Hátíðarguðsþjónusta á hvítasunnudag

 

Hátíðarguðsþjónusta var á hvítasunnudag. Sr. Irma Sjöfn Óskarsdóttir, héraðsprestur, prédikaði og þjónaði fyrir altari. Friðrik Vignir Stefánsson, organisti lék undir almennan safnaðarsöng sem var í umsjá félaga úr Kammerkórs kirkjunnar. Hjónin Sigríður Nanna Egilsdóttir og Ólafur Finnbogason lásu ritningarlestra. Eftir athöfn bauð söfnuðurinn upp á hjónabandssælu með þeyttum rjóma í tilefni dagsins.

Fjölmenn fjölskylduhátíð 12. maí kl. 11

 

Sunnudaginn 12. maí var efnt til fjölskylduhátíðar í Seltjarnarneskirkju kl. 11 vegna loka sunnudagaskólans. Fjölmenni var við þessa athöfn. Skólalúðrasveit Seltjarnarness (yngri deild) lék 6 lög undir stjórn Kára Húnfjörðs Einarssonar. Pálína Magnúsdóttir, æskulýðsfulltrúi og leiðtogar í sunnudagaskólanum tóku þátt í athöfninni ásamt sóknarpresti og organista safnaðarins. Söngurinn og gleðin voru einkennandi fyrir þessa athöfn. Í lokin komu tveir gestir í heimsókn, Tígri og Sveppi og gerður þeir mikla lukku. Sunnudagskólinn hefst aftur 1. september næstkomandi. Eftir athöfnina var öllum boðið upp á pylsur og Svala. Þá fóru sum börnin út á kirkjuhlaðið og krítuðu skemmtilegar myndir á stéttina. Inni fyrir bauðst börnunum að fara í andlistmálningu sem mörg þeirra þáðu.

Fjölmenni á Degi aldraðra í Seltjarnarneskirkju – 9. maí

Á annað hundrað manns sóttu guðsþjónustu í Seltjarnarneskirkju á uppstigningardag, 9. maí kl. 11. Ingibjörg Hannesdóttir, fyrrverandi leikskólakennari, flutti hugleiðingu. Ingibjörg býr á Kirkjubrautinni og sat í sóknarnefnd Seltjarnarneskirkju um árabil. Sönghópur eldri bæjarbúa er heitir Gömlu meistararnir sungu í guðsþjónustunni.  Rúmlega sjötíu eldri borgarar úr Garðabæ tóku þátt í guðsþjónustunni ásamt sr. Friðriki J. Hjartar, presti í Garðabæ. Tveir þeirra Garðbæinganna lásu ritningarlestra, hjónin Kristján Þorgeirsson og Dóra Diego. Sr. Bjarni Þór Bjarnason, sóknarprestur, þjónaði, ásamt Friðriki Vigni Stefánssyni organista. Undir lok guðsþjónustunnar þakkaði sr. Friðrik J. Hjartar fyrir móttökur og færði söfnuði Seltjarnarneskirkju bækur að gjöf frá söfnuði Vídalíns- og Garðakirkju. Öllum viðstöddum var boðið að þiggja glæsilegar veitingar í safnaðarsal kirkjunnar. Meðan á borðhaldi stóð lék Friðrik organisti undir almennan söng á harmóníku og á flygil. Kl. 10.30 á undan guðsþjónustunni flutti Guðmundur Einarsson stutt erindi fyrir Garðbæinga um Seltjarnarneskirkju í sögu og samtíð.

Við þökkum öllum er lögðu fram krafta sína í þessari guðsþjónustu.