klaustrinu, lesum hugleiðingar hans um fólkið á götunni, bændurna á akrinum, furstana í höllum sínum og þegar hann er að velta fyrir sér heimilinu, uppeldi barnanna, sambúð kynjanna, ástinni. Lúther var með fæturna á jörðinni.

„Hvernig getum við búið til mannúðlegt samfélag í þorpinu“ og „hvernig getum við búið til gott og gefandi heimilislíf?“ Þetta voru þungavigtarspurningar Lúthers. Raunar var svarið augljóst í hans huga, öruggasta og eina leiðin sem hann sá, til þess að lífið í þorpinu gæti orðið mannúðlegt og gefandi, var að líkjast Jesú Kristi.

Þetta má lesa út úr þeirri myndlistarþróun sem varð meðal siðbótarsafnaðanna, og fyrir áhrif frá Lúther öðrum fremur, en einnig vegna samstarfsins við annan tveggja þeirra myndlistarmanna endurreisnartímans í Þýskalandi sem uppúr stóðu, Lúkasar Cranachs. Cranach var náinn vinur Lúthers og nágranni um áratuga skeið og saman mótuðu þeir hugsjónir siðbótarhreyfingarinnar í myndlist.

Það gerðu þeir m.a. með því að telja tvö myndefni öðrum heppilegri á altaristöflum, og þau eru síðasta kvöldmáltíðin og krossfestingin. Þessi myndefni áttu einnig eftir að setja svip á íslenskar altaristöflur allt fram undir lok nítjándu aldar, þegar þorri þeirra var sendur á Þjóðminjasafnið í Kaupmannahöfn og síðar á Þjóðminjasafn Ísland. Enn er að finna gamlar krossfestingarmyndir og kvöldmáltíðarmyndir í nokkrum eldri kirkjum hér á landi.

Hugsunin með því að gera þessum tveim myndefnum svo hátt undir höfði er áhugaverð. Annars vegar er þetta borðsamfélag í senn endurspeglun og ímynd af mannlegu samfélagi, þar situr Jesús á meðal fólksins. Undir þessu sjónarhorni sá Lúther þorpið fyrir sér, fyrir honum snerist trúin ekki um kenningar heldur um lífsviðhorf og lífsstíl, um mannleg samskipti. Það hlaut að koma hverri einustu manneskju við.

Svipuðu máli gegnir um krossfestingarmyndirnar þótt þar séu að sönnu slegnir aðrir strengir. Krossfestingarmyndir eiga að sýna þeim, sem í kirkjunni sitja, að líf mannsins þarf að eiga sér einhverja fyrirmynd og finna sér ákveðinn farveg, eiga sér ákveðinn tilgang sem stendur undir nafni. Sá sem líkist Jesú hefur mannúðina að leiðarljósi, eins og guðspjöllin sýna okkur hann, sem kom til sjúkra og sorgmæddra, til þeirra sem voru á jaðrinum, til þeirra sem ekkert athvarf áttu.

Kristinn maður á að líkjast honum en hann þarf þá að gera sér grein fyrir því að það getur kostað hann eitthvað og það mun kosta hann eitthvað. Það er oft auðveldara að loka augunum fyrir þjáningu annarra eða horfa í aðra átt og láta sem þetta komi manni ekki við. Kjarni málsins er sá að mannúðin gæti kostað okkur eitthvað, kannski mikið, já, jafnvel lífið eins og hún kostaði Jesúm. Hún kostaði Jesúm lífið eftir að hún hafði kostað hann átök við valdsins menn, jafnvel við fulltrúa heimsveldisins í Róm. Þess vegna er krossfestingarmyndin eins konar ímynd hins kristna samfélags sem setur ákveðin lífsgildi á oddinn en hafnar öðrum.

Ég minntist á Berlínarsögu sem sýnd hefur verið undanfarnar vikur í sjónvarpinu. Lokasenan í þáttaröðinni hefur aftur og aftur komið upp í huga minn. Það er atvikið þegar eitt af fórnarlömbum austur-þýsku leyniþjónustunnar, Stasi, gerir upp við einn hinna dæmigerðu leyniþjónustumanna einræðisríkisins og mælir eins og í uppgerðarhuggun þessi ofur-kaldhæðnislegu orð: „Það verða alltaf til lönd sem þurfa á eiginleikum manna eins og þínum að halda.“ Í þessari einu setningu er inntak sögunnar fólgið: „Það verða alltaf til lönd sem þurfa á  eiginleikum manna eins og þínum að halda.“ Eiginleikar manna eins og þess sem hér um ræðir fara ekki á milli mála, þar eru undirferli og svik, mannvonska og mannfyrirlitning allsráðandi og ríkjandi, og þar er einskis svifist, jafnvel nánustu ættingjar mega súpa seyðið af þeim eiginleikum sem bjuggu innra með þessum einstaklingi sem er um leið persónugervingur þess ríkis sem hann þjónaði. Þessi „lönd“ sem nefnd eru í kaldhæðnishuggun eru lönd án réttlætis, án mannúðar.

Kannski þekkti Lúther þessa eiginleika í fari einhverra, hann þekkti þá áreiðanlega í fari ýmissa sem gengu erinda þess mikla kirkjuveldis í Róm sem var einmitt á þessum tímum endurreisnarinnar svo glæsilegt hið ytra – en sagnfræðingar eru sammála um að aldrei hafi kirkjuveldið í Róm verið eins ofurselt lágkúru og spillingu og um þessar mundir, í byrjun sextándu aldar, þegar auður og ættartengsl voru einu gildin sem höfðu einhverja merkingu, og í skjóli þeirra fór spillingin fram úr öllu sem menn höfðu þekkt áður.

Þetta sýna sögulegar rannsóknir, m.a. á síðustu tímum og undanförnum árum, svo ekki verður um villst. Hafi rómverska kirkjan einhvern tíma verið í þörf fyrir siðbót þá var það á tímum Lúthers. En siðbótarmenn voru ekki og eru ekki á hverju strái. Saga siðbótarmanna var þyrnum stráð, píslarvætti vofði yfir hverjum og einum sem hætti sér inn á þær brautir.

Það er oft sagt, ekki síst um þessar mundir þegar menn horfa til siðbótar Lúthers og rekja sögu hans og áhrif, að sá trúarskilningur sem kenndur er við nafn hasn hafi ekki hvað síst mótað þjóðir í norður-Evrópu, m.a. norðurlöndin, og oft eru þau einmitt tekin sem dæmi um lönd þar sem siðbótin hafði mest og varanlegust áhrif. Ein áhrifin, segja sagnfræðingar nútímans okkur, birtast í velferðarþjóðfélaginu sem byggist á þeirri mannúðarhugsun að við tökum öll ábyrgð hvert á öðru, við sinnum uppvaxandi kynslóð með góðu skólakerfi, sjúkum og særðum með góðu heilbrigðiskerfi, öllum með góðum samgöngum og reynum að byggja samfélagið á þeirri hugsjón sem kvöldmáltíðar-myndirnar varðveita. Og á sama hátt reynum við að láta krossfestingar-myndirnar móta þjóðfélagið, í stóru sem smáu, einnig heimilishaldið, skólahaldið og samstarf á vinnustað. Krossfestingarmyndirnar fela í sér þann boðskap að mannúðin felist ekki í því að líta undan eða loka augunum, heldur í því að líkjast honum sem gekk til hina sjúku og særðu, til hinna einmana og útskúfuðu, til útlendinganna, Samverjanna og Kanverjanna og tók þá gilda, mannúð hans kostaði hann lífið.

Og þannig er það með mannúðina, hún gæti kostað okkur mikið – en hvað er mannlegt samfélag án mannúðar? Hinn valkosturinn stendur alltaf til boða, hann blasir meðal annars við í Berlínarsögu þar sem andhverfa þeirra myndar birtist sem kvöldmáltíðarmyndirnar og krossfestingarmyndirnar fela í sér. Þann boðskap lesum við út úr krossfestingarmyndunum sem Lúther vildi gera svo hátt undir höfði í kirkjum siðbótarinnar.

Ekki alls fyrir löngu áttum við hjónin góða kvöldstund með þýskum vinum okkar, við höfðum kynnst þeim hér á landi fyrir nokkrum árum og því voru fagnaðarfundir að hitta þau í heimalandi þeirra. Þau búa að þeirri reynslu að hafa þjónað landi sínu í opinberu embætti í mörgum löndum heims, þau hafa dvalist um lengri eða skemmri tíma í flestum heimsálfum og kynnst þar mönnum og málefnum. Þau sögðu að Ísland væri þar ofarlega á blaði, jafnvel efst, og síðan ræddu þau um lönd annars staðar í heiminum og eigin reynslu.

Þau sögðu að margir vesturlandabúar teldu að Indverjar væru svo friðsöm og mannúðleg þjóð vegna þess að Mahatma Gandhi hefði vaxið þar úr grasi og þar væri svo mikið um hugleiðslu og innhverja íhugun. En Gandhi mótaðist af Fjallræðunni þegar hann starfaði sem lögfræðingur í Suður-Afríku ungur að árum, þar vaknaði með honum löngunin til að gerast þátttakandi í því að gera þennan heim betri, við lestur Fjallræðunnar urðu umskipti í lífi hans. Síðar sneri hann heim til Indlands með lífsreynslu í farteskinu sem breytti lífi hans og milljóna annarra. Um þetta er fjallað í ævisögu Gandhis eftir Louis Fischer sem Óskarsverðlaunakvikmyndin var gerð eftir 1982. Gandhi var talsmaður þess málstaðar sem Jesús setti á oddinn og þess sem hann taldi mannúðlegt í trúararfi sinnar þjóðar.

Er ekki gott til þess að hugsa að sá málstaður var varinn í verkum þeirra Martin Luther Kings sem setti mannréttindi á dagskrá svo um munaði, eða Nelsons Mandela sem gaf heiminum nýja von? Ég hlustaði á Mandela flytja ræðu á ráðstefnu í Höfðaborg í Suður-Afríku, hann var þá dáður um víða veröld. Ég minnist orða hans þegar hann sagði: „Ég stæði ekki hér ef ég hefði ekki fengið menntun mína í skólum kristniboðanna í þorpinu þar sem ég ólst upp.“

Hin stóru nöfn mannúðar og réttlætis í þessum heimi eru nöfn þeirra sem sýndu í lífi sínu hvað það merkir að vera kristinn maður. En það á ekki aðeins við um þá sem öðlast frægð, hvað þá heimsfrægð, heldur alla, einnig þá sem bera Jesú vitni í hversdagslegu lífi sínu, hverjar sem aðstæður kunna að vera.

Og þegar við leiðum hugann að fimm alda sögu siðbótarinnar hér á landi hljótum við að nefna nöfn þeirra séra Hallgríms Péturssonar og meistara Jóns Vídalíns. Hversu mörgum skyldi Hallgrímur ekki hafa miðlað nýju hugrekki, kjarki og krafti til að lifa við mótlæti lífsins? Hversu mörgum skyldi hann ekki hafa gefið nýja von og nýja löngun til lífsins með innblásnum sálmum sínum? Og hversu mörg heimili skyldu ekki hafa notið blessunar vegna þeirra? Svipuðu máli gegnir um Vídalín sem var uppi á hörmungatímum hér á landi og skrifar Postillu sína í kjölfar stóru bólu sem talið er að hafa sett þriðjung þjóðarinnar í gröfina. Afleiðingarnar voru m.a. upplausn í samfélaginu, heilu jarðirnar voru mannlausar og margar sveitir fámennar, eftir stóðu  eignir sem enginn átti, til voru þeir sem gerðu sitt til að sölsa undir sig  jarðeignir sem þeir áttu ekki rétt til. Þemu Húspostillunnar eru réttlæti og mannúð. Þannig birtist trúin í lífi þjóðar. Hún er ekki uppi í skýjunum heldur – eins og Lúther hugsaði málið – snýst hún um líf fólksins í þorpinu.

Þar erum við komin að texta dagsins: Ég legg lögmál mitt þeim í brjóst og rita það á hjörtu þeirra. (Jer. 31.33). Þannig sá Lúther fyrir sér trúna, hún snýst um það sem mótar manninn innanfrá, stundum kallaði hann trúna verkstjórann í lífi mannsins, hún er sú sannfæring sem veldur því að eiginleiki mannsins er þannig en ekki öðru vísi. Hún verður samofin lífi hans og starfi, hún er eins og lögmál ritað á hjarta hans.

Okkur kemur þá í huga Berlínarsaga: „Það verða alltaf til lönd sem þurfa á eiginleikum manna eins og þínum að halda.“ Það er hin kaldhæðnislega niðurstaða í sögu mannsins. Og við getum ekki neitað því að svo sé, trúlaus og guðlaus öfl, sem vilja hvorki réttlæti né mannúð í þessum heimi, munu ávallt þurfa á eiginleikum manna eins og hins siðlausa Stasimanns að halda.

En kristin trúarmenning leggur þessum heimi til aðra ímynd mannsins, annað keppikefli mennskunnar. Því að hvert mannsins barn hlýtur að spyrja í hjarta sínu á þessa leið: Hvernig verður samfélagið mannúðlegt, í hvernig samfélagi er fögrum hugsjónum borgið? Hvar er sú ímynd réttlætisins sem við þráum og viljum að verði að veruleika? Hvar getur mannúðin þrifist?

Skapandi menn allra tíma, eins og Lúther, eru mótandi og gefandi, hver kynslóð á við þá samtal sem tekur aldrei enda. Þess vegna er lútherskur trúararfur og lúthersk trúarmenning dýrmæt, og hún er falin okkur á hendur, sem lúthersk erum, öðrum fremur. Lúther og aðrir siðbótarmenn skildu eftir sig mikinn og dýrmætan arf, einnig myndlist siðbótarinnar.

Jesús kenndi okkur að þrá mannúðlegan heim og að við skyldum vinna sjálf að því markmiði, hvert á sínum stað, hvert með sínum hætti, einnig þegar móti blæs. Þannig var hans fordæmi og með það fyrir augum er manninum borgið í þessum heimi.

Hin lágstemmda trúarmenning okkar Íslendinga er arfur frá Lúther, það er trúarmenning sem lifir með fólkinu, hún hefur ekki hátt á strætum og torgum, hún býr ekki í stórum orðum eða í sterkum tilfinningum. Hún býr í hjarta mannsins, í sannfæringu hans, veikri eða sterkri, í tilfinningum hans, í vitund og viðhorfum sem skila sér í daglegu lífi, í lífi og starfi, í sorg og gleði, í fullvissu um tilgang og merkingu lífsins, í mannlegum samskiptum, í siðferðislegum ákvörðunum. Hún vakir yfir lífi mannsins, við störf fólksins til sjávar og sveita, hún býr í eftirvæntingu mannsins til þess sem gefur honum viljann til að lifa og láta gott af sér leiða, hún býr í þrá hans til þess veruleika sem gefur lífi hans merkingu, og í löngun hans til að varðveita hið dýra hnoss mannsins sem honum veitist í trúnni. Amen

Takið postullegri kveðju Náðin Drottins vors Jesú Krists, kærleikur Guðs og samfélag heilags anda sé með yður öllum. Amen.