Formaður VR prédikaði á Biblíudaginn

Stefán Einar Stefánsson, guðfræðingur og formaður VR prédikaði á Biblíudaginn í Seltjarnarneskirkju 12. febrúar síðastliðinn. Var góður rómur gerður að prédikun hans. Ritningarlestra fluttu sóknarnefndarmennirnir dr. Gunnlaugur A. Jónsson og Hrafnhildur B.Sigurðardóttir. Guðmundur Einarsson, formaður sóknarnefndar flutti lokabæn. Sóknarprestur og organisti þjónuðu ásamt félögum úr Kammerkór Seltjarnarneskirkju í þessari útvarpsguðsþjónustu. Sunnudagaskólinn var á neðri hæð kirkjunnar á sama tíma. Glæsilegar kaffiveitingar voru frambornar í safnaðarheimilinu að guðsþjónustu lokinni. Biblíusýning er í fordyri kirkjunnar og í safnaðarsal. Umrædd sýning munstanda yfir fram að næstu helgi.

Guðni Ágústsson ræðumaður á þorragleði

Hin árlega þorragleði fyrir eldri borgara var haldin 7. febrúar í Seltjarnarneskirkju. Rúmlega 70 manns tóku þátt í gleðinnni er hófst kl. 11 þar sem sóknarprestur stýrði helgistund og organisti lék undirsálmasöng. Guðni Ágústsson, fyrrverandi ráðherra flutti svo hátíðarræðu í kirkjunni og sló í gegn eins og hans er von og vísa.

Skömmu fyrir hádegi fóru allir viðstaddir yfir í safnaðarheimilið þar sem boðið var upp á ilmandi þorramat sem smakkaðist afar vel. Kirkjuverðirnir, þær Svava og Sigríður töfruðu fram þennan frábæra mat af sinni alkunnu snilld.

Organisti mætti svo með nikkuna og tók fólk undir vel þekkt lög eins og Þorraþræl, Fyrr var oft í koti kátt og fleiri lög.

Fjölsótt Gróttuguðsþjónusta

Á þriðja hundrað manns sótti fyrstu Gróttuguðsþjónustuna í Seltjarnarneskirkju sunnudaginn 5. febrúar.

Gróttufólk mætti í búningum. Fánaborg var fyrir utan kirkjuna ásamt fána Gróttu í kirkju og borðfánum í safnaðarheimili. Haraldur Evyvinds, formaður Gróttu, flutti ávarp. Guðjón Norðfjörð, gjaldkeri aðalstjórnar Gróttu, flutti hugleiðingu og las söguna ,,Þú ert frábær,” en myndir sögunnar voru sýndar á tjaldi á sama tíma. Börn og unglingar úr Gróttu lásu ritningarlestra og bænir.

 Litlu snillingarnir undir stjórn Ingu Bjargar Stefánsdóttur sungu ásamt hópi eldri borgara sungu lag Mugison, Stingum af og Gróttulagið sem er eftir Jóhann Helgason, tónskáld og tónlistarmann, en hann var viðstaddur. Þetta var í fyrsta sinn sem Gróttulagið var leikið og sungið í kirkjunni.

Sóknarprestur og organisti þjónuðu ásamt félögum úr Kammerkór kirkjunnar. Sunnudagaskólabörnin tóku virkan þátt ásamt leiðtogunum í sunnudagaskólanum. Félagsfólk í Gróttu bauð upp á kirkjukaffið, glæsilegt hlaðborð með dýrindis kræsingum.

Við þökkum kærlega fyrir framlag allra í þessari fyrstu Gróttuguðsþjónustu í Seltjarnarneskirkju.