Ræða frá 01.01.2017 eftir Þórleif Jónsson

Hugleiðingar um áramót

Þórleifur Jónsson:

Hátíðarræða í Seltjarnarneskirkju á Nýársdag 2017

 

Áramót – nýtt ár - tímamót.  Áramót gefa ekki aðeins tilefni til að rifja upp hvað gerst hefur eða leiða hugann að því sem framundan er, heldur vakna þá gjarnan hugrenningartengsl við hið magnaða fyrirbæri er við köllum tíma. Er tíminn ekki dularfullur? Það sem einum finnst stuttur tími finnst öðrum langur. “Fyrir þér er einn dagur sem þúsund ár,” segir í Þjóðsöngnum okkar.  Langur tími finnst okkur en í veraldarsögunni stuttur.  Svo er hann líka mismunandi í augum barna og fullorðinna. Sonardóttir okkar sagði fyrir skömmu við ömmu sína: “Amma þú ert eldri en skólinn minn!” Amman hafði gengið í þennan skóla sjálf og síðar kennt í honum. Var amman gömul eða skólinn ungur?

Prédikarinn segir:  “Öllu er afmörkuð stund og sérhver hlutur undir himninum hefur sinn tíma.   Að fæðast hefur sinn tíma og að deyja hefur sinn tíma, .....að gráta hefur sinn tíma og að hlæja hefur sinn tíma.”  Hjá Prédikaranum er lífið fullt af andstæðum; “að rífa niður hefur sinn tíma og að byggja upp hefur sinn tíma.”

Íslenska alfræðiorðabókin segir m.a. um tímann: “samfella sem hefur ekki rúmvídd, líður án afláts og er jafnvel talin óendanleg.”

Í stofunni í Brekkukoti, sögu Halldórs Laxness, var klukka sem Álfgrímur, barnabarn Björns sáluga í Brekkukoti taldi sig heyra segja;  ei-líbbð, ei-líbbð. Hann taldi sig líka hafa lifað í eilífðinni þar til hann uppgötvaði að allir menn eru dauðlegir.  Hafa sem sagt upphaf og endi. Og hvernig átti hann þá frekar en aðrir dauðlegir menn að skilja óendanleikann sem stærðfræðin skilgreinir sem; “stærð sem vex út fyrir öll gefin mörk.”

Miklihvellur sem vísindin segja okkur að hafi átt sér stað fyrir 13,7 milljörðum ára er kenning sem segir að alheimurinn eigi sér upphaf í tíma og að þá hafi heimurinn verið gríðarlega þéttur og heitur og er hugtakið notað um þann tímapunkt er rúm byrjaði að þenjast út.      13,7 milljarðar ára!.  Stærð sem mannshugurinn á erfitt með að ná utan um.

Samkvæmt kenningunni átti alheimurinn sem sagt upphaf og um  400 milljarðar af sólum og ótal milljarðir hnatta urðu til í einni sprengingu.  En var eitthvað til á undan Miklahvelli?  Varð hann úr engu? 

Ekki eru allir vísindamenn á sama máli um hvernig ástand heimsins var fyrir þennan mikla atburð, hins vegar eru ýmsar getgátur um tilurð og uppruna alheimsins, vangaveltur sem gjarnan skipta mönnum eftir því hvort þeir eiga sér guðstrú eða ekki.   

Ég fæ ljóð Lárusar Jónssonar, bróður míns, “Úr alls engu”, lánað til að leggja orð inn í þá umræðu:

                        Úr alls engu
                        í einhverja öreind efnis
                        er endalaus vegleysa
                        og úr andanum
                        í efnið
                        er ekki síður
                        óskiljanlega langt.
                        Allt í einu varð
                        alheimurinn þó til.
                        Líf á jörðinni
                        fann langa leið
                        frá amöbum
                        til óratoría Bachs.
                        Sumir segja
                        allt þetta
                        orðið
                        fyrir algjöra
                        og einstæða tilviljun.
                        Mikil er trú þín vitiborni maður.

Í sjónvarpsþætti frá BBC, “Heimur mannkynsins” (Human Universe) sem sýndur var í ríkissjónvarpinu fyrir skömmu rifjar höfundurinn, hinn ungi vísindamaður og prófessor, Brian Cox upp að það eru liðin 200 þúsund ár síðan mannkynið varð til í Sigdalnum mikla í Suður Afríku. Þar segir einnig: “Síðan höfum við lært að hugsa, dreyma og vinna saman. Og nú nær siðmenning mannsins um allan hnöttinn og út fyrir hann.   Á 40 þúsund árum höfum við lært að skyggnast lengra en hellisbúarnir sem teiknuðu myndir í bústaði sína og sýndu fyrstu tilburði til menningar gætu hugsanlega hafa ímyndað sér. Við höfum gert heiminn að okkar heimi. Og núna erum við á krossgötum, menningarsamfélög okkar tíma hafa það í hendi sér að móta framtíð hnattarins og farsæld okkar og lífsbarátta er mikið til undir því komin í hvað við grillum úti í myrkum óravíddum himinhvolfsins. Vísindi og rökhugsun eru leiðarljósið.”

Já víst eru vísindin stórkostleg og þekkingin sem verður til vegna þeirra.  Horfum bara á allar framfarirnar; læknavísindi, örgjörfann og upplýsingatæknibyltingu, lífeindatækni, uppgötvun DNA erfðaefnisins og urmul tækninýjunga sem hafa skapað ótrúlegustu framfarir sem létta manninum lífið.

En eru vísindin og þekkingin þá almáttug, hjálpa þau okkur til að leysa alla hluti?

Hjálpa þau okkur að takast á við óvægna umræðu, hótanir og svik sem nýleg félagsfræðirannsókn leiðir í ljós að er algeng á netinu? 

Hjálpa vísindin  okkur við að stöðva grimmdina, ofbeldið og mannréttindabrotin í heiminum sem virðast vera takmarkalaus og við heyrum um í mörgum fréttatímum á degi hverjum; sprengjuárásir, hungursneyðir flóttamannastraum og þjóðflutninga sem eru að verða, meira að segja ríkustu þjóðum heims, algerlega ofvaxin.

Hjálpa þau okkur við að fást við  einelti sem er eitthvað mesta ofbeldi sem hugsast getur?

Hjálpa þau okkur að takast á við ofbeldisumræðu og gengdarlaust áreiti sem við getum kallað ofuráreiti og birtist í ýmsum myndum, ekki bara í samskiptafjölmiðlum heldur líka hefðbundnum fjölmiðlum svo og í samfélagi sem einkennist sífellt meir af hávaða og skarkala.

Í stjónmálaumræðunni fyrir nýafstaðnar Alþingiskosningar var mikið talað um nauðsyn á fleiri sálfræðingum í skólana. Mikil alvara og  þungi var í umræðunni.

Hver er orsökin?  Er eitthvað í samtímanum sem er svo yfirþyrmandi að unga fólkið okkar í skólunum missir jafnvægið og höndlar ekki eigin tilfinningaheim? Stafar þetta af innri baráttu eða ytra áreiti?

Bent hefur verið á að sumt komi innan frá.  Einhver óróleiki sé í sálinni. Margir einblína á tölvutæknina og tala um “puttakynslóðina”. Unga fólkið sé niðursokkið í smáskilaboðin, nái ekki eðlilegum mannlegum samskiptum þar sem þau eru upptekin í  að grúfa sig niður í snjallsímana. Nálæg persónuleg samskipti séu á útleið og fjarskipti séu komin í staðinn.  Eftirsóknin eftir “lækum” sé í forgrunni. Það er ósjaldan sem maður hefur heyrt ömmur eða afa lýsa áhyggjum yfir því þegar barnabörnin koma í heimsókn og eru í raun fjarri þar sem þau grúfa sig niður í snjallsímana og taka ekki þátt í samveru fólksins á staðnum. Er þetta klisja eða nöldur í eldri kynslóðinni sem stöðugt hrópar “heimur versnandi fer”? Kannski – kannski ekki.  Tæplega er þetta einhlýt skýring á vanlíðan þessarar kynslóðar, en í öllu falli er þetta eitthvað sem rétt er að leiða hugann að ásamt fleiru.

En það er ekki bara unga fólkið sem á við vanda að stríða að þessu leyti.  Fyrir skömmu bárust þær fréttir að við ættum met a.m.k. meðal Evrópuþjóða  í notkun verkja- og kvíðastillandi lyfja.

Sálfræðingar eru sannarlega mikilvægir til að takast á við óróleika í tilfinningalífinu, og má sannarlega taka undir að efla beri starf þeirra bæði innan skólanna og utan. Svo nauðsynlegt sem er að takast á við afleiðingar vanlíðunar af þessu tagi  hlýtur að vera mest um vert að ráðast að rótum vandans, öðlast lífsmáta sem dregur verulega úr eða útrýmir óróleikanum í sálinni.

Í þjóðfélagi okkar má finna fullt af dæmum um stórkostlega hluti sem gefa góðar vonir um að stefni í rétta átt, þjóðfélagið okkar sé að verða kærleiksríkara.  Horfum bara á hina blómlegu menningarstarfsemi í landinu, tónlistina, bókmenntirnar og listir af hverju tagi þar sem fegurð er höfð í hávegum. Á nýliðinni aðventu komu t.d. fram fjölmargir hópar m.a. barna og listamanna sem sýndu hið sanna innihald jólanna og veita með því gott fordæmi og vekja athygli á og styðja við þá aðila sem halda á lofti grunngildum kærleika og mannúðar. En eins og hjá Prédikaranum er lífið fullt af andstæðum. Allir hlutir hafa tvær hliðar og má nota á misjafna vegu.  Listina má t.d. misnota eins og dæmin sanna þegar ljótleiki og lágkúra ná yfirhöndinni. Sama má segja um vísindin og tæknina. Vísindalegar uppgötvarnirnar gætu verið að útrýma manninum svo sem mikið er rætt um í tengslum við hlýnun jarðarinnar af manna  völdum. En þau eru sennilega ein helsta vonin til að bjarga manninum frá eigin tortýmingu ef þau eru rétt notuð.

Meira að segja trúarbrögðin má misnota. Hinn mikli trúmaður Sigurbjörn Þorkelsson segir í Morgunblaðsgrein í nóvember sl. : “Ég tel mig svona almennt bera mikla virðingu fyrir skoðunum fólks og vonandi trúarskoðunum þar með talið. Alla vega svo framarlega sem mannúð og mildi, umburðarlyndi en þó fyrst og fremst virðing fyrir náunganum og samhjálp er í hávegum höfð. Ég viðurkenni þó að öfgar finnast mér ekki bara varasamar heldur óásættanlegar. Þar sem fólk er kúgað til skoðana eða hrætt til hlýðni við einhvern meintan málstað sem eru túlkunaratriði og vafasamar seinni tíma kenningar manna. Sagan kennir okkur og dæmin sanna að vissulega sé hægt og það afar auðvelt að misnota trúarbrögð sér í hag og/eða til þess að drottna yfir náunganum eða tilteknum hópum fólks. Slík framkoma finnst mér óeðlileg með öllu og hugnast mér engan veginn. Ég tek það hinsvegar mjög alvarlega að fá að velja það að vera kristinnar trúar.”

Hlutir eru hvorki vondir né góðir í sjálfu sér. Máli skiptir hvernig þeir eru notaðir.  Sagt er í hálfkæringi að rónarnir komi óorði á  brennivínið og er þá á gamansaman hátt átt við að misnotkun á annars gagnlegum hlut geti leitt til ófarnaðar.  Sprengjur eru notaðar á hræðilegan hátt í stríði en einnig til gagnlegra hluta t.d til að sprengja göng í gegnum fjöll.  Sprengja  er ekkert annað en orka sem leyst hefur verið úr læðingi.  Veröldin var jú sköpuð með sprengju!

Fjölmargir aðilar leitast við að hjálpa fólki til að finna skjól frá skarkala heimsins og öðlast frið og ró í lífi sínu. Ýmsar hjálparstofnanir, s.s. Hjálparstofnun kirkjunnar og Rauði krossinn sýna með fordæmi sínu kærleika í verki og veita þeim sem taka þátt í starfinu með framlögum eða sjálfboðaliðastarfi mikla ánægju og samkennd.

Fjöldi sjálfshjálparbóka hafa verið skrifaðar og námskeið haldin til að yfirvinna streitu.  Skipuleg átök til að komast á rétta braut eru prýðileg.  Átök koma þó ekki í stað lífsmáta sem varir.

Hér er kirkjan valkostur. Hún hefur sinn boðskap og skapar ef rétt er á haldið skjól og  von og innri frið.

Því miður er kirkjan í vörn í okkar upplýsta þjóðfélagi.  Skyldi það vera vegna þess hve trúarbrögðin hafa oft og eru enn notuð sem skálkaskjól fyrir grimmilegum átökum og jafnvel stríði eða hafa vísindin yfirtekið vitsmunina og að nú þyki ekki lengur gáfulegt eða jafnvel þyki barnalegt að leita skjóls innan ramma hennar?  Eða er kannski bara ekki nógu mikið fjör og gaman að leita skjóls utan skarkala heimsins þar sem tilbeiðsla fer jafnframt fram?  Er kannski ekki  þörf á einhverjum Guði eða almætti til að temja sér og leita að grunngildum kærleika og mannúðar?

 

Hverjum og einum er auðvitað frjálst að leita sinna leiða til að nálgast sinn lífsmáta. Það er vísast hægt að sækja sér andlegt fóður og hafa mannúð og mannréttindi í hávegum án þess að sækja kirkju eða hafa guðsorð á vörum. En hvar værum við án kirkjunnar?

Mér verður hugsað í þessu sambandi til prédikunar sr. Hjálmars Jónssonar, dómkirkjuprests þegar hann talaði til nýkjörinna alþingismanna við þingsetningarguðsþjónustu fyrir skömmu. Hann vitnaði í Kristján Eldjárn fyrrum forseta Íslands, sem hefði stigið í stólinn í Tjarnarkirkju í Svarfaðardal eftir að hann lét af embætti og sagt m.a.: „Ég hef stundum fengið að heyra það á minni ævi, að ég sé ekki mikill kirkjunnar maður og fannst sumum það nokkur ljóður á ráði mínu að ég færi ekki mikið með guðsorð í ræðum sem ég hélt meðan ég var forseti. Satt mun það vera, og víst get ég ekki hrósað mér af því að ég sé kirkjurækinn maður í venjulegum skilningi þess orðs. En ég vona að það sé ekki hræsni þegar ég segi að það er trú og sannfæring okkar allra, að við Íslendingar, hvort sem við erum veikari eða sterkari í trúnni, ættum að lofa forsjónina fyrir það að við skulum tilheyra hinum kristna hluta mannkynsins í þessum ekki allt of góða heimi, að við búum við hugsunarhátt, þjóðlíf og menningu sem um aldir hefur mótast af kristinni trú og kristinni kirkju. Þetta eru dásamleg forréttindi, sem aðeins nokkur hluti jarðarbúa nýtur. Þetta held ég að hver íslenskur maður ætti að gera sér ljóst og íhuga í alvöru.“

Það væri verðugt áramótheit að íhuga mikilvægi þess að allir geri sér ljóst hve mikils virði okkar kristna arfleifð er. 

Margt færi betur í heiminum ef menn temdu sér lífsmáta sem hefur að leiðarljósi hin fleygu orð; “Það sem þér viljið að aðrir menn gjöri yður það skulið þér og þeim gjöra.”

Gleðilegt ár!