Prédikun frá 08.05.2016 eftir Sr. Solveigu Láru Guðmundsdóttur, vígslubiskup

Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi.  Amen.

Gleðilega hátíð og gleðilegan mæðradag!  Til hamingju allar mæður með þennan dag.  Það er stórkostleg köllun og mikilvægt hlutverk sem Guð hefur falið okkur sem erum mæður hér inni.

Já, það eru gleðidagar í kirkjunni okkar á þessum árstíma.  Við lifum enn í fögnuði upprisunnar allt frá páskum og nú höfum við haldið uppstigningardag og hvítasunna er framundan um næstu helgi, hátíð heilags anda.  Og í dag er okkur heitið heilögum anda.  

Guðspjall dagsins talar um hjálpara.  

Mér hefur alltaf fundist þetta svo fallegt orð: hjálpari.  

Við þurfum öll á hjálpað halda í þessu lífi.  Hjálp í erfiðleikum, hjálp við dagleg verkefni, hjálp við að lifa þessu lífi.

Hjálparinn hefur verið afar raunverulegur í mínu lífi.

Heilagur andi hefur leitt mig áfram alla mína ævi.

Ég hef beðið um blessun hans og mér hefur verið heitið blessun.  Þegar ég horfi yfir farinn veg, þá sé ég hönd Guðs leiða mig áfram, sterka hönd, en hlýja og milda, hönd sem hefur leitt mig áfram, hönd sem hefur leitt okkur öll sem hér erum inni í kirkjunni í dag.  Þetta er handleiðsla Guðs í öllu lífi okkar.  

En þó Guð hafi leitt okkur, þá hefur hann ekki lofað okkur einföldu lífi.  Hann hefur ekki lofað okkur lífi án erfiðleika, en hann hefur heitið okkur blessun.  Blessun Guðs er þessi fullvissa og trú að Guð leiði okkur í gegnum allt og allt verði gott.

Það var mikil blessun að ég skildi sækja um Seltjarnarnesprestakall fyrir 30 árum.  Aðdragandinn var nokkur.  Ég bað heitt og innilega.  Ég bað Guð um að gefa mér tákn. Ég var svo ung þá!

En Guð gaf mér tákn sem birtist í símtali og ég fer ekki nánar í að útlista hvað það var, en það varð til þess að ég sótti um og það var nokkuð djarfmannleg ákvörðun þar sem tveir merkis prestar höfðu gefið það út að þeir myndu sækja.  Og þegar ég hafði sótt um tók við strangur tími, erfiður tími því prestskosningar eru ekki gott fyrirkomulag.  

Þetta var mjög sérstakt.  Fólkið vildi fá að ráða hver yrði presturinn þeirra, en svo fékk það auðvitað ekki að ráða.  Þetta var erfiður tími fyrir umsækjendur, en þetta var líka erfiður tími fyrir söfnuðinn.

Umsækjendur opnuðu kosningarskrifstofur á Eiðistorgi.  

Ég fékk skrifstofuhúsnæði í óinnréttuðum kjallara og þar  var vinnan unnin.  Ég fór í heimsóknir, miklar umræður áttu sér stað um kirkjustarfið og svo voru haldnar kynningarmessur.  Þær voru haldnar hérna niðri í kjallaranum þar sem safnaðarstarfið var unnið fyrstu árin, áður en kirkjan var tilbúin.  Og ég man ennþá guðspjalllið sem ég lagði út af.  Það var úr sjöunda kafla Jóhannesarguðspjalls þar sem segir.  

“Ef nokkurn þyrstir, þá komi hann til mín og drekki.  Frá hjarta þess sem trúir á mig munu renna lækir lifandi vatns.”

Ég man nú ekki núna hvernig ég lagði út af þessu því ég á predikunina ekki lengur, enda var hún skrifuð á ritvél, sem ég átti á þessum tíma, sem var ekki einu sinni rafmagnsritvél og það var ekkert joð á henni svo það voru víða eyður í textanum.  Munið þið eftir svona ritvélum?

Þetta hljómar eins og það hafi verið í fornöld.

Í kynningarmessunni söng hún Elísabet okkar Eiríksdóttir lag sem ég valdi.  Hún vildi auðvitað syngja eitthvað stórkostlegt söngverk, en ég bað hana um að syngja þetta litla bænavers:

“Ég er hjá þér, ó, Guð, sem barn hjá blíðri móður,

sem lítill fugl á mjúkri mosasæng..

Ég er hjá þér, ó, Guð og þú ert hér ó Guð og nóttin nálgast óðum, ef þú ert hér þá sef ég sætt og rótt.”

Hún söng þetta svo fallega eins og allt sem hún gerir.  Þakka þér innilega fyrir það Elísabet.

Það var stór hópur sem hjálpaðist að í kosningabaráttunni.

Erna Kolbeins var þá formaður kvenfélagsins og lagði sitt af mörkum.  Jón Jónsson kom daglega með kex og kökur handa okkur.  Og svo voru það margir sem nú eru fallnir frá eins og Magnús Georgsson.  Hann sagði að sá sem hann myndi styðja myndi vinna og það kom á daginn.  Hann studdi mig og ég vann.  Svo var það Jón Gunnlaugsson, en í dag eru einmitt liðin 102 ár frá fæðingu hans og svo var það hún Erla okkar Jóns, sem tók að sér forystuna í kosninabaráttunni.  Eljan og dugnaðurinn í henni var ótrúlegur.  Guð blssi minningu þeirra allra.

Í dag fáum við fyrirheiti um hjálpara.  Ég hefði ekki getað byggt upp safnaðarstarf hér frá grunni án hjálpara.  Guð var alltaf með mér í verki.  Það voru mörg verkin sem hér þurfti að vinna bæði gleðileg og sorgleg.

Þrisvar þurfti ég að jarðsyngja börn sem ég hafði fermt.  Það voru erfiðustu verkin.  En Guð var með.  Hjálparinn var með bæði mér og fjölskyldunum sem misstu og gaf hjálp og styrk.

Hjálparinn var með mér og hann er með mér og hann er með þér.

Við stöndum alltaf frammi fyrir einhverjum verkefnum, áhyggjur þjaka og stundum leggst yfir okkur svartsýni.  Þá tekur Guð í hönd okkar og lyftir okkur upp.

Héðan frá Seltjarnarnesi leiddi Guð okkur upp í sveit og við höfum búið í sveit núna í sextán ár.  Þau ár höfum við stundað saufjárrækt af veikum mætti.  Nú er einmitt sauðburðartími og ég hef stundum séð hönd Guðs eins og hönd bóndans, sem kemur nýfæddu lambi á lappir.  Það er óstöðugt þegar það kemur úr móðurkviði, en hönd bóndans heldur því þar til það getur staðið.

Þannig lyftir Guð okkur upp.  Þess vegna er svo gott að koma til kirkju og finna kraftinn og máttinn sem er svo miklu æðri en við.

Á gleðidögum kirkjunnar skulum við rækta gleðina, gleðina yfir upprisu frelsarans, gleðina yfir því að lífið hefur sigrað dauðann, ljósið hefur sigrað myrkrið og kærleikurinn hefur sigrað hatrið og illskuna.

Fögnum komu heilags anda á hvítasunnu, andans sem leiðir okkur áfram í þessu lífi – til blessunar.

Dýrð sé Guð föður og syni og heilögum anda.  Svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda.  Amen.