3.desember 2023. Brynjar Níelsson. Aðventukvöld.

Gott kvöld.

Ég þakka fyrir boðið hingað í Seltjarnarneskirkju, það er mér gleði að geta heimsótt þennan góða söfnuð í annað sinn.

Það er algengt að fólk líti yfir farinn veg þegar aldurinn færist yfir og velti fyrir sér eigin lífshlaupi og lífinu almennt. Ég er þakklátur fyrir að hafa fengið að lifa á mestu uppgangstímum í hagsögu landsins þar sem velferð almennings hefur verið meiri en áður hefur þekkst í Íslandssögunni. Nú eru tækifæri til menntunar nánast óteljandi, borgaraleg réttindi hafa aukist og við eigum alla jafna möguleika til farsæls lífs. Þótt efnahagsleg staða sé ekki alls staðar jafn góð í veröldinni og hér eða í hinu kristna vestræna lýðræðissamfélagi, sýna öll gögn að það hefur dregið úr fátækt á heimsvísu  á undanförnum áratugum. Að því leyti eru mennirnir á betri stað en áður.

En er allt betra en áður? Í síbreytilegum heimi er ljóst að eitt hefur ekkert breyst, þótt samfélagið á hverjum tíma taki ýmsum breytingum, en það er maðurinn sjálfur. Við erum allt okkar líf að glíma við okkur sjálf og umhverfið. Mannlegir eiginleikar breytast ekkert og tilfinningarnar ekki heldur. Þess vegna er sami ófriðurinn í kringum okkur og stríðsátök geisa um víða veröld þrátt fyrir allar samfélagsbreytingar. Það virðist því ekki skipta höfuðmáli þótt hagsæld og velferð hafi aukist. Þá virðumst við síður en svo verða skynsamari og hæfari til að búa í samfélagi þótt menntun hafi stóraukist. Oft eiga átök sér rót í ólíkri menningu og gildum sem sýnast að öllu verulegu leyti tengjast trúarbrögðum, jafnvel þótt þau eigi sér stað innan sömu landamæra.

Stuttu eftir landnám, snemma á þjóðveldisöld, voru átök hér á landi milli kristinna manna og heiðinna. Á þessum tíma var Þorgeir Ljósvetningagoði Þorkelsson leiðtogi heiðinna manna og Síðu-Hallur leiðtogi kristinna manna. Lausn deilunnar var ekki auðveld og sagan segir að Þorgeir hafi tekið það ráð að leggjast undir feld til að íhuga hvernig unnt væri að leysa málið. Eftir nokkra daga undir feldinum á því herrans ári 1000 stóð hann á fætur gerði mönnum grein fyrir því að rétt væri að Íslendingar ættu að taka upp einn sið  og ein lög og að farsælast væri að við yrðum kristin þjóð. Taldi hann að annað leiddi til ófarnaðar. Heiðni gætu menn þó enn stundað á laun. Þannig má segja að Þorgeir Ljósvetningagoði hafi einna fyrstur manna á Íslandi gert sér grein fyrir því að til þess að Íslendingar gætu búið í sæmilega friðsömu samfélagi þyrfti það samfélag að hafa styrkan ramma. Af sögunni má þó ráða að hann hafi gert sér grein fyrir því að menn eru ekki allir eins og hafa bæði ólík gildi og ólíka trú.  

Á síðustu áratugum hefur orðið mikil breyting á íslensku samfélagi. Til landsins hefur flust meiri fjöldi erlendra ríkisborgara með önnur trúarleg og menningarleg gildi en nokkru sinni áður. Við það er ekkert að athuga og allir eru í sjálfu sér velkomnir. Af einhverjum ástæðum hefur þróunin orðið sú að stjórnvöld, ríki og sveitarfélög, hafa jafnt og þétt úthýst kristni úr skólakerfinu og reyndar víðar í samfélaginu. Nýja testamentið er nánast talið vera varasamar bókmenntir fyrir börn og litið er á heimsóknir leik- og grunnskólabarna í kirkjur á aðventunni eins og hverja aðra ögrun við önnur trúarbrögð eða trúleysi.

Fyrir þessari útskúfun kristninnar hafa verið gefnar ýmsar ástæður. Meðal annars hefur því verið hreyft að vegna mikils fjölda innfluttra frá öðrum menningarsvæðum sé Íslands orðið fjölmenningarsamfélag og því hafa sumir bent á jafnræðissjónarmið sem leiði til þess að ekki sé hægt að gera kristni hærra undir höfði en öðrum trúarbrögðum. Þá eru þeir til sem telja það andstætt ákvæði stjórnarskrárinnar um trúfrelsi, eins fráleitt og það nú er. Loks réttlæta einhverjir þessa útskúfun með því að fullyrða að trú á almáttugan Guð sé eins og hver önnur hindurvitni sem samræmist ekki vísindalegum sannleik.

Að mínu áliti er þjóð ekkert annað en stærri útgáfan af fjölskyldu. Sem betur fer erum við ekki öll eins og í hverri góðri fjölskyldu eru ólíkir einstaklingar sem fá yfirleitt að vera eins og þeir eru. Kristni er samofin íslensku samfélagi, sögu hennar, menningu og tungu. En það breytir því ekki í frjálsu samfélagi að einstaklingar eru alls konar og hvert okkar á að geta notið sín á eigin forsendum. Miklar breytingar á samfélögum hafa þó alltaf í för með sér vaxtaverki. Allir þurfa að laga sig að þeim breytingum, bæði við sem hér höfum búið alla okkar ævi og líka þeir sem hingað koma til skemmri eða lengri dvalar. Slík aðlögun má þó ekki vega að rótum samfélagsins og þeim ramma sem við höfum, allt frá fyrstu tíð, sett utan um samfélagið.

Kristni er í mínum huga ekki bara trú, heldur einnig  hluti af þjóðlegum og menningarlegum gildum okkar sem þjóðar. Boðskapur Jesú Krists og kristin trú, sem á honum byggir, hefur þannig fylgt þessari þjóð og mótað samfélag hennar nánast frá upphafi. Kristin trú er hluti af menningararfleifð okkar og sjálfsmynd þjóðarinnar. Hún hefur orðið fjölda listamanna uppspretta að listaverkum á öllum sviðum listarinnar. Má jafnvel taka svo djúpt í árinni að segja að þeir sem aldrei hafa kynnt sér kristilegan boðskap eða dæmisögur og aðrar frásagnir Biblíunnar séu illa læsir á íslenskan menningararf. Þá eru ótalin áhrif Biblíunnar og kristins tungutaks á íslenska tungu. Ég held ég geti fullyrt að sú vinna sem unnin hefur verið við þýðingu Biblíunnar á íslensku allt frá upphafi hafi sett mark sitt á tungumálið og orðið til þess að auðga og þróa það áfram.

Vegna þessa þykir mér það ekki vera trúarleg innræting að kynna öllum sem hér búa að kristni sé hluti af gildum íslensks samfélags. Þá er það ekkert óeðlilegt að kristin trú og okkar menningararfleifð sé gert hærra undir höfði en öðrum trúarbrögðum eða menningarsögu annarra þjóða og gengur á engan hátt gegn reglum um jafnræði og trúfrelsi.

Menn verða að átta sig á því að kristin trú er trú sem hefur verið lýst sem fullvissu um það sem menn vona. Hún snýst þannig ekki um vísindalegan sannleika eftir reglum náttúruvísinda. Þá má ekki gleyma því að vísindin hafa tekið miklum breytingum á tímum kristni í heiminum. Það er nú einu sinni svo að vanmáttugur maðurinn sækir styrk og huggun í trú sinni á Guð í andstreymi lífsins. Menn allra alda hafa komist að því að það er ekki alfarið hægt að treysta á læknis- og lyfjafræðina, eins góð og gagnleg og þau fræði annars eru. Samkvæmt vísindalegum niðurstöðum eykst vanlíðan barna og ungmenna með hverju árinu sem líður. Þar eru örugglega ýmsir samverkandi þættir á ferð. Það að fjarlægja úr lífi barna trúna á góðan Guð og boðskap Jesú Krists um fagnaðarerindi og náungakærleika tel ég að hafi örugglega áhrif og þá ekki til góðs. Bænin og trúin á Guð hjálpar öllum í mótlæti lífsins, enda er maðurinn hvorki fullkominn né þjakaður af vísindalegum sannleik. Maðurinn er tilfinningavera sem rembist við að búa í samfélagi sem verður sífellt flóknara.

Ég er maður fjölbreytileikans og frelsisins en ég er ekki tilbúinn að fórna menningu okkar og tungu í nafni fjölmenningar eða trúleysis. Ég er maður umburðarlyndis en ekki undirlægju. Að þessu leyti finnst mér ég vera svolítið líkur Þorgeiri Ljósvetningagoða. Ég segi, eins og einhverjir hafa sagt á undan mér: Komi þeir sem koma vilja, en hér ætlum við að halda í tungu okkar og menningararfleifð og þeir sem koma verða að sætta sig við það, hvaðan sem þeir koma úr veröldinni, að kristin trú er hluti af henni.

Þegar dregið er úr þjóðlegum, trúarlegum og menningarlegum gildum þjóðar, nánast eins og hendi sé veifað, hefur það alvarlegar afleiðingar fyrir samfélagið. Það hefur áhrif á sjálfsmynd okkar sem þjóðar og getur kippt svolítið undan okkur fótunum. Þá skapar það tortryggni, andúð og óróa sem sundrar þjóðinni en mannkynssagan lýgur engu í þeim efnum. Maðurinn lærir sjaldnast af reynslunni og skiptir þá engu þótt hvert okkar gæti veifað fimm háskólagráðum.

Sjálfur verð ég seint talinn heitur í trúnni en ég hef allt að einu alltaf verið sannfærður um að grundvallaratriðin í kristinni trú um kærleikann og fyrirgefninguna sé forsenda þess að ófullkominn maðurinn geti lifað í samfélagi við aðra menn. Kristinn boðskapur á að mínu áliti jafnvel enn meira erindi í flóknu samfélagi samtímans en áður, öllum íbúum þessa lands til gæfu og friðar, óháð trú og þjóðerni. Ég lít á kristni og kirkju sem mikilvægan hluta af menningarlegri arfleifð okkar.

Á aðventu bíðum við fæðingar frelsarans og fögnum henni á jólahátíðinni, eins og kirkjan hefur gert frá upphafi, og það gerum við enn í dag í gleði og af djörfung. Mig langar að nota þetta tækifæri til að hvetja ykkur, kæri söfnuður, og allt kirkjunnar fólk til að ganga alla daga fram með hinn góða kristna boðskap með gleði og djörfung. Kirkjan hefur enga ástæðu til annars með fagnaðarerindi sitt og kærleiksboðskap.