Prédikun frá 12.02.2017 eftir Sr. Kristján Val Ingólfsson, vígslubiskup

Predikun í Seltjarnarneskirkju 12. febrúar 2017

Fyrsti sunnudagur í níuviknaföstu.

Guðspjallið eftir annarri textaröð Mattheusarguðspjall 25. 14.30

Svo er um himnaríki sem mann er ætlaði úr landi. Hann kallaði á þjóna sína og fól þeim eigur sínar. Einum fékk hann fimm talentur, öðrum tvær og þeim þriðja eina, hverjum eftir hæfni. Síðan fór hann úr landi. Sá sem fékk fimm talentur fór þegar, ávaxtaði þær og græddi aðrar fimm. Eins gerði sá er tvær fékk. Hann græddi aðrar tvær. En sá sem fékk eina fór og gróf fé húsbónda síns í jörð og faldi það. Löngu síðar kom húsbóndi þessara þjóna og lét þá gera skil. Sá með fimm talenturnar gekk þá fram, færði honum aðrar fimm og sagði: Herra, fimm talentur seldir þú mér í hendur, hér hef ég grætt aðrar fimm. Húsbóndi hans sagði við hann: Gott, þú góði og trúi þjónn. Yfir litlu varstu trúr, yfir mikið mun ég setja þig. Gakk inn í fögnuð herra þíns. Þá gekk fram sá með tvær talenturnar og mælti: Herra, tvær talentur seldir þú mér í hendur, hér hef ég grætt aðrar tvær. Og húsbóndi hans sagði við hann: Gott, þú góði og trúi þjónn, yfir litlu varstu trúr, yfir mikið mun ég setja þig. Gakk inn í fögnuð herra þíns. Loks kom sá er fékk eina talentu og sagði: Herra, ég vissi að þú ert maður harður sem uppsker þar sem þú sáðir ekki og safnar þar sem þú stráðir ekki. Ég var hræddur og fól talentu þína í jörð. Hér hefur þú þitt. Og húsbóndi hans sagði við hann: Illi og lati þjónn, þú vissir að ég uppsker þar sem ég sáði ekki og safna þar sem ég stráði ekki. Þú áttir því að leggja fé mitt í banka. Þá hefði ég fengið það með vöxtum þegar ég kom heim. Takið af honum talentuna og fáið þeim sem hefur tíu talenturnar. Því að hverjum sem hefur mun gefið verða og hann mun hafa gnægð en frá þeim sem eigi hefur mun tekið verða, jafnvel það sem hann hefur. Rekið þennan ónýta þjón út í ystu myrkur. Þar verður grátur og gnístran tanna.

Náð sé með yður og friður frá Guði Föður og Drottni vorum Jesú Kristi. Amen.

Upp, upp, mín sál og allt mitt geð,

upp mitt hjarta og rómur með,

hugur og tunga hjálpi til.

Herrans pínu ég minnast vil.

Horfi ég nú í huga mér,

Herra minn Jesú, eftir þér.

Dásamleg eru dæmin þín.

Dreg ég þau gjarnan heim til mín. Amen

Kæri söfnuður útvarpsins, og söfnuður Seltjarnarneskirkju. Þökk fyrir að bjóða mér að koma hingað til ykkar í dag og þökk fyrir þá virðingu sem mér er sýnd í þessari guðsþjónustu safnaðarins. Allt hefur sinn tíma, og mér mun því miður ekki vinnast tími til að vísitera með formlegum hætti Seltjarnarnessöfnuð á þeim mánuðum sem ég á eftir í starfi.

Það er fyrsti sunnudagur í níuvikna föstu og við horfum með Jesú til Jerúsalem, hina löngu leið föstunnar, allt upp á Golgatahæð, niður að gröfinni og upp aftur þaðan í undrabirtu upprisunnar, inn til Guðs eilífðar og segjum með Hallgrími: Upp, upp, mín sál, og allt mitt geð.

Á miðvikudaginn kemur hefst lestur Passíusálmanna hér í Ríkisútvarpinu. Í heimi þar sem stundum virðist að á fátt sé lengur treystandi, er gott að vita að Ríkisútvarpið gleymir ekki Passíusálmunum, þó að þeim fjölgi meðal okkar sem gleyma þeim, og jafnvel líka ríkisútvarpinu og þjónustu þess!

Kannski, - kannski eru Passíusálmarnir dýrmætasti ávöxtur hinnar lúthersku siðbótar sem við minnumst nú í ár, þegar liðnar eru fimm aldir frá upphafi hennar.

Passíusálmarnir setja okkur í ákveðnar stellingar, ef svo má segja. Annars vegar er hinn rauði þráður þeirrar vegferðar sem Jesús valdi sér á fyrrnefndri leið, og hinsvegar er það saga mannsins, saga allra manna við hlið Jesú, í fylgd hans og í eftirfylgdinni við hann, á hinum mörgu myndum æviskeiðsins; jarðvistarferlinum öllum frá vöggu til grafar.

Það er gangan með Jesú Kristi.   Ég horfi á líf mitt og sögu, hvernig hann stígur inn í mína sögu og ég í hans.

Þýski guðfræðingurinn Dietrich Bonhoeffer skrifaði;

Við þurfum aftur og aftur,  mjög lengi og í mikilli kyrrð og rósemi að sökkva okkur í huganum  inn í líf, orð og gjörðir, þjáningu og dauða Jesú, til þess að læra að þekkja það sem Guð hefur heitið og sjá hvernig  hann uppfyllir fyrirheit sín. … Ég á ekki að reyna að sjá hvar Guð kemur við sögu  í minni sögu, heldur hvar mín saga  fellur inn í sögu Guðs.   Þannig orðar hann þetta.

Saga okkar spannar æviskeiðið frá vöggu til grafar. En ferðalagið sem hefst við fæðinguna hafði þegar hafist, við fyrstu frumuskipti í móðurlífi, og ferðalagið sem lýkur við gröfina hefur þegar verið framlengt til eilífðar, með Guði, sem kveikir það líf sem fær viðdvöl á jörðu og fullkomnast í himninum.

Guðspjall þessa sunnudags fjallar um talentur sem mönnum er trúað fyrir og ávöxtun þeirra. Þetta er harður lestur en alveg sannur. Sá sem á mikið fær mikið, sá sem á lítið fær lítið, og sá sem á ekki neitt fær ekki neitt, og er að síðustu rekinn út. Sá sem á miklar húseignir getur keypt eignir, sá sem á litlar húseignir getur keypt litlar eignir, og sá sem á ekki neitt getur ekki keypt neitt og ef hann er svo heppinn að fá leigt en á í erfiðleikum með að standa í skilum, verður honum hent út.

Það sem við sjáum að getur illa passað í þessari mynd, er að svona sé Guðs ríkið. Jafnvel þótt við myndum, af því að þetta dæmisaga, jafnvel þótt við myndum skipta út talentunum, sem sannarlega eru í upphaflegri merkingu, peningaleg verðmæti, yfir í eitthvað allt annað, eins og til dæmis lífsávextina góðu, að láta gott af sér leiða og laða fram hið góða hjá öðrum á leiðinni okkar, gengur okkur illa að láta þetta passa saman. Og samt er það í rauninni augljóst að ef við gröfum okkar talentu í jörð en notum hana ekki þá erum við ónýtir liðsmenn guðsríkisins.

Það gildir jafnt um einstaklinga og um söfnuði. Þó að þetta sé ekki beinlínis vísitasíupredikun þá liggur nærri að minna á að þetta fallega Guðshús sem þið hafið reist hér á Seltjarnarnesi, það lifir ekki af fegurð sinni og ekki heldur af sóknargjöldum safnaðarins, heldur vegna þess að hér er vettvangur fyrir líf í trú, og uppbyggingu safnaðarins, til þess að tryggja að þetta fallega hús standi ekki tómt eftir fimmtíu ár, eða verði í breytt til annarra og framandi þarfa.

Nei. Guðspjallið sem fjallar um talentur fjallar ekki um bankastarfsemi. Það fjallar um hlutverk okkar og verkefni á lífsleiðinni. Það fjallar um tækifæri og um ábyrgð og um hið ómetanlega sem okkur er öllum gefið af , ríkulega, til ávöxtunnar í lífinu og um það hvernig við sem erum samferða á lífsveginum getum stutt hvert annað og notið ríkulegrar blessunar Guðs. En einnig þeirrar blessunar sem við getum veitt hvert öðru og erum rækilega minnt á í hvert sinn og við notum hina góðu kveðju: Komdu eða vertu blessuð og blessaður.

Kæri söfnuður. Talentur okkar eru margar og ýmislegar. Og, við þurfum sjálf að sjá þær og meta þær og ávaxta þær. En ein tegund talentanna er sú sem við öll eigum og lýst er svo með orðum Jesú sjálfs:

36Vakið því allar stundir og biðjið svo að þér megið umflýja allt þetta sem koma á og standast frammi fyrir Mannssyninum.“ Lúk. 21.36

Þetta undirstrikar Hallgrímur í fjórða Passíusálmi:

Bænin má aldrei bresta þig.

Búin er freisting ýmislig.

Þá líf og sál er lúð og þjáð,

lykill er hún að drottins náð.

Það er alveg víst að í bæninni er ávöxtun guðsríkisins mikil. Af einni bæn sem við höfum tekið við, bæninni sem Jesús kenndi okkur: Faðir vor, af henni vaxa allar aðrar bænir, milljónir af bænum, sem Guð heyrir, og þess vegna á þakkarbænin að vera fremst og fyrst.

Við megum biðja um allt, og við eigum að biðja um allt, líka það sem virðist langt fyrir utan okkar seilingarfjarlægð, skilning og getu, en einmitt um það sem við náum ekki til eigum við biðja. Um að hverskyns ólán heimsins snúist til hins betra . Þess vegna biðjum við líka um kraftaverk. Í okkar eigin lífi, í lífi þjóðarinnar og alls heimsins.

Við biðjum um líf, þó að lífsvonin virðist slokknuð, við biðjum um frið, og vopnahlé, þar sem ófriður ríkir viðvarandi, við biðjum um brauð handa hugruðum heimi, og vatn handa þyrstum, og við biðjum fyrir hinum stóru og sterku í heimspólitíkinni sem hafa rauðan hnapp á valdi sínu sem gæti sett af stað verknað sem eyddi stórum hluta alls mannkyns. Við biðjum fyrir Erdogan og fyrir Putin og fyrir Trump, að Guð snúi þeim til blessunar en bægi bölvun frá. Og svo vitið þið um öll hin nöfnin sem við þurfum að nefna frammi fyrir Guðs augliti.

Það er okkar kristna hefð og arfleifð að biðja fyfir yfirvöldum heimsins, og ekki aðeins fyrir hinum íslensku, fyrir forsetanum, Alþingi, ráðherrum og dómstólum, sem við gerum á hverjum sunnudegi,í það minnsta, það er okkar venja eins og við lesum um í fyrra bréfinu til Tímóteusar:

Fyrst af öllu hvet ég til að biðja og ákalla Guð og bera fram fyrirbænir og þakkir fyrir alla menn. Biðjið fyrir konungum og öllum þeim sem hátt eru settir til þess að við fáum lifað friðsamlegu og rólegu lífi í guðsótta og siðprýði. (1.Tím. 2.1-2)

Sá aldni kennimaður séra Þórir Stephensen gekk í veg fyrir mig fyrir framan Dómkirkjuna á sunnudaginn var og sagði: Nú þarf að biðja fyrir Trump svo hann verði góður forseti. Og það er alveg rétt hjá honum. Það þarf að gera það, allsstaðar þar sem beðið er í Jesú nafni.

Guð vill sannarlega heyra okkur biðja: Verði þinn vilji. En hann vill líka heyra miklu meira. Hann vill líka heyra að við hrópum inn í himininn um allt óréttlætið, að við með honum megum snúa við, þegar leiðin er röng, og fara með vatnið þangað sem þurrkurinn er og brauðið þangað sem hungrið er.

Er ég leitaði vinar, varst þú þar. Er ég þarfnaðist hjálpar, varstu þar? Ég var svangur og þyrstur, ég var kaldur og klæðlaus, varst þú þar.

Ég er þar.Segir Jesús.

Ég er vegurinn. Ég er við veginn. Barinn og meiddur, hrakinn og heimilislaus, á flótta í ótta og skelfingu, Enginn kemur til föðurins nema fyrir mig. Ég er upprisan og lífið. Ég er vegurinn og ég er hliðið sem þú gengur í gegn um inn til eilífa lífsins. Orð Drottins.

Það er hafin níuvikna fasta.

Leiðin framundan er leiðin með Kristi.  

Einu sinni endur fyrir löngu sungum við:

Í fylgd með Kristi ég kýs að vera,

hans kærleikshönd mun mig styrkan gera,

Eins þó að margt kunni útaf bera.

Sný aldrei,við. Sný aldrei við.

Þótt aleinn virðist ég á þeim vegi

og villugjarnan hann ýmsir segi

ég veit að bróðir minn bregst mér eigi.

Sný aldrei við, Sný aldrei við

En krossinn hans fyrir stafni stendur,

þar stungnar sé ég hans líknar hendur,

frá blessun hans víkja böl og fjendur.

Sný aldrei við, sný aldrei við.

Við fylgjum honum sem við heyrðum um og sungum um á jólunum. Um hann var spádómur Jesajabókarinnar:

Á hans herðum skal höfðingjadómurinn hvíla, hann skal nefndur: Undraráðgjafi, Guðhetja,  Eilífðarfaðir, Friðarhöfðingi. Jesaja 9.5

Friðarhöfðingi. Enn er það þannig á okkar leið, lífsleið alls heimsins að mest af öllu þurfum við að biðja um frið. Biðja friðarhöfðingjann að heyra bænir okkar um frið og réttlæti. Það er alveg sama hvert við lítum nær eða fjær. Óhamingja mannanna er mest þar sem ekki er friður. Þar er engin virðing fyrir mannslífum, né menningarverðmætum, aðeins eyðilegging, morð og svívirða.

Í sálmunum er ritað: Sálmarnir 85:14 Réttlæti fer fyrir honum og friður fylgir skrefum hans.

Enginn friður, ekkert réttlæti, ekkert réttlæti engin friður.

Dýrð sé Guði í upphæðum og friður jörðu. Ekki kominn, en í vændum og alltaf á sama stað. Undir krossi Krists.

Fastan er hafin. Þegar henni lýkur munum við syngja:

Dýrð, vald, virðing og vegsemd hæst, viska, makt, speki og lofgjörð stærst sé þér, ó, Jesús, Herra hár, og heiður klár. Amen, amen um eilíf ár

Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda, svo sem var í upphafi er enn og verða mun um aldir alda. Amen.