Ræða frá 21.02.2016 eftir Bryndísi Loftsdóttur

Kæru kirkjugestir, Séra María 

Í dag er konudagurinn. Dóttir mín, 7 ára, hefur haldið uppi rökum innan veggja heimilisins fyrir því að allir séu konur. Það sé bara þannig. Reyndar séu sumar konur með skegg og sköllóttar og þær kjósi að kalla sig menn. En þetta eru allt saman konur. Sú stutta er nánast með óeðlilegan áhuga á mannslíkamanum og þessi speki kemur til eftir lestur hennar í einhverri líffræðibók þar sem staðhæft er, að á fósturstigi hefjum við öll vegferð okkar sem konur og að það sé meðal annars ástæða þess að öll erum við með geirvörtur. Þetta með skeggið og skallann þróast svo hjá um helming fóstra og ræðst víst svo af því hvort Y litningur hafi fylgt sæðisfrumunni við getnað. 

Öfugt við það sem íslenska orðabókin segir okkur, þá eru samkvæmt þessari speki barnsins, allir konur en aðeins menn geta verið menn. Og einu sinni á ári er alveg tilefni til að halda þessari kenningu á lofti og það er einmitt í dag, á konudaginn. Konur, til hamingju með daginn!

Sjálf er ég alin upp af heimavinnandi föður, hann var úrsmiður og gerði við úr og klukkur heima við, á meðan mamma vann við skrifstofustörf í miðbænum. Ég er ekki frá því að þetta fyrirkomulag hafi haft töluverð áhrif á mig. Pabbi var alltaf til staðar en það var engin þjónusta.Y litningurinn hans fór með öll völd. Það var eiginlega alveg sama hvað ég vildi eða hvað mig vantaði, svarið af verkstæði pabba var alltaf á sömu lund: þú bjargar þér bara með þetta sjálf. 

Mamma var hins vegar þjónustufulltrúi heimilisins, ég man eftir smurbrauði með mismunandi áleggi sem hún smurði á bakka fyrir pabba áður en hún lagði af stað í vinnuna. Kannski var brauðið líka ætlað okkur krökkunum en hún sleppti tökunum á fjarstýringu heimilisins undir lok áttunda áratugarins. Fyrst kom appelsínugula Rowenta rafmagnsgrillið inn á heimilið og þá grilluðu eldri bræður mínir pylsur fyrir okkur í hádeginu. Svo kom örbylgjuofninn. Það var eins konar rannsóknarverkefni hjá okkur systkinunum að fylgjast með því hversu lengi pabbi hitaði matinn í þessu galdratæki. Hann lét það aldrei koma sér úr jafnvægi þó upphitaður kvöldmatur gærdagsins hefði bókstaflega sprungið í ofninum. Að lokum lærðist honum þó að ein til tvær mínútur væru fullkomlega nægjanlegar, við lærum nefnilega oftast eitthvað af mistökum okkar. 

Á heimilinu voru tvær klukkur á sitt hvorri hæðinni sem slógu á heila og hálfa tímanum. Því til viðbótar var algengt að pabbi stillti upp klukkum sem hann var að gera við, inni í stofu, til þess að fylgjast með því hvort þær gengju rétt. Ég man ekki til þess að þessi reglulegi klukknahljómur hafi farið í taugarnar á mér en næturgestir kvörtuðu oft sáran og lærðu fljótt að biðja pabba um að stöðva allan klukknaslátt fyrir miðnætti. En manni lærðist fljótt að þegar klukkan sló sjö á kvöldin var kvöldmatur. Ég held jafnvel að eina regla heimilisins hafi verið sú að maður átti alltaf að koma heim í kvöldmat klukkan sjö. Það var auðvitað mamma sem alltaf eldaði og ég held að hún hljóti að hafa verið með meistarapróf í tímasetningu því ég minnist þess aldrei að maturinn hafi byrjað á öðrum tíma en þegar allar klukkurnar tóku allar að slá sjö. Þrátt fyrir að stundvísi og gott tímaskyn hefur mér ekki enn tekist að leika þetta eftir nema endrum og sinnum.  Ég hef mömmu jafnvel stundum grunaða um að hafa einfaldlega alltaf verið lögnu búna að elda matinn og svo hafi þetta bara mallað hjá henni fram til klukkan sjö, en ég veit betur. Hún var og er fullkomin, líkt og allar mæður þessa heims og líkt og líklega allar dætur þessa heims er ég kvalin af samviskubiti yfir því hversu mikill eftirbátur hennar ég er á flestum sviðum.

Ég man eftir því þegar ég sagði henni fyrst frá eiginmanni mínum. Er hann ekki bara venjulegur maður? Spurði hún áhugasöm. Venjulegur! Nei, mér þótti hann nú hreint ekkert venjulegur og orðaval mömmu heldur ómerkilegt.  Síðar hefur mér hins vegar bæði lærst og skilist að orðið venjulegur getur við ákveðnar kringumstæður, verið efsta stigs lýsingarorð. Maður áttar sig á þessu eins og svo mörgu öðru, þegar maður eldist.

Fyrir utan uppeldi pabba míns, sem hafði ekki áhuga á neinu væli, þá var margt sem mótaði mig og gerði að þeim einstakling sem ég er í dag. Ég bar gæfu til að fara í framhaldsnám sem að stórum hluta gekk út á að láta reyna á hugmyndir án þess að vita hvort þær gætu gengið. Þetta er erfiðara en það hljómar og alveg sérstaklega erfitt fyrir okkur sem ekki fengum þennan örlitla Y litninginn á frumstigi. Við erum ef til vill einfaldlega of vel skapaðar. Það er óþægilegt að verða á í messunni, sérstaklega fyrir konur. Þörf okkar fyrir því að láta gott af okkur leiða og létta líf allra sem næst okkur standa, auk allra annarra, er svo sterk og við megum ekki til þess hugsa að valda ef til vill einhverjum vonbrigðum. Við klárum öll þau verkefni sem við tökum að okkur af mikilli samviskusemi og gerum svo jafn samviskusamlega lítið úr frammistöðu okkar eftir á. Við stefnum frekar á öruggan sigur en óljós endalok og við höfum því ekki verið neitt sérstaklega áhættusæknar.

En ég er sem sagt með háskólapróf í því að þora að gera mistök og ég held að fleiri konur ættu að fara í það nám. Ekkert endilega til þess að sigra heiminn og brjóta múra og glerveggi. Ég er búin að segja ykkur að orðið „venjuleg“ getur verið efsta stigs lýsingarorð.  Heldur til þess að gera hlutina aðeins öðruvísi en við erum vanar eða til þess að fara annars konar leiðir en okkar fullkomnu mæður voru vanar að fara. Rækta okkar eigin hæfileika. Og ef allt fer á versta veg þá get ég, þrátt fyrir að vera eftirbátur móður minnar um flest, sagt ykkur að guð fyrirgefur allan sólahringinn, árið um kring. 

Fyrirgefningarþjónustan hjá guði var örugglega hugsuð til þess að við værum ekki að sóa dýrmætum tíma okkar hér á jörð í sjálfsásakanir fyrir einhver smá mistök. Við hefðum aldrei lært að ganga ef við hefðum ekki mátt detta og eins er með alla hluti. En ég er mjög bjartsýn á að næsta kynslóð sé kannski að ná þessu. Þessi yngsta dóttir mín, sem ég gat um hér í byrjun, óskaði eftir því að fá að prófa að baka sína eigin pönnuköku um síðustu helgi. Þegar hún snéri við fullkomlega mótaðri jómfrúarpönnukökunni sinni, horfði hún eitt andartak á klessuna sem úr varð eftir snúninginn og sagði svo blátt áfram, enginn er bestur í byrjun. 

Með því að þora að taka áhættu og þora að gera mistök munum við þroskast og eflast sem einstaklingar alveg eins og þegar við lærðum á endanum að baka hina fullkomnu pönnuköku. Ég vil að lokum biðja Guð að fyrirgefa konum fyrir hversu fá mistök þær hafa gert um ævina.