Prédikun frá 26.08. 2018 eftir séra Karl Sigurbjörnsson fyrrverandi biskup

  1. sunnudagur eftir þrenningarhátíð, 26. ágúst 2018 

Messa í Seltjarnaneskirkju í tilefni af 10. ártíð Sigurbjörns biskups.

Ég þakka séra Bjarna Þór og samstarfsfólki hans hér í Seltjarnarneskirkju þá virðingu og heiður sem þau auðsýna minningu föður míns, Sigurbjörns Einarssonar, að helga þessa guðsþjónustu tíundu ártíð hans. Mér er bæði ljúft og skylt að verða við því að minnast hans hér nokkrum orðum. Og þá um leið að þakka alla þá velvild og hlýhug sem hann mætti hér fyrr og síðar.

Hvernig minnist maður föður síns? Ég hef alltaf vitað að ég átti hann með öðrum, systkinum mínum já og allri þjóðinni. Fyrstu bernskuminningar mínar tengjast tifinu í ritvélinni hans sem fylgdi manni inn í svefninn, sívinnandi og skrifandi. Og að hvíla í fanginu á honum, óvitinn, þegar hann gekk um gólf og söng, „Láttu hug þinn aldrei eldast eða hjartað, vinur aftansólar sértu, sonur morgunroðans vertu.“ Hversu gamall sem maður verður þá er maður alltaf barn foreldra sinna.

Í skini aftansólar ævi sinnar skynjaði hann morgunroða eilífðar. Með þá sálarsjón fagnaði hann hverjum nýjum degi og mætti sérhverri nótt.

Hann lést 28. ágúst árið 2008 eftir skammvinn veikindi, 97 ára að aldri. 28. ágúst er reyndar líka dánardagur heilags Ágústínusar kirkjuföður. Sigurbjörn þýddi Játningar Ágústínusar á íslensku, en það er einhver allra fyrsta ævisagan sem rituð var á Vesturlöndum, þekkt fyrir einlægni, lífsvisku og heiðarlega sjálfsrýni og trúarlega dýpt. Hluti þýðingarinnar kom út 1962 en svo tók Sigurbjörn sig til og kláraði allt verkið þá kominn á tíræðisaldur, einstakt afrek í öllu tilliti.

Ágústínus var biskup í Norður Afríku og lést árið 430. Hann horfði á Rómarveldi riða til falls og á kirkju sína lamaða af átökum og deilum. Vandalar sóttu fram og lögðu undir sig landið, rændu, brenndu, eyddu. Ekki löngu síðar kom Íslam og dagar kristinnar kirkju í landinu voru taldir.

Sigurbjörn horfði líka á upplausn og siðrof í samtíð sinni. Hann var glöggskyggn á mannlegt eðli og ekkert alltof bjartsýnn. „Mundus vult decipi,“ sagði hann og vitnaði í Ágústínus, heimurinn vill láta blekkjast. En hann horfði samt fram með von, sem var borin uppi af trúnni á hinn krossfesta og upprisna Drottin.

Á náttborðinu við dánarbeðinn hans var blað sem hann hafði sárþjáður skrifað á þessi orð: „Jesús er á krossinum sínum að skapa páska handa mér og okkur öllum. Dýrð sé þér, Drottinn minn.“ Það var hinsta kveðja hans, játning, áminning, þakkargjörð fyrir nærveru Drottins í allri þjáningu og neyð. Upprisuvon, páskatrú.

Sigurbjörn lifði 20.öldina nær alla. Hún hefur verið nefnd Öld hinna brostnu vona. Öld guða sem brugðust, hugsjóna sem ráku milljónir og aftur milljónir til slátrunar fyrir málstaðinn, framtíðarsýna sem snerust upp í martraðir. Undir lok aldarinnar fannst mörgum björt framtíðarsýnin blasa við um frjálsan, hnattvæddan heim, brúaðar ófærur og brotna múra. Nú rísa múrar um allt og brýrnar hrynja. Þegar vonin deyr þá tekur kaldhæðnin við. Og reiðin. Manni virðist sem grunnsaga okkar daga gangi umfram allt út á að ala á tortryggni og reiði, ótta og vonleysi. Reiðin kraumar undir, reiði gegn „elítunni“, „kerfinu,“ kirkjunni, útlendingnum. Og er auðvelt að virkja, eins og dæmin sanna.

Flestar framtíðarspár núgera ráð fyrir ragnarökum af mannavöldum. Hvað mun bjarga manninum frá sjálfum sér? Stórmyndir og sjónvarpsþáttaraðir snúast meir og minna um það sem viðtekur eftir hamfarirnar, eftir hrun siðmenningar. „A Handmaid’s Tale“, er gott dæmi, og sjónvarpsþættirnir „The Rain“. Það er vonarsnauð framtíðarsýn þar. Hvað mun bjarga manninum frá sjálfum sér? Til þess varð Guð maður.

„Jesús er á krossinum sínum að skapa páska handa mér og okkur öllum. Dýrð sé þér, Drottinn minn.

Sá sem ritaði þessi kveðjuorð á dánarbeði hafði horft upp á þetta allt. Hann lifði langa ævi og var allt til enda vakandi í samtíð sinni. Hann talaði um ógnina af sóun og illri umgengni manna um náttúruna löngu áður en það komst á dagskrá – og mér, krakkanum fannst hrikalega hallærislegt!- Allar trúarlegar og pólitískar öfgar og óbilgirni var eitur í hans beinum. Og öll fortíðarþrá var honum fjarri. Alla ævi naut hann sín einna best innan um ungt fólk og að tala við börn í leik og alvöru. Hann naut gæfu góðrar heilsu og andlegra og líkamlegra krafta, og var góð fyrirmynd í því að eldast vel; gaf orðtakinu forna nýja merkingu: „Þeir sem guðirnir elska deyja ungir,“ það er: ungir í huga og sál, óháð árafjölda. Það var hann. Hann var raunsær, en hann horfði björtum augum fram, í vongleði hinnar kristnu vonar. Og það er ekki bjartsýni, eða framreiknuð spá út frá forsendum fallins heims og auðblekktrar mennsku, heldur á þeim forsendum sem krossinn og upprisan gefa. Kristin trú og kirkja er umfram allt samhengi VONARINNAR. Upprisuvonar í páskasól. Í þeirri von erum við vakin til að vaka og vinna, á bandi lífs og mannúðar. Það var lífsstefna Sigurbjörns.

Hann var runninn upp úr jarðvegi fátæks alþýðufólks í Meðallandinu. Samúðin með lífsbaráttu hins snauða var honum í blóð borin og lotningin fyrir lífinu. Bænarmálið var honum lagt á hjarta og á varir með móðurmjólkinni. Móður sína missti hann ungur, hálfs annars árs, hún lést af völdum brunasára sem hún hlaut er hún bjargaði yngri bróður hans, Sigurfinni, nokkra vikna gömlum, úr brennandi bænum. Fórnardauði hennar var honum æ síðan hugstæður og mótaði trúarhugsun hans.

Á menntaskólaárum snerist hann gegn barnatrúnni og kristnum sið af öllum mætti æsku sinnar. Yfirburða greind og gáfum beitti hann til að rífa niður hin helgu vé. En þar kom þeirri glímu að hann varð að játa sig sigraðan. Hann gekk heilshugar Kristi á vald. Tvítugur unglingurinn varpaði fram þessari játningu: Kristur, ég lýt í lotning þér, ljós fyrir myrkur gafstu mér. Veröld án þín er viskusnauð, veitir mér steina fyrir brauð.

Lífsstefnan var þar með mörkuð. Til æviloka var hann borinn uppi af þessari bæn og játningu, sem endurómar til dæmis í sálmunum hans sem óhætt er að segja að kristni þessa lands hafi lagt sér að hjarta.

Því hefur verið haldið fram í ræðu og riti að Sigurbjörn Einarsson hafi leitt kirkjuna aftur til þröngsýni helgisiða og aflokaðra helgidóma. Það er fjarri sanni! Guðfræði hans og prédikun var alltaf glíma við samtíðina, gagnrýnin, spyrjandi nýrra spurninga, leitandi svara, ögrandi viðteknum hugmyndum, þess vegna höfðaði hann svo mjög til hugsandi og leitandi fólks. Hann hafði áhyggjur af afhelgun kirkjunnar, þegar helgin missir mál, þegar hávaðinn rýmir út kirkjugriðunum og sál manns á sér ekki lengur hlífðarskjól. Hann var óragur við að vekja máls á samfélagsmálum og enginn stóð honum á sporði þegar kom að beitingu tungunnar. Hann kenndi til í stormum samtíðar sinnar og vildi vekja þjóð sína til menningarlegrar reisnar og siðferðisstyrks á traustum grunni kristinnar arfleifðar. Í merkri barátturæðu sem hann hélt í Hátíðarsal Háskólans 1. Desember 1948 þegar minnst var þrjátíu ára fullveldis landsins sagði hann: „Minningardagar, sem helgaðir eru þeim viðburðum, sem hæst ber í vitund þjóðarinnar, eru ekki ófyrirsynju né út í bláinn ... Tilgangur og gildi þess er að sjálfsögðu að festa augu hverrar hjáfarandi kynslóðar æ að nýju og hvað eftir annað á því, sem vér eigum dýrmætast sem þjóð, því sem mestu var til kostað að eignast og aldrei skyldi glatast...Augljóst er það, að slíku hlutverki henta ekki húrrahrópin ein og skrúðmiklir sveigar á bautasteina þeirra sem fyrrum gerðu vel og fórst farsællega. Góð minning enga gerir stoð, ef hún örvar ekki sýknt og heilagt til heilbrigðrar sjálfsgagnrýni, endurskoðunar á sjálfum sér, athugunar á tilgangi sínum.“

     Ætli þetta eigi ekki eins við í dag, þegar minnst er hundrað ára fullveldis? Heilbrigð sjálfsgagnrýnin, endurskoðun á sjálfum sér, athugun á tilgangi sínum sem þjóð, fullvalda ríki? Já, og sem þjóð- kirkja?

Sigurbjörn var trúvarnarmaður gegn hverskyns vitsmunahroka og andlegu yfirlæti. Mál hans var borið uppi af yfirburðaþekkingu á guðfræði, trúarbragðavísindum og trúarheimspeki, trúarsálarfræði sem og hræringum samtíðarinnar. Til hinsta dags las hann og fylgdist grannt með því sem var að gerast á sviði guðfræði og kirkju og menningarmála, og á vettvangi dagsins. Sigurbjörn taldi að trú og boðun kirkjunnar ætti alltaf að birtast í verki, í virkri þjónustu við lífið og náungann. Kærleiksþjónusta kirkjunnar var honum hjartans mál og hann vildi efla sofandi söfnuði til dáða í þeim efnum. Því beitti hann sér fyrir stofnun Hjálparstofnunar kirkjunnar til að beina kærleiksþjónustunni í öruggan farveg. Þeir eru enn sem muna hálfa öld til baka hve hann hreif ungt fólk með sér með Bíafra söfnuninni og herferð gegn hungri og svonefndi Hungurvöku í dymbilviku þar sem tugir, ef ekki hundruð ungs fólks safnaðist saman og fræddist um hungrið í heiminum. Það var honum mikið hjartans mál að kirkjan gleymdi ekki þeirri köllun sinni sem birtist í guðspjalli dagsins, og brýni einstaklinga og samfélag til dáða í virkri þjónustu við þau snauðu og þjáðu heima og heiman.

Andvaraleysið rann honum til rifja, eins og þegar hann sagði í prédikun: „Líf flestra manna er líkast kirkjusvefni. Þeir sofa þangað til sagt er „amen“. Þá hrökkva þeir upp. En þá er um seinan að heyra eilífðarboðskapinn og taka á móti blessuninni frá Drottni. Þannig vaknar margur þá fyrst, þegar dauðinn nálgast og segir sitt amen yfir lífi þeirra.“

Mánuði áður en hann lést flutti hann eftirminnilega prédikun á Reykholtshátíð. Ekkert benti þá til þess að hann væri á förum, orðin léku honum enn jafn lipur á tungu, hugsun hans skýr og eldmóðurinn óbugaður er hann talaði til samtíðar sinnar með spámannlegri andagift. Engum datt í hug að þar væri svanasöngur öldungsins. Sjálfur vissi hann að hver dagur, sérhver stund er gjöf, þegin úr föðurhendi Skaparans. Og að allt er náð. Þarna talaði hann jafn glöggskyggn sem fyrr á öfga samtíðar sinnar: „Það kemur fyrir,“ sagði hann, „að mennirnir blindast og krossfesta sína eigin gæfu, hjálp og blessun. Verst fer þeim ævinlega, þegar þeir blindast af ímynduðum glansi af sjálfum sér – ég er ekki viss nema einhverjir sperrtir hanar á tildurshaugum samtímans mættu taka þetta til sín.“

Þetta var sneið hans í garð þeirra sjálflægni og græðgi sem leiddi til hrunsins þetta sama haust 2008.

Í prédikun út frá guðspjalli dagsins í dag, sögunni um miskunnsama Samverjann, sagði hann: „Þetta segir hann sem gerði meira en að boða kærleikann. Hann er kærleikurinn. Hann sem benti ekki aðeins á veginn, heldur er vegurinn, sannleikurinn og lífið. Kærleikur er stórt orð, auðvelt í munni, erfitt í framkvæmd. Ég rís ekki undir því orði. Það er aðeins einn sem rís undir því, sá sem sagði söguna um miskunnsama Samverjann og lifði þá sögu, sem lauk á krossi kærleikans.

Ég þarf hjálp til þess að læra fyrstu stafina í stafrófi kærleikans, fyrstu drögin að leyndarmáli hins eilífa lífs. Ég þarfnast hans, sem hefur gefið mér kirkjuna sína og orðið sitt og vill gefa mér anda sinn. Ég þarfnast hans. Því vil ég tilheyra honum.

Og það veit ég fyrir víst, að ég þarf á hans miskunn að halda, þegar ferðasagan mín um lífsins veg verður kölluð fram af filmunni og metin.“

Svo mörg voru þau orð.

Síðasta daginn sem hann var með meðvitund safnaðist fjölskyldan saman við sjúkrarúmið hans. Hann hafði beðið um sakramentið, sem við neyttum saman.   Að því loknu lyfti hann upp höndum og blessaði okkur. Nokkrum stundum síðar var hann látinn. Á náttborðinu lá blaðið sem ég nefndi með orðunum: „Jesús er á krossinum sínum að skapa páska handa mér og okkur öllum. Dýrð sé þér, Drottinn minn.“ Þetta voru kveðjuorðin hans skrifuð veikum mætti rétt áður en hann dó. Rithöndin er óstyrk, en trúarvissa hans var sterk til hinstu stundar. Guð gefi okkur öllum blessun þeirrar vissu og vonar.

Dýrð sé þér Drottinn minn. Amen