Prédikun frá 20.01.2019 eftir frú Agnesi M. Sigurðardóttur, biskup Íslands

Prédikun flutt við vísitasíu í Seltjarnarneskirkju 2. sd. e. þrettánda, 20. janúar 2019. 
1. Sam. 3:1-10; Róm. 1:16-17; Lúk. 19:1-10.

Við skulum biðja:

Miskunnsami Guð í kærleika þínum er kraftur til umbreytingar.  Leyfðu okkur að komast að raun um, að þú getur látið gleði vaxa upp úr sorginni, frið og sátt verða milli þeirra sem deila, öruggt traust fæðast í vonleysinu og fyrirgefningu í sektinni.  Gef okkur styrk trúarinnar að við teystum því að líf okkar beri ávöxt.  Þess biðjum við í nafni Jesú Krists sem vitjar barna sinna.  Amen.

Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi.  Amen.

Kæri söfnuður, ég þakka ykkur fyrir að taka á móti mér hér í Seltjarnarneskirkju en þetta er fyrsta prestakallið sem ég vísitera eða heimsæki í þessu prófastsdæmi eins og fram kom hjá sóknarprestinum hér í upphafi.  Ég mun á næstu rúmum tveimur mánuðum heimsækja hverja sókn í prófastsdæminu og einnig kynna mér sérþjónustu kirkjunnar sem tilheyrir þessu prófastsdæmi.  Ég þakka sóknarnefndinni fyrir störfin öll hér í sókn, organistanum og kirkjukórnum þakka ég þeirra trúu og dyggu þjónustu.  Kirkjuverði, sóknarpresti og öðru starfsfólki þakka ég einnig því það er ekki sjálfgefið að halda úti öflugu kirkjustarfi og þjónustu þar sem saman vinnur fólk bæði í launuðum og ólaunuðum störfum.  Fyrir hönd þjóðkirkjunnar sem ég leiði nú um stundir þakka ég ykkur öllum og bið Guð að launa ykkur þjónustuna.

Það eru myndrænar frásagnirnar úr Gamla testamentinu og úr Nýja testamentinu sem lesnar voru hér í dag.  Sagan um drenginn Samúel sem var kallaður til þjónustu og sagan af Sakkeusi sem gjörbreytti lífi sínu þegar Jesús kallaði á hann.  Í pistlinum segist postulinn ekki fyrirverða sig fyrir fagnaðarerindið.

Nafnorðið köllun er notað yfir það þegar fólk fær löngun til að sinna ákveðnu starfi eða ákveðinni þjónustu.  Hjá prestum er talað um innri köllun og ytri köllun.  Innri köllunin lýsir sér þannig að viðkomandi einstaklingur finnur hjá sér löngun og þörf á því að boða fagnaðarerindið.  Ytri köllunin er þá þegar viðkomandi er kosinn til prestsþjónustu af fulltrúum safnaðar.  Presturinn er þannig kallaður til þjónustu af því fólki sem þjónustunnar nýtur.  

Okkur er ýmislegt gefið við fæðingu.  Við höfum mismunandi hæfileika og áhugi okkar liggur ekki á sama sviði hjá öllum.  Áhugi okkar og hæfileikar vísa okkur veginn til þess sem við viljum læra og eða starfa við í lífinu.  Þannig er fólk kallað til ýmissa starfa og flest störf felast í því að þjóna náunganum á einn eða annan hátt.  

Marteinn Lúther sem kirkja okkar er kennd við leit svo á að við værum öll kölluð til þjónustu við hvert annað.  Mannfólkið væri kallað til að vera iðnaðarmenn, skrifstofufólk, gullsmiðir, lögfræðingar, læknar, prestar og fleiri starfsgreinar mætti nefna.  Hann minnti á að öll störf eru nauðsynleg og merkileg. Hann áleit líka að við værum kölluð til ólíkra hlutverka.  Ef við lítum í eigin barn þá sjáum við fljótt að við höfum mörg hlutverk í lífinu.  Í fjölskydum okkar erum við börn foreldra okkar, eiginmenn, eiginkonur maka okkar, foreldrar barna okkar, höfum hlutverk í þeim félögum sem við tilheyrum og fleira mætti nefna.  Í okkar samfélagi gengur vinnan fyrir flestu öðru.  Ég hef heyrt þetta nefnt vinnuköllunina sem er þá álitin æðst allra köllunarhlutverka.  Æðri en þær skyldur sem við höfum við fjölskyldu okkar og samfélag og jafnvel við okkur sjálf.  Vinna færir okkur reyndar laun í peningum sem við fáum ekki annars staðar frá.  Vinnulaun eru nauðsynleg og réttlát skipting launa milli þegnanna er vissulega mikilvægt atriði eins og bent hefur verið á í þeim kjarasamningaviðræðum sem nú eru að fara í gang.  En það hefur líka verið bent á að auður er ekki endilega veraldlegur.  Hann er ekki síður fólgin í mannauði eins og oft er bent á varðandi kirkjuna okkar.  Mannauður kirkjunnar er hennar mesti auður og dýrmætari en allur hinn veraldlegi auður sem oft er nefndur þegar Þjóðkirkjuna ber á góma í opinberri umræðu. 

Sakkeus sem Jesús sá uppi í trénu þangað sem hann hafði klifrað til að sjá Jesú almennilega var tollheimtumaður, meira að segja yfirtollheimtumaður eins og segir í guðspjallstextanum.  Þar er einnig tekið fram að hann sé auðugur, ríkur maður, þá væntanlega á veraldlega vísu.  Það fer ekki alltaf saman að vera ríkur á veraldlega vísu og andlega vísu.  Tollheimtumenn voru ekki sérlega vinsælir því þeir voru innheimtumenn ríkisins, unnu fyrir erlenda yfirvaldið sem réð ríkjum í landinu á þessum tíma.  Sakkeus hins vegar var kannski ennþá óvinsælli og þar með vinafár því hann hafði innheimt of háan skatt af fólkinu, skilað ríkinu því sem það átti að fá og setti mismuninn í eigin vasa.  Það heitir á nútímamáli að stela.  Hann braut sem sagt 7. boðorðið „þú skalt ekki stela“.   

En batnandi mönnum er best að lifa og Sakkeus notaði tækifærið þegar hann varð þess áskynja að Jesús væri kominn til Jeríkó þar sem hann bjó.  Sakkeus langaði til að hitta Jesú.  

Það virðist vera mikill áhugi á því að bæta daglegt líf.  Gæta að heilsunni og efla lífsgæðin.  Alls konar tilboð berast til okkar í því sambandi. Nútíminn kallar á að við séum batnandi menn. Að því leyti líkist nútímamaðurinn Sakkeusi.  Þess er hvergi getið í guðspjallinu að hann hafi strengt þess heit að nú skyldi hann fara í ræktina, sund eða að ganga 40 mínútur á dag.  Þess er hins vegar getið að Sakkeus hafi orðið glaður þegar Jesús kallaði á hann og hann hafi sagt við hann eftir heimsókn Jesú að hann ætlaði að gefa helming eigna sinna og ferfalt þeim sem hann hafði tekið meira af en hann mátti sem tollheimtumaður.

Hugarfar Sakkeusar breyttist við það að hitta Jesú.  Það sama gerist hjá okkur nútímafólki þegar við ákveðum að breyta um lífsstíl.  Hugarfarið er aflið sem knýr okkur áfram, eins konar vél sem við setjum í gang og gefur okkur kraft og stefnufestu.  Nútímamaðurinn stundar oft á tíðum kristna íhugun en kallar það hugleiðslu.  Nútímamaðurinn leitast við að lifa farsælu lífi þar sem hugur og hreyfing fer saman og kallar það jóga.  Margt af því sem boðið er upp á í nútímanum og stundað er á sér rætur í kristinni trú og menningu en við lítum fram hjá því.  Alda Karen segir „ég er nóg“ og fyllir hvern salinn á fætur öðrum af áheyrendum.  Almenningur er að leita að lífsfyllingu og tilgangi og eru þó nokkur kölluð til að leiðbeina fólki á þeim vegi.  

Kristin trú og kirkja hefur þetta allt fram að færa og gerir það á hverjum degi. Það er ekki selt inn á fyrirlestrana og fræðsluna í kirkjunum heldur er hið taktfasta kirkjustarf alltaf í gangi og brotið upp með alls konar uppákomum inn á milli.  Hér í þessari kirkju virðist vel hugsað um að efla anda sóknarbarnanna ef marka má það sem hægt er að lesa á heimasíðu safnaðarins.  Takk fyrir allt það góða starf sem hér fer fram og takk aftur fyrir að gefa af tíma ykkar og kröftum þið sem berið uppi starfið sem unnið er í anda þess sem kallar okkur með nafni og gleymir okkur aldrei.

Í texta sem sunginn var í æskulýðsstarfinu í mínu ungdæmi kemur glöggt fram hvernig lífi Sakkeus lifði fyrir og eftir.  „Hann Sakkeus var oftast einn, þó auðugari væri´ei neinn.  Menn sögðu´ hann vera vondan mann og vini átti enga hann“. Svo breyttist allt og söngurinn endar á þessum texta:  „Hann Sakkeus bjó áfram einn, en aldrei glaðari varð neinn.  Hans eini vin af öllum bar, nú einmana ei framar var.“  

Þó Sakkeus væri ríkur á veraldlega vísu var hann fátækur að öðru leyti.  Hann var einmana maður sem fólk hafði ekki áhuga á að umgangast vegna þess að hann hlunnfarði fólk og koma þannig illa fram við það.

Jesús kallar fólk til þjónustu enn í dag.  Hann vekur löngun hjá fólki til ákveðinna verkefna og það er köllunin.  Í lexíunni, fyrri ritningarlestrinum í dag heyrðum við þegar Drottinn kallaði sveininn Samúel til þjónustu við sig.  Samúel varð spámaður Drottins, ekki bara af því að Drottinn kallaði hann, heldur líka vegna þess að Samúel hlýddi.  

Eins er köllun bundin þeim versum í Rómverjabréfinu sem við heyrðum lesið úr áðan. Þegar Lúther var í klaustrinu reyndi hann á allan hátt að þóknast Guði.  Hann áleit á þeim tíma að verkin skiptu öllu máli.  Hann lagði hart að sér í lestri Ritningarinnar og reyndi að komast að því sem var réttast í túlkun hennar.   Hann gerði öll þau verk sem honum voru falin, eins og best hann mátti en aldrei fannst honum hann gera nógu vel.  En eitt sinn er hann las 17. versið í 1. kafla Rómverjabréfsins rann upp fyrir honum ljós:  „Því að réttlæti Guðs opinberast í því fyrir trú til trúar, eins og ritað er:  „Hinn réttláti mun lifa fyrir trú“.  Hann var sleginn þeirri hugmynd að trúin skipti öllu máli.  Afstaðan til Guðs skipti öllu máli, ekki verkin ein og sér.  Og æ síðan hefur þetta atriði verið í hávegum haft í lúterskri guðfræði.  

Eins og sagan um Sakkeus sýnir þá má ljóst vera að afstaðan til Guðs, trúin á Guð breytir einnig afstöðu okkar til samferðafólksins.  Eftir að fundum þeirra Sakkeusar og Jesú bar saman átti Sakkeus von á nýju og betra lífi.  Hjálpræði hafði hlotnast húsi hans eins og segir í textanum.  Afstaðan til Guðs og trúarinnar er lykillinn að hjálpræðinu og þar með breyttu og betra lífi.  Margir bjóða lykla í dag að dyrum hjálpræðisins.  Sá lykill er í hendi hvers og eins og einnig í hendi hvers og eins að finna skrána sem lykillinn gengur að.  Í kirkjunni er skrána að finna sem lykillinn gengur að.  Sá lykill er ókeypis og sá lykill opnar dyr inn í nýtt líf þar sem Jesús nefnir nafn þess sem inn gengur og býður samfylgd sína hér og nú og að eilífu.  

Guð gefi góða tíma á nýbyrjuðu ári og gefi okkur allt sem við þurfum til að sjá Jesú í daglegu lífi okkar, okkur til heilla og samferðafólki okkar til blessunar.

Dýrð sé Guði föður og syni og heilögum anda, svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda.  Amen.