Hugvekja frá 18.12.2012 eftir Gunnlaug A. Jónsson

Ræðan var flutt í Seltjarnarneskirkju 18. desember 2012 og er eftir Gunnlaug A. Jónsson

 

Aðventa Gunnars Gunnarssonar[1]

Eins og hiðir mun hann halda hjörð sinni til haga

 

Þegar hátíð fer í hönd, búa menn sig undir hana, hver á sína vísu. Á þeim orðum hefst Aðventa, hin kunna og svo mjög svo læsilega saga Gunnars Gunnarssonar.        Aðventa er meðal útbreiddustu bóka Gunnars og hefur verið þýdd á fjölda tungumála.      

       Gunnar Gunnarsson var í hópi útlaganna, sem stundum eru nefndir svo í íslenskri bókmenntasögu. Það voru þeir höfundar sem í upphafi 20. aldar fetuðu í fótspor Jóhanns Sigurjónssonar og gerðust rithöfundar á danska tungu. Þar er hann í flokki með Guðmundi Kamban, Kristmanni Guðmundssyni, Friðriki Á. Brekkan og fleirum og náði Gunnar lengst þessara höfunda í vinsældum og afköstum.

Það hefur verið ein af mínum aðventuhefðum í rúm þrjátíu ár að lesa Aðventu Gunnars. Hún er sannarlega til þess fallin að koma manni í rétta jóla­skapið.

         Það vill svo til að efni Aðventu fellur mjög vel að pistlum og guðspjalli dagsins. Í Jesaja-textanum fallega sagði m.a.: „Eins og hirðir mun hann halda hjörð sinni til haga,/ taka unglömbin í faðm sér / og bera þau í fangi sínu / en leiða mæðurnar.“ Stefið hirðir og hjörð er meðal þess sem tengir saman testamentinu tvö, hið Gamla og hið Nýja. Sjálfur nefndi Jesús sig góða hirðinn í þekktri dæmisögu í Jóhannesarguðspjalli og svo má nefna að nokkrar að kunnustu persónum Gamla testamentisins voru fjárhirðar áður en þeir fengu guðlega köllun um enn mikilvægari embætti. Það á við um Móse sem leiddi hinu fornu Hebrea eða Ísraelítana út af Egyptalandi, það á einnig við um Davíð konung, sömuleiðis um Amos, spámanninn áhrifamikla, að ógleymdum Guði sjálfum í einum kunnasta og áhrifamesta texta Gamla testamentisins, 23. Davíðssálmi „Drottinn er minn hirðir.“ Og nú á þriðja sunnudegi á aðventu kveikjum við á þriðja aðventukertinu sem kallast hirðakertið.

Og stefið hirðir og hjörð er einmitt grundvallarstef í Aðventu Gunnars Gunnarssonar. Gott og mikilvægt dæmi um hve bókmenntir okkar Íslendinga eru fullar af biblíulegum og kristilegum stefjum. Því miður er margt sem bendir til að biblíuþekkingu landsmanna fari hnignandi, eins og raunar svo víða á vesturlöndum, og það hefur það m.a. í för með sér að fólk verður illa læst á ýmsar bókmenntir og aðrar lisgreinar í menningararfi okkar. Og það á sér stað á sama tíma og ýmsum finnst ekki nóg að gert í því að jaðarsetja kristna trú eða skáka hinum kristna boðskap til hliðar.

Í einni af jólabókunum í ár, ævisögu Abraham Lincoln Bandaríkjaforseta eftir Thorolf Smith eru höfð þessi orð eftir Lincoln, hinum dáða forseta: „Allt það sem æskilegt er fyrir velferð mannsins, bæði í þessu lífi og öðru, má finna í Biblíunni.“ Hér er í kirkjunni voru félagsmenn Gídeon-félagsins einmitt að kynna sína mikilvægu starfsemi um s.l. helgi, en þeir eru ekki lengur velkomnir að kynna starfsemi sína í skólum Reykjavíkurborgar eða dreifa þar Nýja testamentinum eins og gert hefur verið um áratugaskeið.

Það er mikill skaði, óskynsamleg ákvörðun og furðulegt að þessi bók bókanna sem svo ríkulega hefur mótað íslenska menningu og íslenskan trúararf í 1000 ár skuli þannig gerð hornreka í íslensku skólakerfi. Miklu nær væri að auka fræðslu um hana til mikilla muna. Áhrif þeirrar góðu bókar, sem raunar eru nokkrir tugir bóka, eru mikil og augljós í Aðventu Gunnars Gunnarssonar. Hún er stútfull af biblíuvísunum í bland við einstakar veðurfarslýsingar höfundar sem er stílisti af Guðs náð með „öræfin í blóði sínu“ eins og komist hefur verið að orði.

Sannsögulegs efnis

Aðventa Gunnars er í meginatriðum sannsögulegs efnis byggð á frásögum af frægum svaðilförum Benedikts Sigurjónssonar, öðru nafni Fjalla-Bensa, á Mýrdalsöræfum og einkum þó eftirleitarferð sem hann fór í desember 1925. En sagan Aðventa er ekki fyrst og fremst saga af íslenskri hetjulund. Miklu fremur er hún kristin dæmisaga, um breytni eftir Kristi, að feta í fótspor hans þó að sannarlega sé hægt að njóta hennar án þess að hafa þá eftirfylgd eða hliðstæðu í huga. Í grunninn virðist þessi fallega saga mjög efnislítil: „Maður þvælist með hundi og hrút um öræfin í desember, leitar að kindum, hreppir slæm veður en kemst lifandi til byggða,“ eins og rithöfundurinn góðkunni Jón Kalman Stefánsson hefur dregið efni hennar saman.

       Í búningi Gunnars Gunnarssonar verður þessi einfalda saga af Fjalla-Bensa að áhrifamikilli prédikun þar sem ákveðinn skyldleiki er við innreið Jesú í Jerúsalem, þ.e. guðspjall 1. sunnudags í aðventu, en á þeim degi lagði Bensi upp í árlega för sína upp á fjöll og firnindi til þess að leita uppi eftirlegukindur sem mönnum hafði sést yfir í haustgöngunum þremur.

        Þó að enginn maður væri með Benedikt í hinni árlegu eftirleit hans var hann þó ekki einn síns liðs. Hundurinn Leó var með honum og einnig sauðurinn Eitill, sem svo var nefndur sökum harðfengi sinnar. Hundurinn Leó og hrúturinn Eitill taka á sig skýr, persónuleg einkenni þannig að lesandann gleymir því næstum að þarna eru maður og dýr á ferð. Í huga hans verða þeir þrír félagar, ekki maður og dýr. Þeir verða „þrenning“ svo vitnað sé í trúarlegt tungutak bókarinnar.

       Á þessum árstíma er allra veðra von og oftast var hreint ekki gott leitarveður fyrir Fjalla-Bensa, og ferðafélaga hans þá Leó og Eitil. Þeir ferðuðust stundum um nótt í tunglsljósi, inn á milli þögulla fjalla. Þeir leituðu að týndum kindum, eftirlegukindum óralangt frá alfaraleiðum. Benedikt átti sjálfur aðeins fáar kindur og þær voru allar komnar af fjalli. Hann leitaði því ekki síns eigin, eftirleit hans var þjónusta sem hann innti af hendi af fúsum og frjálsum vilja við aðra bændur í sveitinni. Raunar var það ekki fyrst og fremst vegna bændanna.

Nei, það voru eftirlegukindurnar sjálfar, sem hann var á hnotskóg eftir …. Það, sem fyrir honum vakti, var blátt áfram ekkert annað en það að finna þær og koma þeim heilu og höldnu undir þak, áður en hátíðin mikla breiddi helgi sína yfir jörðina og fyllti friði og velþóknan hugi þeirra manna, sem gert hafa getu sína.

Dæmi um venju á aðventu

Árlega leit Benedikts í Aðventu að eftirlegukindum er óvenjulegt dæmi um hvernig íslenskur einstaklingur býr sig undir þá hátíð ársins sem í huga okkar flestra er mestur ljómi yfir.

       Öllum er okkur væntanlega ljóst að ýmsar aðventuhefðir og venjur okkar Íslendingar hafa breyst mjög verulega á undanförnum árum. Þessi breyting verður okkar a.m.k. augljós ef við hugleiðum hversu annkannalega orðið jólafasta lætur nú í eyrum. En jólafasta og aðventa hafa löngum verið nánast samheiti í hugum Íslendinga þó að merking orðanna sé vissulega ólík. Héldi einhver því fram að fasta væri enn snar þáttur á aðventu okkar Íslendinga þá myndi það hljóma sem hreinustu öfugmæli í eyrum okkar flestra.

         Hins vegar leikur ekki nokkur vafi á því að kirkjulegt starf hefur aukist mjög á aðventunni í íslenskum söfnuðum hin síðari ár. Mikið framboð er af tónleikum og öðru efni sem laðar fólk að kirkjunni í ríkum mæli.

         Á þessum árstíma erum við enn og aftur minnt á langa samleið trúar og lista, ekki síst trúar og tónlistar, eins og guðsþjónustan hér í dag er eitt dæmi um, þökk sé Selkórnum og hans fallegu og vel fluttu tónlist.

        

Jólafasta og gildi kyrrðarinnar

Á síðari árum hefur Hjálparstofnun kirkjunnar á Íslandi vísvitandi notað orðið jólafasta í stað aðventu til að minna á að eðlilegt sé að fólk neiti sér um eitthvað þegar stórhátíðarinnar er beðið og láti jafnframt eitthvað af hendi rakna til sinna minnstu bræðra og systra.

       Ég er örugglega ekki einn um þá skoðun að þó að margt gott megi segja um hina nýju aðventu og þá ekki síst hið aukna starf í kirkjunum þá hafi eitthvað tapast, munurinn á aðdraganda hátíðarinnar og hátíðinni sjálfri sé að þurrkast út. Þá eru þeir örugglega margir sem á þessum tíma sakna kyrrðar og jafnvel þagnar frammi fyrir öllum þeim hávaða sem umlykur mann nú í öllu auglýsingaflóðinu fyrir jólahátíðina.

       „Í þögn og næði tekur guðrækin sál framförum og nemur þar hinar huldu merkingar ritninganna,“ segir í einni af frægustu bókum kristninnar Breytni eftir Kristi eftir Thomas a Kempis[2]. Boðberar kristninnar hafa á öllum tímum bent á mikilvægi kyrrðarinnar, mikilvægi þess að draga sig um stund í hlé frá skarkala umhverfisins. Þessu atriði má þó ekki rugla saman við heimsflóttastefnu því boðskaparinn umþjóðfélagslega ábyrgð er enn ríkari þáttur í kristninni.

       Þetta tvennt, mikilvægi kyrrðarinnar og þess að láta sér annt um náunga sinn í víðasta skilningi þess orðs (skepnurnar þar með taldar) virðist mér sameinast ákaflega vel í Aðventu Gunnars Gunnarssonar. Þar segir m.a. (s. 76): „Beinlínis mannfælinn var Benedikt engan veginn, en á aðventugöngum sínum hafði hann vanið sig á að forðast mannlegt föruneyti. Það fékk honum leiða að hlusta á byggðaskraf allan liðlangan daginn inn á milli fjallanna – þar átti hann heima.“

Hér í Seltjarnarneskirkju leiðum við líka hugann að þessu. Í gær var boðið uppá sérstakan kyrrðardag á aðventu, en margir finna til mikillar þarfar fyrir kyrrð og næði á þessum tíma. En sjálfum finnst mér alltaf sem aðventutónlistin flytji með sér kyrrð og rói hugann – skapi hugarástand helgi og eftirvæntingar.

Hugtakið Aðventa

Ég hóf mál mitt hér í dag á því að vitna í upphafsorð Aðventu Gunnars Gunnarssonar. Þar segir frá því að hugtakið aðventa hafði líka í sér fólgna mikla helgi í huga Benedikts. Hann „tók sér orðið í munn með varfærni, þetta stóra, hljóðláta orð, svo furðulega annarlegt og inngróið í senn, ef til vill inngrónast Benedikt allra orða. Að vísu var honum ekki fyllilega ljóst, hvað það þýddi, en þó var það fólgið í að vænta einhvers, eftirvænting, undirbúningur — svo langt náði skilningur hans. Með árunum var svo komið, að þetta eina orð fól í sér næstum allt hans líf. Því að hvað var líf hans, hvað var líf mannsins á jörðinni, annað en ófullnægjandi þjónusta, sem þó varð manni kær með því að vænta einhvers, með eftirvæntingu, undirbúningi?“

Ég er ekki viss um að merking orðsins verði skýrð mikið betur en gert er í sögu Gunnars Gunnarssonar. Örugglega kemur mörgum í hug dæmisaga Jesú af góða hirðinum undir lestri Aðventu Gunnars og það er engin tilviljun. Meira að segja nefndi Gunnar frumgerð sögu sinnar á dönsku einmitt Góða hirðinn. Sjálfur sagði Jesús um sig: „Ég er góði hirðirinn, góði hirðirinn leggur líf sitt í sölurnar fyrir sauðina“ (Jóh 10:11).

       Það leiðir líka hugann að því að það voru fjárhirðar sem fyrstir tóku á móti fagnaðarboðskapnum um fæðingu frelsarans á hinni fyrstu jólanótt á Betlehemsvöllum.

       Við skyldum hugleiða það vel í hverju jólaundirbúningur okkar ætti helst að vera fólginn, hvernig við verjum aðventunni best. Upplagt er að taka sér Biblíuna í hönd á aðventunni og hugleiða gildi hinnar kristnu trúar, hver sé boðskapur jólanna og hver kjarni hinnar kristnu trúar og kristins siðar.

Að gleðja sína nánustu er okkur ljúft og fjarri því að vera nokkur kvöð. En kristin siðfræði kennir að við höfum skyldum að gegna gagnvart fleirum en okkar nánustu og þeim skyldum höfum við margvíslega möguleika til að sinna.

Prédikunartextar dagsins, lexía, pistill og guðspjall, eiga það sameiginlegt að þar er vitnað til spámanna. Þeir töluðu ekki bara um framtíðina, þeir töluðu fyrst og fremst um þjóðfélagsboðskap líðandi stundar þó sannarlega boðuðu þeir komu frelsarans einnig. Það gerði t.d. Míka sem uppi var á 8. öld fyrir Krist. Hann segir í 5. kafla rit síns: „En þú Betlehem í Efrata, ein minnsta ættborgin í Júda, frá þér læt ég þann koma sem drottna skal ... Hann mun standa sem hirðir þeirra í krafti Drottins, Guðs síns, og þeir óhultir verða. Þá munu menn mikla hann allt til endimarka jarðar.“ Þessi Míka segir í næsta kafla á eftir, og hafa þau orð oft verið kölluð samnefnarinnar fyrir siðferðisboðskap spámanna hinna helgu bókar: „Maður, þér hefur verið sagt hvað gott er og hvers Drottinn væntir af þér: þess eins að þú gerir rétt, ástundir kærleika og þjónir Guði í hógværð.“ Og í guðspjalli dagsins svarar Jóhannes skírari fólkinu er það spyr hvað það eigi að gera: „Sá sem á tvo kyrtla gefi þeim sem engan á og eins geri sá sem matföng hefur.“

        Kirkjan hefur löngum notað aðventuna eða jólaföstuna til að minna sérstaklega á þurfandi meðbræður okkar og systur svo er enn. Því þjónustuhluverki kristins manns hefur Gunnar Gunnarsson lýst betur en flestir aðrir í hinni frábæru dæmisögu sinni Aðventu.

         Ég vil ljúka þessum orðum mínum á að vitna í Aðventuljóð sem góður vinur minn úr sóknarnefnd sendi mér seint í gærkvöldi. Það er eftir Ragnar Inga Aðalsteinsson, ég les 1. Og 7. Erindið:

1

   Í myrkrinu aðventuljósin loga

   sem lýsandi bæn um grið.

   Þessi veröld er full af skammdegisskuggum

   það skortir á gleði og frið.

   Það er margt sem vakir í vitund okkar

   sem við höfum þráð og misst.

   Þá er í sálinni styrkur og hjartanu huggun

   að hugsa um Jesú Krist.

  

 

   7

   Í myrkrinu aðventuljósin loga

   sem lýsandi himnesk rós.

   Ógnþrungnir skammdegisskuggar víkja

   við skínandi kertaljós.

   Á jörðinni fölskvast hin andlegu efni

   og oft er hér þungbær vist.

   Þá er sálinni styrkur og hjartanu huggun

   að hugsa um Jesú Krist.

 

      Amen.



[1] Flutt í Seltjararneskirkju 3. Sunnudag í aðventu 16. des. 2012.

[2] Breytni eftir Kristi eftir Thomas a Kempis (1. s. 50).