Hugvekja frá 17.11.2017 eftir Elísabet Jónsdóttur

Jólaminning.

Þegar ég hugsa til baka þá er það ein jólaminning sem er mjög eftirminnileg.
Við bjuggum á Blómvöllum á Seltjarnarnesi og nágranni okkar var fjölskyldan á Bjargi. Á Bjargi bjó Ísak, seinni kona hans Jóhanna og börn Ísaks. Bjarg skiptis í Stóra-Bjarg næst Nesveginum, Litila-Bjarg neðar í lóðinni og Svínahúsið bak við það. Á milli Stóra-Bjargs og Lítla-Bjargs var trésmíðaverkstæði.

Það var jóladagur og við vorum tvö systkinin. Inni í stofu stóð jólatré og við fórum að jólatrénu til að skoða einu sinni enn það sem við fengum í jólagjöf en gjafirnar voru undir trénu. Ég var ekki búin að vera lengi í stofunni þegar ég finn brunalykt og flýti mér inn í svefnherbergi til pabba og mömmu og segi ég finn brunalykt . Pabbi bregst fljótt við og lítur út um gluggann þegar hann er búinn að draga rilmatjöldin frá. Þá kemur í ljós að það stóðu logar upp úr Svínahúsinu á Bjargi. Það var þó nokku vindur og flygsur úr brunanum flugu um allt. Pabbi fór út með vatnsslönguna okkar og sprautaði vatni á húsið til að verja það.

Svínin dóu öll strax eða stuttu síðar, þau fengu reykeitrun. Ísak náði sér aldrei eftir þetta og þau Jóhanna fór svo í siglingu með Gullfossi sumarið á eftir og þá fékk hann áfall og dó. Hann hafði alltaf verið bóndi, fyrst með kýr og seinna svín. Hann heyjaði í Digranesi sem nú er í Kópavogi en tilheyrði þá Seltjarnarnesi. Svinakjötið hans var betra en frá öðrum svínabúum því hann sauð allt fóður í svínin. Matarafganga fékk hann frá Hótel Borg. Hann var líka með endur og hænur. Þau seldu hænuegg og ég var send út á Bjarg til að kaupa egg í litla emeleraða fötu og oft gaukaði Jóhanna að mér súðusúkklaðisplötu. Jóhanna var barngóð kona þótt hún hefði aldrei átt börn sjálf en gekk fimm börnum Ísaks í móðurstað. Helga, fyrri kona hans, dó þegar yngsta barnið var lítið. Rétt fyrir jólin kom Ísak í heimsókn til okkar með lítinn pakka undir hendinni eiginlega í handakrikanum og í pakkanum voru svínkótilettur af bestu gæðum handa okkur til að borða um jólin.

Á Bjargi voru alltaf vinnumenn frá Færeyjum og Þýskalandi, einning vinnukona frá Þýskalandi sem hét Hilda. Hún varð seinna nágrannakona okkar systkininna í Kópavogi. Mér var einu sinni starsýnt á það sem vinnumennirnir voru að borða, en það var rúgbrauð með svínafitu ofan á. Seinna, þegar ég bjó í Danmörku, sá ég að Danir borðuðu svinafitu ofan á rúgbrauð undir síldina.

Fólkið á Bjargi var gott fólk og við fundum til með þeim þegar svínin dóu.
Þau voru öll duglegt og myndarlegt fólk. Elst er Björg sauma- og myndlistakona, næst var Arnfríður eða Fríða sem varð hárgreiðslumeistari, Sigrún eða Rúna giftist ung Ólafi, Óla sem varð læknir og eignaðist sex börn. Yngst voru Valgerður, Vala, sem útskrifaðist frá Kvennaskólanum og læði svo hárgreiðslu og Runólfur , Ronní sem varð rafvirki. Þetta fólk hef ég þekkt síðan ég var sex ára og hugsa til þeirra með hlýhug.