Ver hljóð

Ver hljóð  
Be still for the presence of the Lord
 
Sálmurinn Ver hljóð   eftir David J. Evans (f. 1957), bæði ljóð og lag,  er saminn árið 1986. Upphaf hans er tekið úr Davíðssálmum: (DS 37:7) Ver hljóður fyrir Drottni og vona á hann. Sálmurinn er saminn árið 1986, Höfundurinn segist hafa haft í huga frásögnina af Jakob í Betel. (1.Móse.28.16-17). Þá vaknaði Jakob af svefni sínum og mælti: „Sannarlega er Drottinn á þessum stað og ég vissi það ekki.“Og hann varð hræddur og sagði: „Hversu óttalegur er þessi staður. Hér er vissulega Guðs hús og hlið himins.“  Þessi þýðing sálmsins er ekki nákvæm. Miklu frekar mætti segja að sálmurinn sé gerður með hliðsjón af frumtextanum.
 
Sálmurinn er gerður að beiðni séra Bjarna Þórs Bjarnasonar og tileinkaður Seltjarnarneskirkju í tilefni 25 ára vígsluafmælis kirkjunnar 18. febrúar 2014
 
 
Ver hljóð, því að hátign Drottins er
og helgun, nálæg þér.
Heyr! Beyg þitt höfuð nú,
og heiðra Krist í trú.
Í honum er ei synd
en eilíf fyrirmynd.
Ver hljóð því að hátign Drottins er
og helgun, nálæg þér.
 
Ver hljóð, því að dýrðin Drottins er
og dásemd hans hjá þér.
Krists Jesú eilíf ást 
ei mun í burtu mást.
Hvert auga er hann sér
aldrei frá honum fer.
Ver hljóð, því að dýrðin Drottins er
og dásemd hans hjá þér.
 
Ver hljóð, því hans mikli máttur er
og miskunn, hér hjá þér.
Hann læknar, hreinsar þig
hann gefur sjálfan sig,
um megn er ekki neitt:
Áður fékk dauðann deytt!
Ver hljóð, því hans mikli máttur er
og miskunn, hér hjá þér.
 
Kristján Valur Ingólfsson