Albertsmessa og sýning á Gróttumyndum

Sunnudaginn 10. júní kl. 11 verður efnt til Albertsmessu í Seltjarnarneskirkju. Í þessari athöfn verður Alberts vitavarðar minnst en hann lést 12. júní 1970.

Sóknarprestur og organisti kirkjunnar þjóna og Halldór Unnar Ómarsson leiðir almennan safnaðarsöng.

Pálína Magnúsdóttir, bæjarbókarvörður les ritningarlestra

Sýning á Gróttumyndum opnuð í lok athafnar. Katrín Pálsdóttir formaður menningarnefndar flytur ávarp og opnar sýninguna.

Kaffiveitingar.

Nemendur í 4. bekk í Mýrarhúsaskóla koma í Seltjarnarneskirkju

IMG_1988

Nemendur í 4. bekk í Mýrarhúsaskóla hafa komið í Seltjarnarneskirkju þrjá morgna í röð, einn bekkur í einu. Nemendurnir komu með kennurum sínum og hafa unnið verkefni úr myndum Katrínar Jónsdóttur sem eru til sýnis í safnaðarheimilinu. Nemendurnir hafa haft mikla ánægju af þessu verkefni sem er samstarfsverkefni Mýrarhúsaskóla og Seltjarnarneskirkju. Katrín listakona var á staðnum og svaraði ýmsum spurningum sem vöknuðu meðal nemenda. Hún gerði myndir sínar út frá Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Hér er svo ljósmynd af 4-LAS sem kom 15. nóvember ásamt Laufeyju Öldu Sighvatsdóttur, kennara og Önnu Katrínu Guðdísardóttur, stuðningsfulltrúa. Kirkjan bauð svo öllum upp á djús og kex áður en börnin fóru aftur í skólann.

Fjölmenni við innsetningu sóknarprests

Um 270 manns tóku þátt í messu í Seltjarnarneskirkju 25. nóvember síðastliðinn. Sr. Birgir Ásgeirsson, prófastur Reykjavíkurprófastsdæmis vestra, setti sr. Bjarna Þór Bjarnason inn í embætti sóknarprests. Fermingarbörnin gengu í fyrsta sinn til altaris með foreldrum sínum. Guðmundur Einarsson og Steinunn Einarsdóttir lásu ritningarlestra. Bjarni Torfi Álfþórsson las bænir. Félagar úr Kammerkór kirkjunnar sungu. Friðrik Vignir Stefánsson var organisti. Sunnudagaskólinn var á sama tíma. Eftir athöfn var boðið upp á smákökur (þrjár sortir) kaffi og djús.