Samkirkjuleg guðsþjónusta 22. janúar í Seltjarnarneskirkju

Samkirkjuleg guðsþjónusta í tilefni af alþjóðlegri bænaviku fyrir einingu
kristninnar var haldin í Seltjarnarneskirkju 22. janúar sl.

Prédikunflutti sr. Pétur Þorsteinsson, prestur í Óháða söfnuðinum. Sr. Arnþrúður Steinunn Björnsdóttir þjónaði ásamt sóknarpresti kirkjunnar. Ritningarlestra og bænir fluttu fulltrúar, Hvítasunnukirkjunnar, Aðventkirkjunnar, Vegarins, Kaþólsku kirkjunnar og Íslensku Kristskirkjunnar. Hljómsveitin Café Amen spilaði og söng ásamt félögum úr Kammerkór Seltjarnarneskirkju. Organisti var Friðrik Vignir Stefánsson.
Guðsþjónustunni var útvarpað.

Ársæll og Varðan í Messu

Á sunnudaginn 15. janúar var haldin fjölmenn guðsþjónusta með þátttöku félaga úr slysavarnadeildinni Vörðunni og björgunarsveitinni Ársæli. Fyrir utan kirkjuna var sýning á einni af bifreiðum Ársæls og björgunarbátnum Höllu Jónsdóttur. Í forkirkju voru myndir og munir frá báðum aðilum til sýnis.

Félagarnir Birna E. Óskarsdóttir og Hörður Kjartansson lásu ritningarlestra. Petrea Ingibjörg Jónsdóttir, stjórnarmaður Vörðunnar flutti stutta hugleiðingu ásamt Borgþóri Hjörvarssyni, formanni Ársæls. Erna Nielsen, Bára Jónsdóttir og Hörður Kjartansson lásu bænir.

Í lok guðsþjónustu afhenti Petrea Ingibjörg Jónsdóttir formanni sóknarnefndar, Guðmundi Einarssyni peningagjöf frá Vörðunni upp á kr. eitt hundrað þúsund krónur. Sóknarnefnd færir konunum í Vörðunni innilegustu þakkir fyrir höfðinglega gjöf. Þessir peningar munu koma sér vel vegna viðgerðar á snjóbræðslukerfinu sem er undir hlaði kirkjunnar. Er það sannarlega mikilvægt slysavarnarverkefni.

Konurnar í Vörðunni buðu síðan kirkjugestum upp á glæsilegt kaffihlaðborð að guðsþjónustu lokinni. Sóknarprestur og organisti þjónuðu í athöfninni ásamt félögum í Kammerkór kirkjunnar.

Kærleikur í verki

gjof2012

19. desember síðastliðinn komu þær Júlíana Björk Garðarsdóttir og Hildur Gunnarsdóttir er starfa í útibúi Íslandsbanka á Eiðistorgi í Seltjarnarneskirkju færandi hendi. Þær afhentu Guðmundi Einarssyni, formanni sóknarnefndar eitt hundrað þúsund krónur sem starfsfólk útibúsins hafði safnað fyrir fátæka og þurfandi á Seltjarnarnesi. Þessir peningar komu í góðar þarfir og var veitt til þeirra sem áttu erfitt fjárhagslega fyrir jólin.

Við þökkum starfsfólkinu fyrir einstakan hlýhug og kærleika í garð þeirra sem minna mega sín. Slík hugsun er svo sannarlega í anda Jesú Krists að hjálpa sínum minnsta bróður og systur.